Skip to main content

Háskólaráðsfundur 6. desember 2012

11/2012

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2012, fimmtudaginn 6. desember var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Kristín Ingólfsdóttir, Anna Rut Kristjánsdóttir, Börkur Hansen, Eyvindur G. Gunnarsson (varamaður fyrir Ebbu Þóru Hvannberg), Jakob Ó. Sigurðsson, Kristinn Andersen, Margrét Hallgrímsdóttir, María Rut Kristinsdóttir, Stefán Pálsson (varamaður fyrir Guðrúnu Hallgrímsdóttur), Tinna Laufey Ásgeirsdóttir og Þorfinnur Skúlason. Fundinn sátu einnig Jón Atli Benediktsson og Magnús Diðrik Baldursson sem ritaði fundargerð.

Rektor bauð fulltrúa í háskólaráði velkomna og setti fundinn. Sérstaklega bauð rektor velkomna varamennina Eyvind G. Gunnarsson og Stefán Pálsson sem sátu sinn fyrsta háskólaráðsfund. Áður en gengið var til dagskrár greindi rektor frá því að engar athugasemdir hefðu borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Engar athugasemdir voru gerðar við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því staðfestur. Enginn fulltrúi lýsti sig vanhæfan til að fjalla um einstök mál á dagskrá fundarins.

1. Mál á döfinni í Háskóla Íslands.

Rektor gerði grein fyrir nokkrum viðburðum frá síðasta fundi háskólaráðs og framundan.

a) Efst á baugi um þessar mundir eru fjármál og fjárhagsáætlunargerð fyrir árið 2013, en fjallað verður um þau undir dagskrárlið 2 á fundinum.

b) Hinn 13. nóvember sl. var við Háskóla Íslands hleypt af stokkunum nýrri fyrirlestraröð um nýsköpun og stofnun fyrirtækja undir heitinu „Fyrirtæki verður til“. Fyrsta fyrirtækið í röðinni var Marel og bar fyrirlesturinn heitið „Sköpunarsaga Marel – úr háskólaverkefni í forystu á alþjóðamarkaði“.

c) Viljayfirlýsing um samstarf á milli Hugverkanefndar Háskóla Íslands og Landspítala-háskólasjúkrahúss annars vegar og nýsköpunarskrifstofu Karolinska Institutet hins vegar á sviði hagnýtingar hugverka og niðurstaðna rannsókna var undirrituð 15. nóvember sl. (sbr. lið 8c).

d) Fimmtudaginn 15. nóvember sl. voru afhent í 14. sinn hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands. Að þessu sinni barst dómnefnd á þriðja tug frumlegra og hagnýtanlegra hugmynda og varð leiðréttingarforritið Skrambi hlutskarpast í samkeppninni. 

e) Viljayfirlýsing um fjölþætt samstarf á milli Háskóla Íslands og Íþróttasambands Íslands var undirrituð 27. nóvember sl. (sbr. lið 8d). Daginn eftir var haldin fjölsótt ráðstefna í Hátíðasal Háskóla Íslands undir yfirskriftinni „Skipta íþróttir máli?“

f) Undirritaður var endurnýjaður samstarfssamningur á milli Háskóla Íslands og Landspítala-háskólasjúkrahúss 3. desember sl. (sbr. lið 8b). 

g) Úthlutað var úr Þórsteinssjóði 3. desember sl. fimm styrkjum til blindra og sjónskerta stúdenta við Háskóla Íslands. Þórsteinssjóður var stofnaður af Blindravinafélagi Íslands 6. desember 2006 og er kenndur við Þórstein Bjarnason, stofnanda félagsins. 

h) Laugardaginn 1. desember sl. var haldinn hátíðlegur fullveldisdagur Íslands sem jafnframt er hátíðardagur stúdenta. Fyrir hádegi var lagður blómsveigur á leiði Jóns Sigurðssonar og guðfræðinemar stóðu fyrir messu í kapellu háskólans þar sem biskup Íslands þjónaði fyrir altari. Síðdegis var svo haldin öðru sinni hátíð brautskráðra doktora frá Háskóla Íslands á tímabilinu 1.12.2011-30.11.2012 að viðstöddum forseta Íslands og mennta- og menningarmálaráðherra. Í lok dags fögnuðu stúdentar síðan opnun stúdentakjallara á neðri hæð nýrrar viðbyggingar við Háskólatorg. 

i) Dagana 25. og 27. nóvember sl. hélt Háskólakórinn ásamt Sinfóníuhljómsveit unga fólksins hátíðartónleika í Langholtskirkju undir stjórn Gunnsteins Ólafssonar í tilefni 40 ára afmælis kórsins.

j) Fimmtudaginn 13. desember nk. verður haldin í Hátíðasal Háskóla Íslands alþjóðleg ráðstefna undir heitinu „With or without the Euro: Italy and Iceland tackling their financial crisis“ og standa að henni sendiráð Ítalíu á Íslandi, Seðlabanki Íslands og Háskóli Íslands. 

2. Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur og áætlun.

a) Staða og horfur að lokinni 2. umræðu um frumvarp til fjárlaga á Alþingi.

b) Fjárhagsáætlun Háskóla Íslands fyrir árið 2013.

Fyrir fundinum lá minnisblað um fjármál Háskóla Íslands og drög að fjárhagsáætlun fyrir árið 2013. Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs, og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs, og gerðu grein fyrir málinu. Málið var rætt ítarlega og svöruðu þau Guðmundur og Jenný Bára spurningum fulltrúa í háskólaráði. 

- Fjármálanefnd háskólaráðs ásamt fjármálastjóra er falið að vinna áfram að gerð fjárhagsáætlunar fyrir Háskóla Íslands á grundvelli endanlegra fjárlaga 2013 frá Alþingi og þeirra sjónarmiða sem fram koma í minnisblaðinu. Stefnt er að því að samþykkja endanlega fjárhagsáætlun Háskóla Íslands 2013 á næsta fundi háskólaráðs. 

3. Ályktanir háskólaþings 16. nóvember 2012.

a) Um aukin tengsl við atvinnulíf, sbr. stefnu Háskóla Íslands 2011-2016.

b) Um skýrslu jafnréttisnefndar háskólaráðs um stöðu og þróun jafnréttismála 2008-2011.

Rektor gerði grein fyrir ályktunum og niðurstöðum háskólaþings 16. nóvember sl. Niðurstaða þingsins var að nýta framkomin sjónarmið og ábendingar til að vinna skipulega áfram að áherslum í Stefnu Háskóla Íslands 2011-2016 um aukin tengsl við atvinnulíf á öllum sviðum. Þá er gert ráð fyrir að skýrsla jafnréttisnefndar ásamt framkomnum ábendingum og athugasemdum verði til umræðu á fundi háskólaráðs í janúar nk. 

4. Vefstudd kennsla og nám.

Fyrir fundinum lágu drög að erindisbréfi starfshóps um vefstudda kennslu og nám (sjá einnig lið 8i) á dagskrá fundarins). Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt. Að umræðu lokinni bar rektor upp tillögu um að starfshópurinn verði skipaður þeim Hjálmtý Hafsteinssyni, dósent við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Verkfræði- og náttúruvísindasviðs, sem verði formaður, Brynhildi Davíðsdóttur, dósent við Líf- og umhverfisvísindadeild Verkfræði- og náttúruvísindasviðs og Hagfræðideild Félagsvísindasviðs, Eiríki Rögnvaldssyni, prófessor við Íslensku- og menningardeild Hugvísindasviðs, Freydísi J. Freysteinsdóttur, dósent við Félagsráðgjafardeild Félagsvísindasviðs, Guðrúnu Geirsdóttur, dósent við Kennaradeild Menntavísindasviðs og fræðslustjóra Kennslumiðstöðvar Háskóla Íslands, Sesselju Sigurborgu Ómarsdóttur, dósent við Lyfjafræðideild Heilbrigðisvísindasviðs, Sólveigu Jakobsdóttur, dósent við Kennaradeild Menntavísindasviðs og Stefáni Þór Helgasyni, fulltrúa stúdenta. Með hópnum starfi Magnús Diðrik Baldursson, skrifstofustjóri rektorsskrifstofu og gæðastjóri háskólans. Miðað er við að starfshópurinn skili niðurstöðum sínum fyrir miðjan mars 2013.

Erindisbréf og skipun starfshópsins samþykkt einróma.

5. Samningar við mennta- og menningarmálaráðuneyti, alþjóðamál og rannsóknaþjónusta.

Fyrir fundinum lágu minnisblöð um tilfærslu verkefna frá Háskóla Íslands til Rannsóknamiðstöðvar Íslands (Rannís) og um nýtt skipulag Alþjóðaskrifstofu Háskóla Íslands og Rannsóknaþjónustu Háskóla Íslands. Inn á fundinn kom Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs. Rektor, Jón Atli Benediktsson og Þórður gerðu grein fyrir aðdraganda og efni málsins og var það rætt. Svöruðu rektor, Jón Atli og Þórður spurningum ráðsmanna.

a) Tilfærsla verkefna frá Háskóla Íslands til Rannís. Undirritað minnisblað, dags. 31. október sl.

- Samþykkt einróma.

b) Breytt skipulag Alþjóðaskrifstofu og Rannsóknaþjónustu Háskóla Íslands.

- Samþykkt einróma.

c) Reglur um Rannsóknaþjónustu Háskóla Íslands nr. 482/2010 falli úr gildi.

- Samþykkt einróma.

d) Breytt heiti vísindasviðs í 8. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009 og öðrum viðeigandi regluákvæðum.

- Samþykkt einróma að nýtt heiti vísindasviðs verði vísinda- og nýsköpunarsvið.

6. Ársfundur Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. 2011 skv. gr. 3.2 í samþykktum félagsins.

Rektor setti ársfund Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. sem haldinn er skv. gr. 3.2 í samþykktum félagsins. Samkvæmt sömu gr. eru eftirfarandi mál á dagskrá aðalfundar:

1. Stjórn félagsins skýrir frá hag félagsins og rekstri þess á liðnu starfsári.

2. Ársreikningur ásamt athugasemdum endurskoðanda lagður fram til samþykktar.

3. Kosning stjórnar félagsins og endurskoðanda eða skoðunarmanna.

4. Ákvörðun um hvernig fara skal með hagnað eða tap og um arð og framlög í varasjóð.

5. Ákvörðun um greiðslur til stjórnarmanna fyrir störf þeirra á starfsárinu.

6. Önnur mál löglega upp borin.

Inn á fundinn komu f.h. stjórnar Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. Hilmar B. Janusson, formaður stjórnar félagsins, og Eiríkur Hilmarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri.

Dagskrárliður 1. Hilmar B. Janusson flutti skýrslu stjórnar Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. fyrir starfsárið 2011. Málið var rætt ítarlega og svöruðu Hilmar Bragi og Eiríkur framkomnum spurningum og athugasemdum.

- Samþykkt einróma.

Dagskrárliður 2. Fyrir fundinum lá ársreikningur félagsins fyrir árið 2011.

- Ársreikningur Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. fyrir árið 2011 samþykktur einróma án athugasemda.

Dagskrárliður 3. Ákvörðun um skipan stjórnar verður tekin með rafrænum hætti á næstu dögum. Ríkisendurskoðun annast endurskoðun ársreiknings.

- Samþykkt einróma.

Dagskrárliður 4. Enginn hagnaður eða tap varð af rekstri félagsins og er því ekki gerð tillaga um meðferð hagnaðar eða taps eða um arð og framlög í varasjóð.

Dagskrárliður 5. Stjórnarmönnum verða ekki greidd laun eins og verið hefur.

Dagskrárliður 6. Framtíðarhlutverk Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. Hilmar gerði grein fyrir áætlunum varðandi framtíð félagsins og var málið rætt.

Engin önnur mál voru borin upp.

Ársfundi Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. 2011 slitið.

7. Bókfærð mál.
a) Tillögur fræðasviða um fjöldatakmörkun í einstakar námsleiðir háskólaárið 2013-2014, ásamt viðeigandi breytingum á reglum nr. 153/2010 um takmörkun á inntöku nemenda í tilteknar námsgreinar við Háskóla Íslands og breytingu á 2. og 3. gr. reglna nr. 154/2010 um val nemenda til náms í næringarfræði við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands.

Eftirfarandi tillögur fræðasviða og deilda um takmörkun á fjölda nýnema háskólaárið 2013-2014 samþykktar (tölur í sviga sýna fjölda nýnema háskólaárið 2012-2013) sem og samsvarandi breytingar á reglum um takmörkun á inntöku nemenda í tilteknar námsgreinar við Háskóla Íslands nr. 153/2010:

I. Heilbrigðisvísindasvið
a. Læknadeild
- læknisfræði 48 (48)
- sjúkraþjálfun 25 (25)
b. Hjúkrunarfræðideild
- hjúkrunarfræði 95 (85)
- ljósmóðurfræði 10 (10) 
c. Tannlæknadeild
- tannlæknisfræði 7 (7)
- tannsmíðar 5 (5)
 d. Sálfræðideild
- cand. psych. 20 (20)
e. Matvæla- og næringarfræðideild
- BS nám í næringarfræði 30 (30)
II. Félagsvísindasvið
a. Félags og mannvísindadeild
- MA nám í blaða- og fréttamennsku 21 (21)
b. Félagsráðgjafardeild
- MA nám í náms- og starfsráðgjöf 35 (35)
- MA nám í félagsráðgjöf til starfsréttinda Frestað (40) 
III. Menntavísindasvið
a. Kennaradeild
- Kennslufræðihluti náms á meistarastigi 90 (90)

Jafnframt var samþykkt breyting á 2. og 3. gr. reglna nr. 154/2010 um val nemenda til náms í næringarfræði við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands.

b) Tillögur fræðasviða um nýjar námsleiðir, ásamt viðeigandi breytingum á reglum fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.

- Staðfest.

c) Tillaga Menntavísindasviðs um breytingu á 19., 20. og 21. gr. reglna um inntökuskilyrði í grunnnám við Háskóla Íslands, nr. 319/2009. Varðar deildir Menntavísindasviðs.

- Staðfest.

d) Tillaga Félagsvísindasviðs um breytingu á reglum nr. 484/2010 um þverfaglegt meistaranám við Háskóla Íslands í skattarétti og reikningsskilum.

- Staðfest.

e) Tillögur Félagsvísindasviðs og Menntavísindasviðs um breytingu á heitum námsbrauta. Varðar  84. og 121. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.

- Staðfest.

f) Tillaga kennslusviðs um heimildarákvæði í reglum fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009 vegna undirbúnings erlendra umsækjenda í ensku.

- Staðfest.

g) Heiðursdoktorsnefnd Háskóla Íslands.

Einar Stefánsson, prófessor við Læknadeild Heilbrigðisvísindasviðs, verður formaður heiðursdoktorsnefndar og leitað verður tilnefninga frá fræðasviðum varðandi aðra nefndarmenn.

- Staðfest.

h) Formaður siðanefndar Háskóla Íslands.

Garðar Gíslason, fyrrverandi hæstaréttardómari, verður formaður siðanefndar Háskóla Íslands í stað Þórðar Harðarsonar, prófessors emeritus, sem hættir að eigin ósk. Skipunin er til loka skipunartíma núverandi siðanefndar eða til 30. júní 2013.

- Staðfest.

8. Mál til fróðleiks.
a) Hátíð brautskráðra doktora 1. desember sl
b) Samstarfssamningur Háskóla Íslands og Landspítala-háskólasjúkrahúss, sem undirritaður var 3. desember 2012.
c) Viljayfirlýsing um samstarf á milli Hugverkanefndar Háskóla Íslands og Landspítala og Karolinska Institut, Innovation Office, dags. 15. nóvember 2012.
d) Viljayfirlýsing um samstarf Háskóla Íslands og Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, dags. 27. nóvember 2012.
e) Framgangur akademískra starfsmanna Háskóla Íslands 2012.
f)  Hugskeyti, fréttabréf  Hugvísindasviðs.
g) Uppfært minnisblað um nefndir, stjórnir og ráð á næstu misserum.
h) Heilbrigðisvísir, fréttabréf Heilbrigðisvísindasviðs, nóvember 2012.
i)  Vefstudd námskeið erlendra háskóla, pistill rektors á vef Háskóla Íslands, dags. 5. desember 2012.

9. Önnur mál.

a) Frumvarp til laga um breytingu á lögum um opinbera háskóla.

Fyrir fundinum lágu drög að umsögn Háskóla Íslands um frumvarp til laga um breytingu á lögum um opinbera háskóla nr. 85/2008. Þórður Kristinsson gerði grein fyrir málinu og var það rætt. 

- Samþykkt að leggja framlögð drög til grundvallar umsögn Háskóla Íslands, en ráðsmenn geta komið á framfæri ábendingum og athugasemdum eigi síðar en um hádegið 10. desember nk.

Fleira var ekki gert.

Fundi slitið kl. 15.30.