Skip to main content

Háskólaráðsfundur 5. maí 2011

05/2011

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2011, fimmtudaginn 5. maí var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Kristín Ingólfsdóttir, Anna Agnarsdóttir, Börkur Hansen, Guðrún Sóley Gestsdóttir, Guðrún Hallgrímsdóttir, Hilmar B. Janusson, Hulda Proppé (varamaður Péturs Gunnarssonar), Margrét Arnardóttir (varamaður Fannars Freys Ívarssonar), Sigríður Ólafsdóttir, Tinna Laufey Ásgeirsdóttir og Þórður Sverrisson. Fundinn sat einnig Jón Atli Benediktsson. Fundargerð ritaði Magnús Diðrik Baldursson.
 
Fundargerð síðasta fundar var lögð fram og hún samþykkt.

Rektor þurfti að víkja af fundi kl. 15.40 og tók þá Börkur Hansen, varaforseti háskólaráðs, við fundarstjórn. Tinna Laufey Ásgeirsdóttir vék af fundi kl. 14.45.

1.    Mál á döfinni í Háskóla Íslands.
Rektor gerði stuttlega grein fyrir nokkrum viðburðum frá síðasta fundi ráðsins og málum á döfinni. Hún nefndi m.a. heimsókn Danilo Türk, forseta Slóveníu til Háskóla Íslands, heimsókn Kazuhiko Takeuchi, aðstoðarrektors Háskóla Sameinuðu þjóðanna, í tengslum við jafnréttisskólann GEST við Háskóla Íslands og heimsókn sendinefndar frá Communication University of China í Beijing ásamt heiðursforseta skólans, Liu Jinan. Einnig nefndi rektor samning sem undirritaður var 11. apríl sl. um ofurtölvumiðstöð sem starfrækt verður á Íslandi undir forystu Háskóla Íslands. Loks vakti rektor athygli á fyrirlestri Hilmars B. Janussonar, framkvæmdastjóra þróunarsviðs Össurar, „Hreyfing mannsins. Frá hreyfihömlun til afreka“. Fyrirlesturinn verður fluttur 7. maí og er hluti af röð hátíðarfyrirlestra rektors á aldarafmæli Háskóla Íslands

2.    Fjármál Háskóla Íslands.
a)    Ársreikningur Háskóla Íslands fyrir árið 2010.
b)    Fjárhagsstaða háskólans 2011, yfirlit eftir þrjá mánuði.
c)    Uppsafnaðar yfirvinnuskuldbindingar í Háskóla Íslands.
d)    Gjaldskrá vegna þjónustu við nemendur (endurskoðuð og uppfærð).
e)    Fjárhagsáætlun fyrir MBA-nám í Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.

    
Inn á fundinn kom Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs, og gerði grein fyrir drögum að ársreikningi Háskóla Íslands fyrir árið 2010 (liður 2a). Fram kom í máli Guðmundar að rekstur háskólans hafi verið í jafnvægi á árinu 2010 og verður endurskoðaður og áritaður ársreikningur lagður fram á næsta fundi. Yfirliti um fjárhagsstöðu Háskóla Íslands eftir fyrstu þrjá mánuði ársins 2011 (liður 2b) var frestað til næsta fundar. Loks gerði Guðmundur grein fyrir framlögðu yfirliti um uppsafnaðar yfirvinnuskuldbindingar fastra kennara við Háskóla Íslands (liður 2c). Málin voru rædd og svaraði Guðmundur spurningum fulltrúa í háskólaráði.

Inn á fundinn kom Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs, og gerði grein fyrir endurskoðaðri og uppfærðri gjaldskrá vegna þjónustu við nemendur (liður 2d). Málið var rætt og svaraði Þórður spurningum ráðsmanna.
- Tillaga að gjaldskrá samþykkt einróma.

Guðmundur R. Jónsson gerði grein fyrir fjárhagsáætlun MBA-náms við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands (liður 2e). Málið var rætt.
- Samþykkt einróma.

3.    Málefni Háskólabíós.
- Frestað.

4.    Málefni Orkuskólans REYST.
Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt. Fram kom að Háskóli Íslands hyggst draga sig út úr samstarfi um meistaranám í orkufræðum á vettvangi REYST þar sem árangur og aðsókn hafa verið undir væntingum.

5.    Málefni fornleifafræði.
a)    Úttekt á námsbraut í fornleifafræði, niðurstöður og eftirfylgni.
b)    Erindi til háskólaráðs vegna fornleifafræði, sbr. síðasta fund. Umsögn forseta Hugvísindasviðs.

Inn á fundinn kom Ástráður Eysteinsson, forseti Hugvísindasviðs, og gerði grein fyrir viðbrögðum stjórnar Hugvísindasviðs og námsbrautar í fornleifafræði við athugasemdum og ábendingum í skýrslu matshóps sem nýlega framkvæmdi úttekt á námsbraut í fornleifafræði (liður 5a). Málið var rætt og svaraði Ástráður spurningum ráðsmanna.

Að umræðu lokinni bar rektor upp tillögu um að í samræmi við almennt vinnulag við eftirfylgni með ytra gæðamati verði stjórn Hugvísindasviðs falið að gera fyrir lok janúar 2012 háskólaráði ítarlega grein fyrir því hvernig hún hefur brugðist við ábendingum í lokaskýrslu ytri matshóps vegna úttektar á námi í fornleifafræði. Forseti Hugvísindasviðs geri rektor grein fyrir framvindu vinnunnar fyrir lok september 2011.
- Samþykkt einróma.

Þá gerði Ástráður grein fyrir afstöðu Hugvísindasviðs til framlagðs erindis Margrétar Hermanns Auðardóttur til háskólaráðs vegna málefna fornleifafræðinnar (liður 5b). Málið var rætt og svöruðu Ástráður og rektor spurningum ráðsmanna.  
- Samþykkt að svara erindinu á grundvelli þeirra sjónarmiða sem fram koma í minnisblaði forseta Hugvísindasviðs.

6.    Tillögur að breytingu á reglum og að nýjum reglum í kjölfar gildistöku nýrra laga, sameiginlegra reglna og breytts skipulags Háskóla Íslands.
Þórður Kristinsson gerði grein fyrir tillögunum.

a)    Reglur fyrir Líf- og umhverfisvísindastofnun Háskóla Íslands.
- Samþykkt einróma.

b)    Reglur fyrir Verkfræðistofnun Háskóla Íslands.
- Samþykkt einróma.

c)    Reglur fyrir Raunvísindastofnun Háskóla Íslands.
- Frestað.

d)    Breytingar á 119. og 121. gr. reglna nr. 569/2009, Menntavísindasvið.
- Samþykkt einróma með smávægilegri orðalagsbreytingu.

e)    Reglur um doktorsnám á Menntavísindasviði.
- Frestað.

f)    Reglur um doktorsnám á Verkfræði- og náttúruvísindasviði.
- Frestað.

7.    Erindi til háskólaráðs vegna máls 1/2010 hjá siðanefnd Háskóla Íslands, sbr. síðasta fund.
Fyrir fundinum lágu eftirfarandi gögn: Bréf prófessors við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild, dags. 21. mars sl., þrjú bréf hóps kennara Háskóla Íslands, dags. 23. mars sl., 28. apríl sl. og 3. maí sl., og bréf formanns siðanefndar Háskóla Íslands , dags. 3. maí sl. Inn á fundinn kom Ingibjörg Halldórsdóttir, lögfræðingur Háskóla Íslands, og gerði grein fyrir málinu. Málið var rætt ítarlega og svaraði Ingibjörg spurningum ráðsmanna.
- Háskólaráð samþykkir að skipa nefnd óháðra aðila um mál siðanefndar Háskóla Íslands nr. 1/2010, aðdraganda þess og málsmeðferð. Nefndin fari yfir alla meðferð málsins innan háskólans frá því það hófst, meðferð siðanefndar Háskóla Íslands, vinnubrögð og samskipti við aðila máls og aðra innan háskólans og utan, sem og afskipti annarra af meðferð málsins. Hlutverk nefndarinnar verði að lýsa atvikum á hlutlægan hátt og meta hvort eðlilega hafi verið staðið að meðferð málsins. Nefndinni er ekki ætlað að taka efnislega afstöðu til kæruefnisins. Nefndinni verði jafnframt falið að fara yfir starfsreglur siðanefndar Háskóla Íslands og eftir atvikum að gera tillögur til úrbóta. Nefndin verði skipuð þeim Þórhalli Vilhjálmssyni, aðallögfræðingi Alþingis, Sigurði Þórðarsyni, fyrrverandi ríkisendurskoðanda og Elínu Díönnu Gunnarsdóttur, dósent við Félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri.

Anna Agnarsdóttir vék af fundi undir þessum dagskrárlið.

8.    Mál til fróðleiks.
a) Dagskrá háskólaþings 13. maí 2011.
b) Ársreikningur Háskólasjóðs h/f Eimskipafélags Íslands fyrir árið 2010.
c) Tímabundin skipun áfrýjunarnefndar vegna vinnumats.
d) Viðburðir í maí og júní á dagskrá aldarafmælis Háskóla Íslands.

9.    Önnur mál.
Rektor greindi frá því að borist hefði erindi frá borgarstjóra Reykjavíkur um að Háskóli Íslands tilnefni einstakling til að taka sæti í nefnd sem hefur það hlutverk að gera óháða úttekt á stöðu og rekstri Orkuveitu Reykjavíkur.
- Samþykkt að fela rektor að bregðast við erindinu.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.20.