Skip to main content

Háskólaráðsfundur 7. maí 2015

07/2015

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2015, fimmtudaginn 7. maí var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.

Fundinn sátu Kristín Ingólfsdóttir, Davíð Þorláksson (varamaður fyrir Áslaugu Friðriksdóttur), Ebba Þóra Hvannberg, Ingólfur Ásgeir Jóhannesson (varamaður fyrir Eirík Rögnvaldsson), Jakob Ó. Sigurðsson, Kjartan Þór Eiríksson (varamaður fyrir Margréti Hallgrímsdóttur og Tómas Þorvaldsson), Nanna Elísa Snædal Jakobsdóttir og Stefán Hrafn Jónsson. Iðunn Garðarsdóttir og Orri Hauksson boðuðu forföll og varamenn þeirra einnig. Fundinn sat einnig Magnús Diðrik Baldursson sem ritaði fundargerð. 

Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerðir fundanna 8. apríl og 10. apríl sl. og hefðu þær því skoðast samþykktar og verið birtar á háskólavefnum. Jafnframt spurði rektor hvort einhver teldi sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá fundarins. Svo var ekki. 

1. Mál á döfinni í Háskóla Íslands.

a) Páll Skúlason, prófessor og fv. rektor Háskóla Íslands, lést 22. apríl sl. tæplega sjötugur að aldri. Útför hans fór fram frá Hallgrímskirkju 4. maí sl. að viðstöddu fjölmenni. Að athöfn lokinni var erfidrykkja á Háskólatorgi, en Páll var aðalhvatamaður að þeirri byggingu. 

b) Rektorskjör við Háskóla Íslands fór fram í tveimur umferðum dagana 13. og 20. apríl sl. Var niðurstaða kjörsins sú að dr. Jón Atli Benediktsson, prófessor við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild og aðstoðarrektor, hlaut 54,8% greiddra atkvæða og verður því tilnefndur sem rektor Háskóla Íslands fyrir tímabilið frá 1.7.2015 til 30.6.2020. (Sjá dagskrárlið 3).

c) Úthlutun styrkja úr styrktarsjóði Watanabe við Háskóla Íslands fór fram að viðstöddum stofnanda sjóðsins 29. apríl sl. Að þessu sinni var úthlutað sjö styrkjum fyrir stúdenta og vísindamenn frá Íslandi og Japan.

d) Hinn 5. maí sl. hélt Gunnar Þór Hallgrímsson fuglafræðingur erindi í fyrirlestraröðinni „Vísindi á mannamáli“. Fjallaði erindi hans um veirusýkingar í fuglum og mönnum.

e) Fjórum styrkjum var úthlutað úr Styrktarsjóði Áslaugar Hafliðadóttur til eflingar íslenskri tungu 6. maí sl. Var þetta fyrsta úthlutun úr sjóðnum sem var stofnaður árið 2014 með rausnarlegri gjöf, húseign að Bjarkargötu og peningasjóði. (Sjá dagskrárlið 9b).

f) Menntasjóður Mæðrastyrksnefndar hefur á undanförnum árum styrkt konur til náms á ýmsum skólastigum og mun sjóðurinn veita 27 styrki í ár. 

g) Sigurður Magnús Garðarsson prófessor við Umhverfis- og byggingaverkfræðideild og formaður gæðanefndar háskólaráðs verður fulltrúi í stýrinefnd vegna samstarfsverkefnis evrópskra háskóla í orkuvísindum á vegum EUA – European Platform of Universities engaged in Energy research (EPUE).  

h) Um þessar mundir fer fram þarfagreining vegna fyrirhugaðrar endurskoðunar á vef Háskóla Íslands. 

i) Háskólaþing Háskóla Íslands verður haldið 21. maí nk. (Sjá lið 9c). 

j) Árlegur samráðsfundur stjórnenda Háskóla Íslands og Félags íslenskra framhaldsskóla verður haldinn mánudaginn 11. maí nk. Fundarefnið er áhrif styttingar framhaldsskólanáms á undirbúning nemenda og inntöku þeirra í háskólanám. 

k) Rektor sagði frá nýjum starfsháttum sem verið er að innleiða hjá háskólaráði Háskólans í Lúxemborg vegna fundargagna og upplýsingamiðlunar til ráðsins.

2. Frá kjörstjórn rektorskosninga 2015. Niðurstaða kosningar til embættis rektors fyrir tímabilið 1.7.2015-30.6.2020, skýrsla kjörstjórnar ásamt samantekt eftirlitsaðila.

Inn á fundinn komu Björg Thorarensen, prófessor og formaður kjörstjórnar vegna rektorskjörs við Háskóla Íslands og Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs. Fyrir fundinum lá skýrsla um störf kjörstjórnar og gerði Björg grein fyrir henni. Í skýrslunni kemur m.a. fram að framkvæmd kosningarinnar, sem var í fyrsta sinn haldin með rafrænum hætti, hefði tekist vel. Í skýrslu kjörstjórnar eru jafnframt nokkrar ábendingar sem huga þarf að í kjölfar kosningarinnar. Málið var rætt og þökkuðu ráðsmenn Björgu og öðrum fulltrúum í kjörstjórn, starfsmönnum Reiknistofnunar Háskóla Íslands og öðrum aðilum sem tóku þátt í undirbúningi og framkvæmd kosningarinnar.

– Samþykkt að fela stjórnsýslu háskólans að fara yfir framkomnar ábendingar um reglur og framkvæmd rektorskjörs við Háskóla Íslands og undirbúa viðbrögð við þeim. Málið verður tekið aftur upp í háskólaráði í haust.

3. Tilnefning háskólaráðs til embættis rektors fyrir tímabilið 1.7.2015-30.6.2020, sbr. 8. gr. laga um opinbera háskóla og 7. og 8. tölulið 6. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. 

Fyrir fundinum lágu drög að bréfi rektors f.h. háskólaráðs til mennta- og menningarmálaráðherra vegna tilnefningar Jóns Atla Benediktssonar, prófessors og aðstoðarrektors, til rektors Háskóla Íslands fyrir tímabilið 1.7.-2015-30.6.2020. 

– Samþykkt einróma að fela rektor að ganga frá tilnefningunni til mennta- og menningarmálaráðherra.

4. Lykiltölur úr starfsemi Háskóla Íslands.

Inn á fundinn kom Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs. Fyrir fundinum lágu upplýsingar um valdar kennitölur úr starfsemi Háskóla Íslands og gerði Guðmundur grein fyrir þeim. Málið var rætt og svaraði Guðmundur spurningum fulltrúa í háskólaráði. 

5. Niðurstaða heildarúttektar á Háskóla Íslands. 

Magnús Diðrik Baldursson, skrifstofustjóri rektorsskrifstofu og gæðastjóri, gerði grein fyrir helstu niðurstöðum ytri matshóps Gæðaráðs háskóla vegna heildarúttektar á Háskóla Íslands. Málið var rætt og svaraði Magnús Diðrik spurningum ráðsmanna. Lýstu fulltrúar í háskólaráði ánægju með niðurstöðu matsskýrslunnar sem er í senn viðurkenning fyrir gæðastarf Háskóla Íslands og geymir ábendingar sem munu nýtast skólanum í stefnumótun til framtíðar.

6. Háskólasvæðið.

a) Framkvæmdaáætlun Háskóla Íslands 2015-2024.

– Frestað.

b) Hugmyndir um skipulag háskólasvæðisins.

Guðmundur R. Jónsson gerði grein fyrir málinu og var það rætt ítarlega. Málið verður áfram á dagskrá háskólaráðs.

c) Húsnæði Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands á lóð Landspítala.

– Frestað.

7. Endurskoðun reglna.

a) Reglur um framgang og ótímabundna ráðningu akademískra starfsmanna við Háskóla Íslands, nr. 263/2010, sbr. fund ráðsins 5. febrúar sl. Umsagnir.

Inn á fundinn kom Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísinda- og nýsköpunarsviðs og gerði, ásamt Þórði Kristinssyni, grein fyrir málinu. Málið var rætt og svöruðu Halldór og Þórður spurningum ráðsmanna. 

– Samþykkt samhljóða. Stefán Hrafn Jónsson sat hjá við afgreiðslu málsins. 

8. Skipulag og starfsemi rannsóknastofnana Háskóla Íslands. Fyrsta kynning skýrslu.

Inn á fundinn kom Ásta Möller, verkefnisstjóri á skrifstofu rektors. Fyrir fundinum lá skýrsla um skipulag og starfsemi rannsóknastofnana og -stofa Háskóla Íslands sem Ásta tók saman og gerði hún grein fyrir henni. Málið var rætt. 

– Samþykkt einróma að senda skýrsluna til umsagnar helstu stofnana og fræðasviða sem hafi samráð við þær rannsóknastofnanir sem undir þau heyra. Umsagnarfrestur verði til 1. september nk.

9. Mál til fróðleiks.

a) Úthlutun úr Watanabe styrktarsjóðnum við Háskóla Íslands.

b) Úthlutun úr Styrktarsjóði Áslaugar Hafliðadóttir.

c) Drög að dagskrá Háskólaþings 21. maí 2015.

d) Skipun námsstjórnar um menntun framhaldsskólakennara 2015-2018.

e) Ársreikningur Happdrættis Háskóla Íslands 2014.

f)  Fréttabréf Félagsvísindasviðs, apríl 2015. 

g) Ársskýrsla Rannsóknasetra Háskóla Íslands 2014.

h) Skipan Stúdentaráðs Háskóla Íslands.

i) Fréttabréf Heilbrigðisvísindasviðs, apríl 2015.

Fleira var ekki gert.

Fundi slitið kl. 16.05.