Skip to main content

Háskólaráðsfundur 2. október 2014

09/2014

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2014, fimmtudaginn 2. október var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Kristín Ingólfsdóttir, Davíð Þorláksson (varamaður fyrir Áslaugu Maríu Friðriksdóttur), Ebba Þóra Hvannberg, Iðunn Garðarsdóttir, Ingólfur Ásgeir Jóhannesson (varamaður fyrir Eirík Rögnvaldsson), Jakob Ó. Sigurðsson, Margrét Hallgrímsdóttir, Nanna Elísa Snædal Jakobsdóttir, Orri Hauksson, Stefán Hrafn Jónsson og Tómas Þorvaldsson. Fundinn sat einnig Magnús Diðrik Baldursson sem ritaði fundargerð. 

Rektor setti fundinn og greindi frá því að engar athugasemdir hefðu borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Jafnframt spurði rektor hvort einhver teldi sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki. Engar athugasemdir voru gerðar við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur. Rektor greindi frá því að hún myndi segja frá erindi Stúdentaráðs Háskóla Íslands undir liðnum „önnur mál“.

1. Mál á döfinni í Háskóla Íslands.

Rektor gerði grein fyrir nokkrum málum og viðburðum frá síðasta fundi háskólaráðs og framundan.

a) Í gær, 1. október, bárust þau ánægjulegu tíðindi að Háskóli Íslands er áfram í hópi bestu háskóla heims samkvæmt nýjum matslista Times Higher Education World University Rankings 2014-2015 og er raðað í sæti 251-275. Háskóli Íslands komst í fyrsta sinn á listann á aldarafmæli skólans árið 2011 og var þá í sæti 275-300. Alls eru um 17.000 háskólar í heiminum og nær listinn yfir hæst metnu 400 háskólana. Árið 2012 hækkaði Háskóli Íslands upp um flokk og hefur síðan verið í sæti 251-275. Nákvæm staða verður birt á næstu dögum en háskólinn var í 269. sæti á síðasta ári. 

b) Hagfræðistofnun skilaði fyrir skömmu skýrslu um þjóðhagslega hagkvæmni uppbyggingar Landspítala, sbr. lið 8c á dagskrá þessa fundar. Skýrslan var send heilbrigðisráðherra og fundaði hann með rektor og forstjóra Landspítala 24. september um húsnæðismál spítalans og heilbrigðisvísindadeilda háskólans. Nýtt húsnæði fyrir deildirnar verður fjármagnað af Happdrætti Háskóla Íslands.

c) Á vettvangi Heilbrigðisvísindasviðs hefur verið sett á laggirnar verkefnið Heilsutorg háskólanema í samstarfi við Heilsugæslu Reykjavíkur í Glæsibæ, sbr. lið 8b á dagskrá þessa fundar, sem felst í því að nemendur í heilbrigðisvísindagreinum veita öðrum háskólanemum og börnum þeirra ókeypis heilbrigðisþjónustu undir leiðsögn kennara. Mikilvægur þáttur í Heilsutorginu er að þjálfa nemendur til að vinna saman í teymum þvert á einstakar fræðigreinar. 

d) Fyrir skömmu var haldin ráðstefna á vegum Kerfislíffræðiseturs Háskóla Íslands til að marka lokin á viðamiklu verkefni sem fyrir nokkrum árum hlaut svonefndan ERC-styrk, en það er hæsti einstaki styrkur sem fengist hefur til Háskóla Íslands. Á ráðstefnunni var farið yfir árangur af verkefninu á sviði rannsókna, þjálfunar nemenda og nýsköpunarverkefna. 

e) Stjórn Samstarfsnets opinberra háskóla hélt nýlega fund 22. september sl. þar sem farið var yfir árangurinn af samstarfinu. Í fjárlagafrumvarpi ársins 2015 er ekki gert ráð fyrir framlagi vegna netsins, en aðilar eru samdóma um að það hafi skilað miklum árangri og að mikilvægt sé að halda starfinu áfram. 

f) Samstarfsnefnd háskólastigsins hélt fund 24. september sl. þar sem rætt var um að auka samstarf á milli háskóla landsins, m.a. til að nýta betur takmarkaða fjármuni. Á fundinum var ákveðið að kortleggja með skipulegum hætti núverandi samstarf á milli íslensku háskólanna, bæði á sviði kennslu og rannsókna. 

g) Menntakvika, árleg ráðstefna um nýbreytni og þróun í menntavísindum, verður haldin í 18. sinn á morgun, föstudaginn 3. október. 

2. Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.

a. Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2015. Staða mála.

b. Kjaraviðræður Félags prófessora og fjármálaráðuneytis. Staða mála.

c. Útskýring á reikniflokkum vegna kennslu.

d. Stefnumótun um fjármögnun Háskóla Íslands til framtíðar. Markmið og leiðir, sbr. fund ráðsins 5. júní sl.

Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs, og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs. Gerðu þau grein fyrir stöðu mála varðandi fjárlagafrumvarp fyrir árið 2015. Málið var rætt ítarlega og svöruðu þau Guðmundur og Jenný Bára spurningum fulltrúa í háskólaráði. 

Þá gerði Guðmundur grein fyrir stöðu mála varðandi kjaraviðræður Félags prófessora og fjármálaráðuneytis. Málið var rætt.

Næst gerðu þau Guðmundur og Jenný Bára grein fyrir fyrirkomulagi reikniflokka vegna kennslu, sbr. fyrirspurn á síðasta fundi ráðsins. Málið var rætt.

Þá skýrði rektor frá áherslum Háskóla Íslands varðandi fjármögnun háskólans til framtíðar. Málið var rætt ítarlega og svaraði rektor spurningum fulltrúa í háskólaráði. Að umræðu lokinni lagði rektor til að stýrihópur háskólaráðs, sem haldi utan um verkefnið og skipaður var í júní sl., verði stækkaður. Auk rektors, Ebbu Þóru Hvannberg og Jakobs Ó. Sigurðssonar, komi Orri Hauksson og Nanna Elísa Snædal Jakobsdóttir inn í hópinn.

– Samþykkt einróma.

3. Starfsáætlun háskólaráðs 2014-2015, sbr. síðasta fund.

Rektor gerði grein fyrir drögum að starfsáætlun háskólaráð 2014-2015. Málið var rætt ítarlega og settu fulltrúar í háskólaráði fram ábendingar og tillögur um verkefni fyrir starfsáætlunina. 

starfsáætlun háskólaráðs 2014-2015 samþykkt einróma og verður endurskoðuð reglulega.

Davíð Þorláksson þurfti að víkja af fundi.

4. Úttekt á Háskóla Íslands skv. áætlun Gæðaráðs íslenskra háskóla. Sjálfsmatsskýrsla Háskóla Íslands. Staða mála.

Magnús Diðrik Baldursson gerði grein fyrir málinu. Málið var rætt ítarlega og svaraði Magnús Diðrik spurningum og athugasemdum ráðsmanna. Fram kom að drög að sjálfsmatsskýrslu Háskóla Íslands verða kynnt og rædd á háskólaþingi 4. nóvember nk., sbr. lið 8 d á dagskrá þessa fundar, og verður endanleg sjálfsmatsskýrsla lögð fyrir háskólaráð til afgreiðslu 13. nóvember nk. 

5. Stefna Háskóla Íslands 2011-2016: Stefnumótun í alþjóðasamskiptum, sbr. síðasta fund.

Inn á fundinn kom Friðrika Harðardóttir, forstöðumaður Skrifstofu alþjóðasamskipta, og gerði grein fyrir starfsemi skrifstofunnar og nýjum áskorunum. Málið var rætt og svaraði Friðrika spurningum fulltrúa í háskólaráði. Rektor lagði til að skipaður verði starfshópur undir forystu Friðriku til að móta drög að stefnu Háskóla Íslands í alþjóðasamskiptum sem lögð verður fyrir háskólaráð. 

– Samþykkt einróma að fela rektor að ganga frá skipun starfshóps um mótun stefnu Háskóla Íslands í alþjóðasamskiptum og setja honum erindisbréf.  

Orri Hauksson þurfti að víkja af fundi. 

6. Um rektorskjör og skipun rektors fyrir tímabilið 1.7.2015-30.6.2020.

Inn á fundinn kom Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs, og gerði grein fyrir væntanlegu rektorskjöri og skipun rektors fyrir tímabilið 1.7.2015-30.6.2020. Málið var rætt og verður tekið upp aftur á fundi ráðsins í desember nk. 

7. Bókfærð mál.

a. Skipun Öryggisnefndar Háskóla Íslands.

b. Formaður Hugverkanefndar, breyting.

8. Mál til fróðleiks.

a. Formaður jafnréttisnefndar háskólaráðs 2014-2017, sbr. fund ráðsins 5. júní sl.

b. Samstarfssamningur Háskóla Íslands og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um Heilsutorg háskólanema, dags. 24. september 2014.

c. Kostnaður og ábati af smíði nýs Landspítala. Skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, dags. september 2014. 

d. Dagskrá 13. háskólaþings 31. október 2014.

e. Skýrsla um úttekt á vísinda- og nýsköpunarkerfinu á Íslandi. 

f. Dagskrá jafnréttisdaga Háskóla Íslands 6.-17. október 2014.  

g. Fréttabréf Félagsvísindasviðs.

h. Fréttablað Kennslumiðstöðvar, september 2014.

9. Önnur mál. Erindi frá Stúdentaráði Háskóla Íslands.

Rektor greindi frá því að borist hefði erindi frá Stúdentaráði Háskóla Íslands um skrásetningargjald. Lagði rektor til að málið verði borið undir lögfræðing háskólans og síðan lagt fyrir háskólaráð á næsta fundi ásamt umsögn lögfræðingsins.

–  Samþykkt einróma. 

Fleira var ekki gert.

Fundi slitið kl. 16.05.