Skip to main content

Háskólaráðsfundur 5. febrúar 2015

02/2015

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2015, fimmtudaginn 5. febrúar var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.

Fundinn sátu Kristín Ingólfsdóttir, Davíð Þorláksson (varamaður Áslaugar Maríu Friðriksdóttur), Ebba Þóra Hvannberg, Eiríkur Rögnvaldsson, Jakob Ó. Sigurðsson, Margrét Hallgrímsdóttir, Orri Hauksson, Stefán Hrafn Jónsson og Tómas Þorvaldsson. Iðunn Garðarsdóttir og Nanna Elísa Snædal Jakobsdóttir boðuðu forföll og varamenn þeirra einnig. Fundinn sat einnig Magnús Diðrik Baldursson sem ritaði fundargerð.

Rektor setti fundinn og greindi frá því að engar athugasemdir hefðu borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Jafnframt spurði rektor hvort einhver teldi sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki. Engar athugasemdir voru gerðar við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur. Rektor lagði til að tvö mál yrðu tekin upp undir liðnum „önnur mál“, þ.e. í fyrsta lagi erindi frá stjórn Félagsvísindasviðs um inntöku í fyrri hluta MA-náms í náms- og starfsráðgjöf og í öðru lagi erindi um málefni Loftskeytastöðvarinnar vestan Suðurgötu. Var það samþykkt.

1. Mál á döfinni í Háskóla Íslands.
Rektor gerði grein fyrir nokkrum málum og viðburðum frá síðasta fundi og framundan.
a) Hinn 20. janúar sl. var haldinn fjölsóttur fyrirlestur í röðinni „Vísindi á mannamáli“. Fyrirlesari að þessu sinni var Halldór Þormar og fjallaði hann um tengsl visnumæðuveiru í sauðfé og alnæmis.
b) Fyrir skömmu lauk könnun á starfsumhverfi Háskóla Íslands og verða niðurstöður kynntar innan háskólans á næstunni. Framkvæmd könnunarinnar er í samræmi við stefnu Háskóla Íslands og er hún gerð á tveggja ára fresti.
c) Hinn 24. janúar sl. var haldin árleg UnConference nýsköpunarráðstefna í samstarfi Landsbanka Íslands og Háskóla Íslands. Áberandi var hversu margt ungt fólk sótti ráðstefnuna að þessu sinni.
d) Opnunarhátíð Árs ljóssins, sem efnt er til í tilefni af 70 ára afmæli Sameinuðu þjóðanna, var haldin í Hátíðasal 27. janúar sl.
e) Rektor sótti stjórnarfund EUA í lok janúar sl. Á fundinn kom Tibor Navracsics, nýr framkvæmdastjóri Evrópusambandsins á sviði mennta- og menningarmála. Fram kom m.a. á fundinum að evrópskir háskólar leggja í sívaxandi mæli áherslu á öflun sértekna. Á fundi EUA kom einnig fram að samstarfsverkefni evrópskra háskóla um kennslu og rannsóknir í orkuvísindum er nú fullfjármagnað og verður í framhaldinu leitað til háskóla sem sýnt hafa verkefninu áhuga.

Í desember sl. tilkynnti framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um nýja áætlun undir heitinu „European Fund for Strategic Investments (EFSI)“ í því skyni að efla innviði, nýsköpun og menntun. Nýlega kom fram að fyrirhugað er að fjármagna áætlunina að hluta með því að lækka framlög til Horizon 2020. Mikil óánægja er með þessi áform meðal evrópskra háskóla og rannsóknastofnana og barist fyrir því að framlög til Horizon 2020 verði óskert.

2. Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
a) Rekstur Háskóla Íslands á árinu 2014. Staða mála.

Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs, og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs og gerðu grein fyrir stöðu mála varðandi rekstur Háskóla Íslands á árinu 2014. Málið var rætt og svöruðu Guðmundur og Jenný Bára spurningum ráðsmanna.

b) Fjárhagsáætlun Háskóla Íslands fyrir árið 2015, tillaga fjármálanefndar háskólaráðs að skiptingu fjárveitinga, sbr. síðasta fund. Aldarafmælissjóður Háskóla Íslands 2015.
Fyrir fundinum lá tillaga fjármálanefndar háskólaráðs um skiptingu fjár innan Háskóla Íslands árið 2015. Gerðu Guðmundur og Jenný Bára grein fyrir tillögunum og voru þær ræddar.
- Tillaga fjármálanefndar háskólaráðs um skiptingu fjár innan Háskóla Íslands árið 2015 samþykktar einróma.

c) Ráðstöfun fjár úr Aldarafmælissjóði Háskóla Íslands 2011-2014.
Fyrir fundinum lá yfirlit um ráðstöfun fjár úr Aldarafmælissjóði Háskóla Íslands 2011-2014. Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt.

Í tengslum við almenna umfjöllun um fjármál vék rektor að fyrirspurn frá síðasta fundi um stöðu mála varðandi bókasafn Menntavísindasviðs í Stakkahlíð. Lagði rektor til að skipuð verði nefnd til að skoða möguleika á auknu samstarfi bókasafnsins og Landsbókasafns Íslands - háskólabókasafns.
- Samþykkt að fela rektor að ganga frá skipun nefndarinnar og fylgja málinu eftir.

3. Fjármögnun Háskóla Íslands til framtíðar.
a) Ríkisframlag. Starf nefndar um aukningu 2016-2020, skv. ákvæðum Aldarafmælissjóðs Háskóla Íslands.
Rektor greindi frá stöðu mála varðandi starf nefndar skipaðri af forsætisráðherra um aukningu ríkisframlags til Aldarafmælissjóðs Háskóla Íslands á tímabilinu 2016-2020. Lögð voru fram drög að áætlun um markmið og ráðstöfun fjár úr Aldarafmælissjóði frá og með 2016 ásamt áætlun um sértekjuöflun HÍ og drög að endurskoðuðum árangursmælikvörðum. Málið var rætt ítarlega og brugðust rektor, Guðmundur og Jenný Bára við spurningum fulltrúa í háskólaráði. Lýstu ráðsmenn almennt ánægju með drögin og lögðu fram margvíslegar tillögur að viðbótum og breytingum sem tekið verður mið af í næstu skrefum. 

b) Sértekjur Háskóla Íslands. Niðurstöður hugmyndavinnu um aukningu sértekna.
Inn á fundinn kom Ásta Möller, verkefnisstjóri á rektorsskrifstofu, og gerði grein fyrir stöðu mála varðandi hugmyndavinnu um aukningu sértekna Háskóla Íslands til framtíðar. Málið var rætt og svaraði Ásta spurningum fulltrúa í háskólaráði.

4. Erindi frá samráðsnefnd háskólaráðs um kjaramál.
a) Rannsóknamisseri, fjárhæðir.
b) Heimild til rannsóknamissera, frávik frá kennsluskyldu.
c) Um tölvukaup fyrir starfsmenn.

Fyrir fundinum lá erindi frá samráðsnefnd háskólaráðs um kjaramál um fjárhæðir rannsóknamissera, heimild til rannsóknamissera og frávik frá kennsluskyldu og um tölvukaup fyrir starfsmenn. Guðmundur R. Jónsson, formaður samráðsnefndar, gerði grein fyrir erindinu og var það rætt.
- Samþykkt einróma.

Davíð Þorláksson þurfti að víkja af fundi og Elín Blöndal, lögfræðingur Háskóla Íslands, kom inn á fundinn.

5. Málefni Vísindagarða Háskóla Íslands ehf.
Inn á fundinn kom Hilmar B. Janusson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs og formaður stjórnar Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. Fyrir fundinum lágu drög að viljayfirlýsingu Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. og alþjóðlegs fyrirtækis um mögulega byggingu höfuðstöðva fyrirtækisins á lóð Vísindagarða. Hilmar Bragi gerði grein fyrir málinu og var það rætt. Fram kom skýr stuðningur við málið.

6. Heildarmat Gæðaráðs háskóla á Háskóla Íslands. Staða mála og næstu skref.
Magnús Diðrik Baldursson, skrifstofustjóri rektorsskrifstofu og gæðastjóri, gerði grein fyrir stöðu mála og næstu skrefum varðandi heildarmat á Háskóla Íslands, skv. áætlun Gæðaráðs háskóla. Málið var rætt og brást Magnús Diðrik við spurningum og athugasemdum fulltrúa í háskólaráði.

7. Reglur um framgang og ótímabundna ráðningu akademískra starfsmanna við Háskóla Íslands, nr. 263/2010. Drög að tillögu að breytingum.
Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt. Fram kom að fyrirhugaðar breytingar, sem undirbúnar hafa verið í samráði við stjórn Félags prófessora við ríkisháskóla, eru lagðar til í kjölfar kjarasamnings félagsins og fjármálaráðuneytisins.
- Samþykkt einróma að senda fyrirliggjandi drög að breytingum á reglum um framgang og ótímabundna ráðningu akademískra starfsmanna við Háskóla Íslands til umsagnar fræðasviða, Félags prófessora við ríkisháskóla, Félags háskólakennara, gæðanefndar, kennslumálanefndar, vísindanefndar og jafnréttisnefndar. Umsagnir skulu liggja fyrir á næsta fundi háskólaráðs.

8. Tillaga að verklagsreglum um undirbúning, framkvæmd og fyrirkomulag rafrænnar kosningar til embættis rektors Háskóla Íslands og gerð rafrænnar kjörskrár, sbr. síðasta fund.
Inn á fundinn kom Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs. Fyrir fundinum lá tillaga að verklagsreglum um undirbúning, framkvæmd og fyrirkomulag rafrænnar kosningar til embættis rektors Háskóla Íslands og gerð rafrænnar kjörskrár. Þórður gerði grein fyrir málinu og þeim ákvörðunum sem háskólaráð þarf að taka í tengslum við umsóknir um embætti rektors. Málið var rætt.
- Samþykkt einróma.

9. Úrskurður vegna kæru Friðriks Eysteinssonar á synjun Viðskiptafræðistofnunar, sem staðfest var af forseta Félagsvísindasviðs, um birtingu greina í Working Paper ritröðinni.
Fyrir fundinum lágu drög að úrskurði Háskóla Íslands vegna kæru Friðriks Eysteinssonar á synjun Viðskiptafræðistofnunar, sem staðfest var af forseta Félagsvísindasviðs, um birtingu greina í Working Paper Series, ritröð Viðskiptafræðistofnunar. Elín Blöndal gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
- Samþykkt einróma. Rektor falið að undirrita úrskurðinn f.h. háskólaráðs.

10. Tillaga Hugvísindasviðs um nýja námsleið á meistarastigi í alþjóðlegum jafnréttisfræðum í Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda.
- Frestað.

11. Bókfærð mál.
a) Tillaga Félagsvísindasviðs f.h. Stjórnmálafræðideildar að nýrri MA-námsleið í samanburðarstjórnmálum við Stjórnmálafræðideild ásamt viðeigandi breytingu á 92. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009.

- Samþykkt.

b) Tillaga Heilbrigðisvísindasviðs f.h. Læknadeildar að breytingu á reglum um inntöku nýnema í læknisfræði og sjúkraþjálfun í Læknadeild Háskóla Íslands, nr. 1042/2003.
- Samþykkt.

c) Tillaga Heilbrigðisvísindasviðs að breytingu á 8. og 11. gr. reglna nr. 1252/2011 um doktorsnám og doktorspróf við Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands.
- Samþykkt.

d) Tillaga að breytingu á reglum um starfsskyldur kennara og sérfræðinga við Háskóla Íslands, nr. 605/2006.
- Samþykkt.

e) Tillaga að breytingu á reglum um árangurstengda tilfærslu starfsþátta nr. 971/2009.
- Samþykkt.

f) Samkomulag um skipan þverfræðilegs diplómanáms í kynfræði við Háskóla Íslands, ásamt breytingu á 2. málsl. 6. mgr. 97. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009 er varðar Hjúkrunarfræðideild.
- Samþykkt.

g) Skipan gæðanefndar háskólaráðs frá 1. febrúar 2015.
Gæðanefnd háskólaráðs verður skipuð þeim Sigurði Magnúsi Garðarssyni prófessor, sem verður formaður, Amalíu Björnsdóttur, dósent á Menntavísindasviði, Guðmundi Vali Oddssyni, lektor á Verkfræði- og náttúruvísindasviði, Jóni Ólafssyni, prófessor á Hugvísindasviði, Helgu M. Ögmundsdóttur, prófessor á Heilbrigðisvísindasviði, Tinnu Laufeyju Ásgeirsdóttur, dósent á Félagsvísindasviði og Nönnu Elísu Jakobsdóttur laganema, fulltrúa stúdenta. Magnús Diðrik Baldursson, gæðastjóri og skrifstofustjóri rektorsskrifstofu, starfar með nefndinni. Skipunartími nefndarinnar er frá 1. febrúar 2015 til 31. janúar 2018.
- Samþykkt.

12. Mál til fróðleiks.
a) Úthlutun úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands fyrir árið 2015.
b) Úthlutun úr Rannsóknasjóði Rannís fyrir árið 2015.
c) Fréttabréf Félagsvísindasviðs, janúar 2015.

13. Önnur mál.
a) Erindi frá stjórn Félagsvísindasviðs um heimild til að fjölga inntöku í fyrri hluta MA-náms í náms- og starfsráðgjöf.

Rektor gerði grein fyrir því að borist hefði erindi frá stjórn Félagsvísindasviðs, að beiðni Félags- og mannvísindadeildar, um heimild til að fjölga nemendum sem teknir eru inn í fyrri hluta MA-náms í náms- og starfsráðgjöf háskólaárið 2015-2016 úr 35 í 40, en háskólaráð samþykkti á fundi sínum 4. desember sl. að heimilda deildinni að takmarka inngöngu við 35 nemendur.
- Samþykkt einróma.

b) Erindi frá forsætisráðherra um málefni Loftskeytastöðvarinnar vestan Suðurgötu.
Rektor gerði grein fyrir því að Háskóla Íslands hafi borist bréf frá forsætis-ráðherra þar sem fram kemur að Þjóðminjasafn Íslands hafi haft frumkvæði að því að Háskóla Íslands verði afhent húsnæði Loftskeytastöðvarinnar vestan Suðurgötu til yfirráða og umsjónar. Ráðsmenn lýstu ánægju og þakklæti fyrir þá velvild sem fram kemur af hálfu Þjóðminjasafns og forsætisráðherra. Nýting Loftskeytastöðvarinnar mun hjálpa til við að leysa bráðan húsnæðisvanda skólans.
- Samþykkt einróma.

        Fleira var ekki gert.
        Fundi slitið kl. 16.05.