Skip to main content

Háskólaráðsfundur 6. mars 2014

03/2014

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2014, fimmtudaginn 6. mars var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Kristín Ingólfsdóttir, Anna Rut Kristjánsdóttir, Börkur Hansen, Ebba Þóra Hvannberg, Guðrún Hallgrímsdóttir, Jakob Ó. Sigurðsson, Kjartan Þór Eiríksson (varamaður fyrir Margréti Hallgrímsdóttur), Kristinn Andersen, María Rut Kristinsdóttir, Tinna Laufey Ásgeirsdóttir og Þorfinnur Skúlason. Fundinn sátu einnig Elín Blöndal og Magnús Diðrik Baldursson sem ritaði fundargerð.

Áður en gengið var til dagskrár greindi rektor frá því að engar athugasemdir hefðu borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Jafnframt spurði rektor hvort einhver ráðsmaður teldi sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá. Lýsti Ebba Þóra Hvannberg sig vanhæfa til að fjalla um dagskrárlið 7b) og Kjartan Þór Eiríksson lýsti sig vanhæfan til að fjalla um dagskrárlið 7c). Ebba Þóra óskaði eftir að ræða lið 9d) og Guðrún Hallgrímsdóttir óskaði eftir að ræða lið 9f), en liðurinn „bókfærð mál“ skoðast að öðru leyti samþykktur.

1. Mál á döfinni í Háskóla Íslands.
Rektor gerði grein fyrir nokkrum málum og viðburðum frá síðasta fundi háskólaráðs og framundan.
a) Árlegt kennslumálaþing Háskóla Íslands var haldið í Hátíðasal föstudaginn 28. febrúar sl. Þingið er skipulagt í samstarfi Stúdentaráðs, kennslumálanefndar, gæðanefndar og Kennslumiðstöðvar, sbr. lið 10i).
b) Háskóladagurinn var haldinn 1. mars sl. og var afar fjölsóttur og vel heppnaður.
c) Þriðjudaginn 4. mars sl. var opnaður nýr vefur um umhverfis- og sjálfbærnimál í Háskóla Íslands.
d) Rektor greindi frá því að á vettvangi skjalasafns Háskóla Íslands hefur verið unnið að samantekt yfir þær fjölmörgu gjafir sem háskólanum hafa borist frá stofnun. Er þetta liður í átaki til að heiðra velunnara Háskóla Íslands.
e) Háskólaþing verður haldið 11. apríl nk. Á dagskrá verður m.a. kjör fulltrúa háskólasamfélagsins í háskólaráð á tímabilinu frá 1. júlí 2014 til 30. júní 2016.

2. Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur og áætlun.
Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs, og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs.
a) Drög að ársreikningi Háskóla Íslands 2013.
Fyrir fundinum lágu drög að ársreikningi Háskóla Íslands fyrir árið 2013. Guðmundur og Jenný gerðu grein fyrir málinu og var það rætt. Fram komu ábendingar varðandi framsetningu upplýsinga í ársreikningnum sem tekið verður mið af við frágang hans.
b) Staða viðræðna um miðlæga kjarasamninga.
Guðmundur og Jenný gerðu grein fyrir stöðu viðræðna um miðlæga kjarasamninga og var málið rætt.
c) Kjör og starfsskilyrði starfsfólks við Háskóla Íslands.
Rektor, Guðmundur og Jenný gerðu grein fyrir málinu og var það rætt ítarlega. Að lokinni umræðu samþykkti háskólaráð einróma svohljóðandi bókun:

„Í kjölfar efnahagshruns hefur starfsfólk Háskóla Íslands tekið á sig mikla kjaraskerðingu á sama tíma og álag á starfsfólk hefur aukist. Á tímabilinu 2009-2013 fjölgaði nemendum við háskólann um 17% á meðan raunfjárveiting lækkaði um 16% og fjöldi starfsmanna hélst nær óbreyttur. Endurspeglast þetta með skýrum hætti í gagnrýni á vinnuálag og launakjör sem fram kemur í niðurstöðum nýlegrar viðhorfskönnunar meðal starfsmanna Háskóla Íslands. Háskólaráð lýsir áhyggjum sínum af þessari þróun og telur mikilvægt að fram fari athugun á því hvernig almenn launakjör eru við Háskóla Íslands í samanburði við aðrar stofnanir innanlands og í nágrannalöndum.

Minnt er á að í Stefnu Háskóla Íslands 2011-2016 er lögð rík áhersla á velferð starfsfólks og nemenda háskólans og að leitast skuli við að bjóða starfsfólki samkeppnishæf launakjör sem taka mið af árangri í starfi.

Háskólaráð felur samráðsnefnd háskólaráðs um kjaramál að leita eftir upplýsingum um launakjör fyrir sambærileg störf hjá öðrum stofnunum innanlands og í nágrannalöndum. Horfa skal bæði til kennara og annarra starfsmanna.

Þá óskar háskólaráð sérstaklega eftir því að samráðsnefnd leggi fram tillögur um hvernig bæta megi kjör og starfsaðstöðu nýrra kennara við Háskóla Íslands. Einnig stendur yfir vinna er lýtur að kjörum og réttarstöðu stundakennara við skólann.“

d) Fjárlagaerindi 2015.
Fyrir fundinum lá fjárlagaerindi Háskóla Íslands fyrir árið 2015 sem sent verður mennta- og menningarmálaráðuneyti. Guðmundur og Jenný gerðu grein fyrir málinu og var það rætt.

3. Bygging fyrir Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, í framhaldi af síðasta fundi.
Inn á fundinn kom Eiríkur Hilmarsson, formaður byggingarnefndar um hús Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Fyrir fundinum lá minnisblað nefndarinnar til háskólaráðs um aukið framlag vegna byggingar fyrir Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda við Hugvísindasvið. Eiríkur gerði grein fyrir málinu og Guðmundur fór yfir framkvæmda- og lánsfjáráætlun háskólans til næstu 10 ára. Málið var rætt og svöruðu Eiríkur og Guðmundur spurningum ráðsmanna. Að lokinni umræðu var eftirfarandi bókun samþykkt einróma:

„Fyrir liggur að nú þegar hefur verið aflað 1.301 m.kr. til byggingar fyrir Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda við Hugvísindasvið, en um 389 m.kr. vantar upp á til að ljúka fjármögnun byggingarinnar. Einnig liggur fyrir að almennur byggingakostnaður fer hækkandi og mikilvægt er að tryggja að það fé sem velunnarar (409 m.kr.), ríkissjóður Íslands (200 m.kr.) og Reykjavíkurborg (92 m.kr.) hafa látið af hendi rakna nýtist vel með því að hefja framkvæmdir eins fljótt og auðið er. Því samþykkir háskólaráð að Háskóli Íslands ábyrgist að hámarki 389 m.kr. framlag, til viðbótar við 600 m.kr. framlag sem þegar hefur verið ákveðið, vegna byggingar Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og komi frá Happdrætti Háskóla Íslands. Jafnframt verði fjársöfnun haldið áfram til að brúa bilið á milli þess sem þegar hefur safnast og þess sem upp á vantar til að fjármagna verkefnið. Þessi ráðstöfun hafi þó ekki áhrif á aðrar fyrirhugaðar framkvæmdir, s.s. byggingu Húss íslenskra fræða og nýbyggingu fyrir deildir Heilbrigðisvísindasviðs, enda hefur þessum framkvæmdum verið seinkað.“

Kjartan Þór Eiríksson þurfti að víkja af fundi.

4. Þverfræðileg samvinna í Háskóla Íslands.
a) Átaksverkefni við samhæfingu milli fræðigreina. Staða mála, sbr. starfsáætlun Háskóla Íslands.

Fyrir fundinum lágu minnisblöð um þverfræðileg átaksverkefni á sviði endurnýjanlegrar orku, málefna norðurslóða, fjarkönnunar og sjávarútvegs. Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
b) Átaksverkefni vegna kennaramenntunar. Staða mála, sbr. starfsáætlun Háskóla Íslands.
Fyrir fundinum lá til fróðleiks minnisblað rektors og forseta Menntavísindasviðs til mennta- og menningarmálaráðherra um að efla leikskóla- og grunnskólakennaramenntun, dags. 28. febrúar 2014, sbr. lið 10f). Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
c) Hindranir í þverfræðilegu samstarfi.
Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt. Að umræðu lokinni var samþykkt einróma eftirfarandi bókun:

„Mikilvægt er að nýta faglega breidd og styrk Háskóla Íslands með því að stuðla að fjölbreyttu þverfræðilegu samstarfi á sviði rannsókna og kennslu þar sem það á við. Í því skyni skipar háskólaráð starfshóp sem greini og meti sóknarfæri og mögulegar hlutlægar og huglægar hindranir fyrir þverfræðilegu samstarfi og geri eftir ástæðum tillögur til úrbóta. Starfshópurinn er skipaður Daða Má Kristóferssyni, forseta Félagsvísindasviðs, sem verði formaður, Ebbu Þóru Hvannberg, prófessor og fulltrúa í háskólaráði, og Guðmundi R. Jónssyni, framkvæmdastjóra fjármála og reksturs. Með hópnum starfa Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísinda- og nýsköpunarsviðs, og Magnús Diðrik Baldursson, skrifstofustjóri rektorsskrifstofu og gæðastjóri. Starfshópurinn skili greiningu sinni og tillögum fyrir fund háskólaráðs í júní nk. Rektor setur starfshópnum erindisbréf þar sem verkefninu er nánar lýst.“

5. Málefni Háskóla Íslands og Landbúnaðarháskóla Íslands.
Rektor gerði grein fyrir stöðu mála varðandi málefni Háskóla Íslands og Landbúnaðarháskóla Íslands.

6. Tillaga starfshóps mennta- og menningarmálaráðuneytis um að Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra verði gerð að sérstakri stofnun, Miðstöð íslensks táknmáls, innan Háskóla Íslands.
Inn á fundinn kom Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs. Fyrir fundinum lágu greinargerð starfshóps mennta- og menningarmálaráðuneytis um fýsileika þess að Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra verði gerð að sérstakri stofnun, Miðstöð íslensks táknmáls (MÍT), innan fræðasamfélags Háskóla Íslands, sbr. lið 10h), og umsögn stjórnsýslu háskólans um tillöguna. Við undirbúning umsagnar hafði verið aflað frekari gagna um fjármál Samskiptamiðstöðvarinnar og leitað sjónarmiða fræðasviða háskólans. Málið var rætt ítarlega. Að lokinni umræðu var eftirfarandi bókun samþykkt einróma:

„Margir möguleikar eru á faglegu samstarfi á milli Háskóla Íslands (HÍ) og Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra (SHH) á sviði táknmálsfræði, táknmálstúlkunar, kennslu, rannsókna og menntunar kennara á öllum skólastigum. Frá sjónarmiði háskólans er mikilvægt að kannað verði í samráði við ráðuneyti með hvaða hætti unnt sé að formgera faglegt samstarf, t.d. með samstarfssamningi eða með öðrum hætti, um eflingu kennslu og rannsókna í táknmálsfræði og þjálfun táknmálstúlka, með aðkomu Hugvísindasviðs og Menntavísindasviðs og eftir atvikum annarra fræðasviða.  Í því efni verði að tryggja fjárhagslegan grundvöll.

Á hinn bóginn liggur fyrir að almenn túlkaþjónusta sem SHH ber að veita í samfélaginu fellur ekki að lögbundnu hlutverki háskólans og fer ekki saman við starfsemi og stefnu HÍ sem kennslu- og rannsóknastofnunar. Því er mikilvægt að almenn túlkaþjónusta í samfélaginu, sem er í eðli sínu félags- og heilbrigðisþjónusta, verði eftir sem áður á verksviði og ábyrgð opinberrar stofnunar utan háskólans.“

7. Nefndir, stjórnir.
a) Fulltrúi háskólaráðs í stjórn Sagnfræðisjóðs dr. Björns Þorsteinssonar.

Samþykkt einróma að Sverrir Jakobsson, lektor við Sagnfræði- og heimspekideild, verði fulltrúi háskólaráðs í stjórn Sagnfræðisjóðs dr. Björns Þorsteinssonar.
b) Fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Rannsókna- og háskólanets Íslands hf. (RHnet).
Samþykkt einróma að fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn RHnet verði Ebba Þóra Hvannberg, prófessor, Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs, og Sæþór L. Jónsson, forstöðumaður Reiknistofnunar Háskóla Íslands. Varamenn verði Anna Soffía Hauksdóttir, prófessor, Fjóla Jónsdóttir, prófessor, og Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs. Skipunin er til eins árs. Ebba Þóra vék af fundi við afgreiðslu þessa máls.
c) Fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Keilis ehf.
Samþykkt einróma að fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Keilis ehf. verði áfram þau Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísinda- og nýsköpunarsviðs, og Sæunn Stefánsdóttir, sérfræðingur á skrifstofu rektors. Skipunin er til eins árs.

8. Athugasemdir vegna úthlutunar styrkja til doktorsnáms.
– Frestað.

9. Bókfærð mál.
a) Reglur um gjaldskrá Háskóla Íslands vegna þjónustu við nemendur o.fl.
– Samþykkt.
b) Tillaga Heilbrigðisvísindasviðs f.h. Hjúkrunarfræðideildar um breytta inntöku nýnema í deildina sem komi til framkvæmdar háskólaárið 2015-2016.
– Samþykkt.
c) Tillaga Félagsvísindasviðs f.h. Hagfræðideildar að breytingu á reglum um aðgangspróf í Hagfræðideild.
– Samþykkt.
d) Tillaga Félagsvísindasviðs f.h. Viðskiptafræðideildar um nýja námsleið til meistaraprófs (MS) í nýsköpun og viðskiptaþróun. Námið er í samstarfi Félagsvísindasviðs og Verkfræði- og náttúruvísindasviðs.
– Samþykkt. Bent var á mikilvægi þess að tilgreint verði sem fyrst hvaða deildir Verkfræði- og náttúruvísindasviðs komi að námsleiðinni.
e) Styrktarsjóður Áslaugar Hafliðadóttur, breyting á skipulagsskrá.
– Samþykkt.
f) Veiting akademískra nafnbóta, sbr. reglur nr. 212/2011 um viðurkenningu Háskóla Íslands á akademísku hæfi starfsmanna Landspítala-háskólasjúkrahúss og veitingu akademískrar nafnbótar.
Málið var rætt stuttlega.
– Samþykkt.
g) Fulltrúar Háskóla Íslands í samstarfsnefnd um málefni samstarfssamnings Háskóla Íslands og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, dags. 7. febrúar 2014.
Fulltrúar Háskóla Íslands í samstarfsnefnd um málefni samstarfssamnings Háskóla Íslands og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, dags. 7. febrúar 2014, eru Emil L. Sigurðsson, dósent við Læknadeild, Erla K. Svavarsdóttir, prófessor við Hjúkrunarfræðideild, og Sigurður J. Grétarsson, prófessor við Sálfræðideild.
– Samþykkt.

10. Mál til fróðleiks.
a) Vísindasiðanefnd.

Háskólaráð skipar vísindasiðanefnd Háskóla Íslands, sbr. gr. 5.1 í verklagsreglum fyrir nefndina, sem háskólaráð samþykkti 16. janúar sl. Nefndin er skipuð einum fulltrúa og varamanni frá hverju fræðasviði háskólans eftir tilnefningu frá forsetum fræðasviðanna. Auk þess tilnefnir Siðfræðistofnun Háskóla Íslands einn fulltrúa auk varamanns. Formaður nefndarinnar og varamaður hans eru skipaðir af rektor án tilnefningar.

Eftirfarandi tilnefningar fræðasviða og Siðfræðistofnunar í vísindasiðanefnd Háskóla Íslands hafa borist: Guðmundur B. Arnkelsson, dósent við Sálfræðideild, og Bryndís Benediktsdóttir, prófessor í Læknadeild, tilnefnd af Heilbrigðisvísindasviði; Sigurður Erlingsson, prófessor við Umhverfis- og byggingaverkfræðideild, og Árný Erla Sveinbjörnsdóttir, vísindamaður við Raunvísindastofnun, tilnefnd af Verkfræði- og náttúruvísindasviði; Sólveig Anna Bóasdóttir, dósent við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild, tilnefnd af Hugvísindasviði, varamaður hennar er Jón Karl Helgason, prófessor við Íslensku- og menningardeild; Hafsteinn Þór Hauksson, lektor við Lagadeild, tilnefndur af Félagsvísindasviði, varamaður hans er Jónína Einarsdóttir, dósent við Félags- og mannvísindadeild; Ástríður Stefánsdóttir, dósent við Íþrótta-, tómstunda-, og þroskaþjálfadeild, tilnefnd af Menntavísindasviði, varamaður hennar er Ólafur Páll Jónsson, dósent við Kennaradeild; Henry Alexander Henrysson, verkefnastjóri, tilnefndur af Siðfræðistofnun Háskóla Íslands, varamaður hans er Eyja Margrét Brynjarsdóttir, rannsóknamaður við Eddu öndvegissetur. Að fengnum þessum tilnefningum mun rektor skipa formann og varaformann. Skipunartími nýrrar vísindasiðanefndar verður frá 1. júlí 2014 til þriggja ára.
b) Stjórn Styrktarsjóðs Margaretar og Bents Scheving Thorsteinssonar.
Stjórn Styrktarsjóðs Margaretar og Bents Schevings Thorsteinssonar er áfram skipuð þeim Brynhildi Flóvenz, dósent við Lagadeild, Hönnu Björgu Sigurjónsdóttur, lektor við Félags- og mannvísindadeild, og Gunnari E. Finnbogasyni, prófessor við Kennaradeild. Stjórnin er skipuð til þriggja ára.
c) Stjórn Styrktarsjóðs Áslaugar Hafliðadóttur.
Rektor hefur skipað stjórn Styrktarsjóðs Áslaugar Hafliðadóttur. Í stjórn eru Katrín Jakobsdóttir, alþingismaður, sem er formaður, Börkur Hansen, prófessor við Uppeldis- og menntunarfræðideild, og Viðar Guðmundsson, prófessor við Raunvísindadeild, sem er tilnefndur af erfingjum Áslaugar. Stjórnin er skipuð til þriggja ára.
d) Ræða rektors við brautskráningu kandídata 22. febrúar 2014.
e) Bréf rektors send í umboði háskólaráðs, sbr. fund ráðsins 16. janúar sl.
f) Minnisblað rektors og forseta Menntavísindasviðs til mennta- og menningarmálaráðherra um að efla leikskóla- og grunnskólakennaramenntun, dags. 28. febrúar 2014.
g) Rafrænt Fréttabréf Félagsvísindasviðs, febrúar 2014.

h) Greinargerð starfshóps mennta- og menningarmálaráðuneytis um fýsileika þess að Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra verði gerð að stofnun sem heyrði undir Hugvísindasvið Háskóla Íslands.
i) Dagskrá kennslumálaþings sem haldið var 28. febrúar sl.

j) Tímarit Háskóla Íslands, útgefið í febrúar 2014.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.10.