Skip to main content

Háskólaráðsfundur 19. maí 2016

06/2016

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2016, fimmtudaginn 19. maí var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Davíð Þorláksson (varamaður fyrir Áslaugu Friðriksdóttur), Ebba Þóra Hvannberg, Eiríkur Rögnvaldsson, Iðunn Garðarsdóttir, Jakob Ó. Sigurðsson, Margrét Hallgrímsdóttir, Nanna Elísa Snædal Jakobsdóttir, Stefán Hrafn Jónsson og Tómas Þorvaldsson. Fundinn sat einnig Magnús Diðrik Baldursson sem ritaði fundargerð. Orri Hauksson boðaði forföll og varamaður hans einnig.

1.    Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver vildi gera athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Jafnframt spurði rektor hvort einhver teldi sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá. Margrét Hallgrímsdóttir tók ekki þátt í afgreiðslu dagskrárliða 3a og 8a. Engar athugasemdir voru gerðar við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.

2.    Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
a)    Ársreikningur Háskóla Íslands 2015
.
Inn á fundinn kom Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs og gerði grein fyrir framlögðum ársreikningi Háskóla Íslands 2015. Málið var rætt og svaraði Jenný spurningum fulltrúa í háskólaráði.
– Ársreikningur Háskóla Íslands 2015 samþykktur einróma.

b)    Tillaga til þingsályktunar um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2017-2021.
Fyrir fundinum lá minnisblað um tillögu til þingsályktunar ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2017-2021. Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt ítarlega.

3.    Niðurstöður háskólaþings 10. maí 2016.
a)    Breyting á reglum nr. 984/2008 um skipan og fundarsköp háskólaþings.
Fyrir fundinum lá yfirlit um breytingar á reglum nr. 984/2008 um skipan og fundarsköp háskólaþings sem samþykktar voru á háskólaþingi 10. maí 2016. Rektor gerði grein fyrir málinu.
– Staðfest. Margrét Hallgrímsdóttir tók ekki þátt í afgreiðslu málsins.

b)    Endurskoðuð málstefna Háskóla Íslands.
Fyrir fundinum lágu lokadrög að endurskoðaðri málstefnu Háskóla Íslands ásamt yfirliti um breytingar sem gerðar voru á drögunum í samræmi við framkomnar ábendingar á háskólaþingi 10. maí sl. Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor og fulltrúi í háskólaráði, formaður starfshóps um endurskoðun málstefnu Háskóla Íslands, gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
– Staðfest einróma. Rektor falið að skipa málnefnd og setja henni erindisbréf.

c)    Kjör þriggja fulltrúa háskólasamfélagsins og þriggja varamanna í háskólaráð fyrir tímabilið 1.7.2016-30.6.2018.
Á háskólaþingi 10. maí sl. fór fram kjör þriggja fulltrúa háskólasamfélagsins og þriggja varamanna í háskólaráð fyrir tímabilið 1.7.2016-30.6.2018. Kjörinu stýrði Ebba Þóra Hvannberg, varaforseti háskólaráðs. Í framboði voru sex akademískir starfsmenn Háskólans og voru úrslit atkvæðagreiðslunnar á þá leið að Guðrún Geirsdóttir, dósent við Kennaradeild á Menntavísindasviði og deildarstjóri Kennslumiðstöðvar Háskóla Íslands, Stefán Hrafn Jónsson, prófessor við Félags- og mannvísindadeild á Félagsvísindasviði og Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor við Íslensku- og menningardeild á Hugvísindasviði voru kjörin sem aðalmenn. Ingibjörg Gunnarsdóttir, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild á Heilbrigðisvísindasviði var kjörin varamaður Guðrúnar, Rúnar Unnþórsson, dósent við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild á Verkfræði- og náttúruvísindasviði var kjörinn varamaður Stefáns Hrafns og Amalía Björnsdóttir, dósent við Kennaradeild á Menntavísindasviði var kjörin varamaður Eiríks.

4.    Skipulag sameiginlegrar stjórnsýslu Háskóla Íslands.
Fyrir fundinum lá tillaga rektors að breytingu á skipulagi sameiginlegrar stjórnsýslu Háskóla Íslands í framhaldi af úttekt Ómars H. Kristmundssonar og Ástu Möller og umræðum á háskólaþingi 10. maí sl. Tillaga rektors var að gerðar verði eftirtaldar breytingar á stjórnskipulagi skólans frá 1.7.2016:
1) Að háskólaráð veiti rektor heimild til að ráða tvo aðstoðarrektora, aðstoðarrektor vísinda og aðstoðarrektor kennslumála og þróunar, sem verði valdir úr hópi akademískra starfsmanna skólans í hlutastarf (með rannsóknaskyldu) en rektor setji þeim erindisbréf þar sem umboð þeirra verði afmarkað.
2) Ráðinn verði framkvæmdastjóri stjórnsýslu sem muni leiða sameiginlega stjórnsýslu Háskólans í umboði rektors og hafi þar með yfirumsjón eftirtalinna sviða í stjórnsýslu skólans: framkvæmda- og tæknisvið, fjármálasvið, kennslusvið, markaðs- og samskiptasvið, starfsmannasvið og vísinda- og nýsköpunarsvið. Rektor setji honum erindisbréf. Gerðar verði breytingar á reglum Háskóla Íslands til samræmis við þetta.
3) Rektor verði formaður fjármálanefndar Háskóla Íslands í stað framkvæmdastjóra fjármála og reksturs en framkvæmdastjóri stjórnsýslu skólans verði ritari hennar en skipan nefndarinnar verði að öðru leyti óbreytt. Nefndinni verði sett erindisbréf.
4) Vísindanefnd háskólaráðs verði skipt upp og fái stefnumótandi hlutverk. Aðstoðarrektor vísinda stýri nefndinni, en sviðsstjóri vísinda- og nýsköpunarsviðs verði ritari hennar. Skipuð verði sérstök stjórn Rannsóknasjóðs sem taki ákvörðun um úthlutun verkefnastyrkja úr Rannsóknasjóði HÍ, doktorsstyrkjum sama sjóðs og Háskólasjóði Eimskipafélagsins. Kennslumálanefnd hafi stefnumótandi hlutverk jafnframt því að stýra Kennslumálasjóði (þar til annað verður ákveðið) og henni verði stýrt af aðstoðarrektor kennslu og þróunar. Sviðsstjóri kennslusviðs verði ritari hennar. Nefndunum verði sett erindisbréf.

Nauðsynlegar reglubreytingar verði lagðar fyrir háskólaráð á fundi þess 2. júní nk. Í tillögunni kom jafnframt fram að gert væri ráð fyrir að Guðbjörg Linda Rafnsdóttir prófessor verði aðstoðarrektor vísinda, Steinunn Gestsdóttir prófessor verði aðstoðarrektor kennslumála og þróunar og Guðmundur R. Jónsson, prófessor og framkvæmdastjóri fjármála og reksturs, verði framkvæmdastjóri stjórnsýslu.

Rektor gerði grein fyrir tillögunni og var hún rædd ítarlega. Að loknum umræðum var tillagan samþykkt samhljóða, en Davíð Þorláksson sat hjá þar sem hann taldi að auglýsa ætti störf aðstoðarrektora innan Háskólans. Tillaga að breytingum á reglum Háskóla Íslands til samræmis við samþykktina verður lögð fram á næsta fundi háskólaráðs.

5.    Tillögur starfshóps rektors um málefni starfsmanna á eftirlaunum.
Inn á fundinn komu Höskuldur Þráinsson, prófessor emerítus og formaður starfshóps rektors um málefni starfsmanna á eftirlaunum og Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísinda- og nýsköpunarsviðs sem starfaði með hópnum. Gerðu þeir grein fyrir tillögum starfshópsins. Málið var rætt og svöruðu Höskuldur og Halldór spurningum fulltrúa í háskólaráði.
– Samþykkt einróma að fela rektor að koma tillögum starfshópsins í framkvæmd, í samráði við forseta fræðasviða og eftir því sem aðstæður og fjárhagur Háskólans hverju sinni leyfir.

6.    Þátttaka Háskóla Íslands í evrópsku samstarfsneti rannsóknaháskóla (NERU).
Inn á fundinn kom Friðrika Harðardóttir, forstöðumaður Skrifstofu alþjóðasamskipta. Halldór Jónsson og Friðrika gerðu grein fyrir málinu. Málið var rætt ítarlega og svöruðu þau Halldór og Friðrika spurningum ráðsmanna.

7.    Kynning á starfi jafnréttisnefndar.
Inn á fundinn kom Herdís Sveinsdóttir, prófessor og formaður jafnréttisnefndar háskólaráðs og gerði grein fyrir störfum nefndarinnar og helstu verkefnum framundan. Málið var rætt og svaraði Herdís spurningum fulltrúa í háskólaráði.

8.    Bókfærð mál.
a)    Tillaga að breytingu á 10. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009, sbr. dagskrárlið 3a.

– Samþykkt.

9.    Mál til fróðleiks.
a)    Rafrænt fréttabréf Félagsvísindasviðs fyrir apríl 2016.
b)    Ársskýrsla Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands 2015.
c)    Viljayfirlýsing um áframhaldandi starfsemi Háskóla Íslands á Laugarvatni, dags. 28. apríl 2016.
d)    Glærur rektors frá ráðstefnunni Social Progress: What Works?, dags. 28. apríl 2016.
e)    Glærur rektors frá háskólaþingi 10. maí 2016.
f)    Breyting á stjórn Háskólaútgáfunnar.
g)    Ákvörðun rektors um að SURF sumarstyrkir til Caltech beri nafn Kiyo og Eiko Tomiyasu.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.00.