Skip to main content

Háskólaráðsfundur 7. nóvember 2013

09/2013

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2013, fimmtudaginn 7. nóvember var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Kristín Ingólfsdóttir, Anna Rut Kristjánsdóttir, Börkur Hansen, Ebba Þóra Hvannberg, Guðrún Hallgrímsdóttir, Jakob Ó. Sigurðsson, Kristinn Andersen, Margrét Hallgrímsdóttir, María Rut Kristinsdóttir, Tinna Laufey Ásgeirsdóttir og Þorfinnur Skúlason. Fundinn sátu einnig Jón Atli Benediktsson og Magnús Diðrik Baldursson sem ritaði fundargerð.

Áður en gengið var til dagskrár greindi rektor frá því að engar athugasemdir hefðu borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Jafnframt spurði rektor hvort einhver teldi sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá. Engar athugasemdir voru gerðar við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.

1. Mál á döfinni í Háskóla Íslands.
Rektor gerði grein fyrir nokkrum málum og viðburðum frá síðasta fundi háskólaráðs og framundan.
a) Í byrjun október var tilkynnt að Háskóli Íslands væri í sæti 251-275 á nýjum matslista Times Higher Education World University Rankings fyrir árið 2013-2014. Nú hefur nákvæm röðun verið birt og er Háskóli Íslands í 269. sæti og hefur því hækkað um tvö sæti frá síðasta ári.
b) Fyrsta skóflustunga að byggingu nýs lyfjaþróunarseturs fyrirtækisins Alvogen Bio Tech á lóð Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. í Vatnsmýri var tekin 7. nóvember sl. Húsið verður um 11.000 fermetrar að stærð og er búist við að um 200 ný störf muni skapast í tengslum við hátæknisetrið.
c) Elín Blöndal hefur verið ráðin í starf lögfræðings Háskóla Íslands og hóf hún störf 1. nóvember sl.
d) Þriðjudaginn 29. október sl. hélt Georg Lúðvíksson, framkvæmdastjóri og einn stofnenda fyrirtækisins Meniga, fjölsóttan fyrirlestur í Hátíðasal í röðinni „Fyrirtæki verður til“.
e) Gengið hefur verið frá sölu húseignar að Bjarkargötu 12 sem Áslaug Hafliðadóttir ánafnaði Háskóla Íslands eftir sinn dag. Söluandvirði hússins og peningagjöf frá Áslaugu myndar stofninn að styrktarsjóði í hennar nafni sem ætlað er að stuðla að eflingu íslenskrar tungu. Settar hafa verið reglur um sjóðinn og verður honum skipuð stjórn á næstunni.
f) Nýlega var haldinn reglulegur fundur fulltrúa Háskóla Íslands með fulltrúum mennta- og menningarmálaráðuneytis þar sem farið var yfir gildandi samning milli beggja aðila fyrir tímabilið 2012-2016 og árangur háskólans skv. mælikvörðum Aldarafmælissjóðs. Unnið er að uppfærslu viðauka við samninginn.
g) Rektor hélt fyrir skömmu fund með nýju Stúdentaráði Háskóla Íslands. Á fundinum var m.a. rætt um stofnun nýrra Landssamtaka íslenskra stúdentafélaga 3. nóvember sl. Samtökin munu m.a. beita sér fyrir húsnæðismálum stúdenta og gæðamálum náms og kennslu.
h) Fyrsti fundur Stýrihóps HÍ og LSH með nýjum forstjóra spítalans verður haldinn á morgun, föstudaginn 8. nóvember.
i) Miðvikudaginn 13. nóvember nk. stendur Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum fyrir athöfn í Hátíðasal í tilefni af því að 350 ár verða liðin frá fæðingu Árna Magnússonar og verður Margrét Danadrottning heiðursgestur hátíðarinnar.
j) Fimmtudaginn 14. nóvember nk. verður haldið háskólaþing Háskóla Íslands, sbr. dagskrárlið 10a.
k) Rektor sótti fund Samtaka evrópskra háskóla (EUA) í Vilnius í síðustu viku.

2. Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur og áætlun.
Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs, og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs.

a) Níu mánaða uppgjör Háskóla Íslands 2013.
Fyrir fundinum lá uppgjör Háskóla Íslands fyrir tímabilið frá janúar til september 2013 og gerðu þau Guðmundur og Jenný grein fyrir málinu.

b) Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2014.
Fyrir fundinum lá minnisblað, dags. 8. október sl., sem rektor lagði fram á fundi með mennta- og menningarmálaráðherra. Rektor gerði grein fyrir málinu. Í máli rektors kom m.a. fram að helstu áherslumál Háskóla Íslands varðandi fjárlagafrumvarp fyrir árið 2014 eru (1.) að greitt verði kennsluframlag fyrir þá 350 nemendur sem stefnir í að verði í námi við skólann árið 2014 án þess að fjárframlag fylgi; (2.) að áformuð hækkun skrásetningargjalds úr 60.000 kr. í 75.000 kr. renni óskipt til skólans; (3.) að horfið verði frá fyrirhuguðum niðurskurði framlaga til samkeppnissjóða rannsókna; (4.) að horfið verði frá áformum um að stöðva framkvæmdir við Hús íslenskra fræða. Málið var rætt ítarlega.

c) Minnisblað um Aldarafmælissjóð Háskóla Íslands 2011-2020, dags. 16. október sl. 
Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt.

d) Minnisblað til mennta- og menningarmálaráðuneytis um kaup Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. á Sturlugötu 8, dags. 17. október sl.
Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt.

e) Minnisblað um byggingu húss Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum  tungumálum annars vegar og Húss íslenskra fræða hins vegar, dags. 16. október sl.
Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt.

f) Bréf til fjögurra ráðuneyta um framtíð Norræna eldfjallasetursins og stöðu  eldfjallarannsókna á Íslandi, dags. 28. október sl.
Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt.

g) Bréf til mennta- og menningarmálaráðherra vegna náms í ráðstefnutúlkun við Háskóla Íslands, dags. 9. október sl.
Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt.

h) Tillaga fjármálanefndar háskólaráðs um hvernig Lagadeild skuli bætt fækkun á þreyttum einingum sem af inntökuprófi leiðir, sbr. síðasta fund. 
Fyrir fundinum lá tillaga fjármálanefndar háskólaráðs um fjárhagslegan stuðning við deildir sem nota inntökupróf. Guðmundur R. Jónsson gerði grein fyrir málinu og svaraði spurningum ráðsmanna.
– Samþykkt einróma.

3. Viðræður á milli Háskóla Íslands og Landbúnaðarháskóla Íslands.
Inn á fundinn kom Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs. Fyrir fundinum lá bréf rektora Háskóla Íslands (HÍ) og Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ) til mennta- og menningarmálaráðherra um mögulega sameiningu háskólanna, dags. 4. nóvember 2013, ársskýrsla LbhÍ 2012, skilagrein nefndar um fýsileika sameiningar HÍ og LbhÍ, dags. 2. júlí 2009, og skýrsla með niðurstöðum ytra mats Gæðaráðs háskóla á LbhÍ, dags. septmber 2013. Rektor, Guðmundur R. Jónsson og Jón Atli Benediktsson gerðu grein fyrir málinu og var það rætt ítarlega. Að umræðu lokinni samþykkti háskólaráð einróma svohljóðandi ályktun:

Ályktun háskólaráðs Háskóla Íslands um mögulega sameiningu Háskóla Íslands og Landbúnaðarháskóla Íslands:

Háskólaráð Háskóla Íslands lýsir stuðningi við mögulega sameiningu Háskóla Íslands (HÍ) og Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ), í samræmi við bréf rektora beggja háskóla til mennta- og menningarmálaráðherra, dags. 4. nóvember sl.

Formleg sameining og fagleg samþætting gefur færi á að efla háskóla- og vísindastarf á Íslandi. Aukin fræðileg breidd skapar tækifæri til fjölbreyttari viðfangsefna í kennslu og rannsóknum. Sameinaður háskóli yrði þannig betur í stakk búinn til að auka fjölbreytni og gæði menntunar, s.s. á sviði auðlinda-, landbúnaðar-, skipulags-, umhverfis- og náttúruvísinda, matvælaframleiðslu og tengdra greina, og laga sig þannig að síbreytilegum kröfum. Með þessu mætti gera fyrirkomulag menntunar sveigjanlegra og um leið gæfist kostur á aukinni sérhæfingu. Möguleikum á þverfræðilegum viðfangsefnum myndi fjölga í kennslu og rannsóknum.

Ljóst er að mest fagleg samlegð LbhÍ er við Líf- og umhverfisvísindadeild innan Verkfræði- og náttúruvísindasviðs og væri því rökrétt að sú faglega starfsemi sem nú fer fram á vettvangi LbhÍ yrði innan Verkfræði- og náttúruvísindasviðs.

Háskólaráð áréttar þá fyrirvara sem fram koma í bréfi rektoranna um fjárhagsleg málefni, einkum varðandi uppsafnaðan halla LbhÍ frá fyrri árum, sem áætlaður er um 400-500 m.kr. (einsskiptiskostnaður). Einnig liggur fyrir að a.m.k. 73 m.kr. þyrfti árlega í aukið rekstrarframlag vegna starfsemi LbhÍ eftir sameiningu háskólanna og yrði slíkt viðbótarframlag að vera hluti af árlegri fjárveitingu til sameinaðs háskóla. Loks yrði að gera ráð fyrir beinum útlögðum kostnaði við innleiðingu sameiningarinnar sjálfrar, en hann er áætlaður a.m.k. 15 m.kr.

Komi til sölu eigna eftir sameiningu HÍ og LbhÍ er mikilvægt að heimild fylgi til að ráðstafa söluandvirðinu til frekari uppbyggingar kennslu og rannsókna í fyrrnefndum greinum.

4. Mat á árangri sameiningar Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands 1. júlí 2008.
Fyrir fundinum lá tillaga um skipulag og framkvæmd mats á árangri sameiningar Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands 1. júlí 2008. Magnús Diðrik gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
– Samþykkt einróma.

5. Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands. Framtíðarskipulag.
Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt. Málið verður áfram á dagskrá á næsta fundi háskólaráðs.

6. Málefni vísindasiðanefndar Háskóla Íslands.
a) Tillögur vísindasiðanefndar Háskóla Íslands um vísindasiðareglur.
b) Drög að starfsreglum fyrir vísindasiðanefnd Háskóla Íslands.

– Frestað.

7. Tillögur að breytingum á reglum fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009, sbr. tillögur í skýrslu starfshóps háskólaráðs um samræmingu á reglum og verklagi við ákvarðanatöku um málefni nemenda og starfsmanna, sbr. fund ráðsins 5. september sl. Varðar 7., 19., 50., 51., 57. og 59. gr. reglnanna.
Þórður Kristinsson gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
– Framlagðar tillögur að breytingum á reglum fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009 samþykktar einróma. Gert er ráð fyrir að gengið verði frá skipun áfrýjunarnefndar, sbr. reglubreytingarnar, á næsta fundi háskólaráðs.

8. Tillaga Heilbrigðisvísindasviðs f.h. Læknadeildar um breytingu á skipulagi náms í sjúkraþjálfun við Læknadeild Háskóla Íslands. Varðar m.a. 101. og 102 gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.
Guðmundur R. Jónsson og Þórður Kristinsson gerðu grein fyrir málinu. Málið var rætt og svöruðu þeir Guðmundur og Þórður spurningum fulltrúa í háskólaráði.
– Breytt skipulag náms í sjúkraþjálfun samþykkt einróma.

9. Bókfærð mál.
a) Skipan fastra dómnefnda fræðasviða.

Fyrir fundinum lá tillaga um fulltrúa í fastar dómnefndir fræðasviða, vegna framgangsumsókna annars vegar og nýráðninga hins vegar.
– Samþykkt.
b) Fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands.
Fyrir fundinum lá tillaga Lagadeildar um að Björg Thorarensen, prófessor, og Oddný Mjöll Arnardóttir, prófessor, verði fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Mannréttindastofnunar og varamaður verði Pétur Dam Leifsson, dósent. Skipunartími þeirra er til 30. júní 2015.
– Samþykkt.
c) Tillaga Læknadeildar um ráðningu í starf prófessors án auglýsingar, sbr. 36. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009.
Fyrir fundinum lá tillaga Heilbrigðisvísindasviðs f.h. Læknadeildar um ráðningu Kára Stefánssonar í 50% starf prófessors án auglýsingar.
– Samþykkt.
d) Tillaga að breytingu á 40. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009. Ein föst dómnefnd fyrir hvert fræðasvið.
– Samþykkt.
e) Tillaga Félagsvísindasviðs um breytingu á 84. grein reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009: Í 5., 14., 25. og 29. mgr. 84. gr., í upptalningu um meistaranám og diplómanám, verði nafni á Bókasafns- og upplýsingafræði breytt í Upplýsingafræði.
– Samþykkt.
f) Tillaga um gjaldtöku vegna sálfræðiráðgjafar í tengslum við þjálfun nemenda í  samstarfi Sálfræðideildar og Náms- og starfsráðgjafar. Bætist við upptalningu gjalda í gjaldskrá Háskóla Íslands vegna þjónustu við nemendur o.fl.
– Samþykkt.

10. Mál til fróðleiks.
a) 
Dagskrá háskólaþings 14. nóvember 2013.
b) Fréttabréf Félagsvísindasviðs.
c) Samstarfssamningur Háskóla Íslands og Hjartaverndar um kennslu og rannsóknir í lýðheilsuvísindum og öðrum heilbrigðisvísindagreinum, dags. 29. október 2013.
d) Skýrsla um ítrekaða eftirfylgni: Kostnaður, skilvirkni og gæði háskólakennslu (júní 2007). Ríkisendurskoðun, október 2013.
e) Grein rektors í Fréttablaðinu 31. október sl.

11. Önnur mál.
a) Flutningur verkefna á milli ráðuneyta.

Guðrún Hallgrímsdóttir gerði grein fyrir fyrirspurninni og var hún rædd.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.00.