Skip to main content

Háskólaráðsfundur 17. nóvember 2011

11/2011

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2011, fimmtudaginn 17. nóvember var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu: Kristín Ingólfsdóttir, Anna Agnarsdóttir, Börkur Hansen, Fannar Freyr Ívarsson, Guðrún Hallgrímsdóttir, Hilmar B. Janusson, Pétur Gunnarsson, Sigríður Ólafsdóttir og Tinna Laufey Ásgeirsdóttir. Guðrún Sóley Gestsdóttir og Þórður Sverrisson boðuðu forföll. Fundargerð ritaði Halldór Jónsson.

1.    Mál á döfinni í Háskóla Íslands.

Rektor gerði stuttlega grein fyrir nokkrum viðburðum frá síðasta fundi ráðsins og málum á döfinni.
a)    Um þessar mundir eru sýndir undir heitinu “Fjársjóður framtíðar” á RÚV þrír sjónvarpsþættir um vísindastarf Háskóla Íslands.
b)    Alþjóðleg tungumálamiðstöð Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands hefur hlotið samþykki Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, til að starfa undir merkjum hennar. Í vottun UNESCO felst mikil viðurkenning á starfi Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur og stuðningur við framtíðaráform hennar. Bygginganefnd fyrir nýbyggingu Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur á horni Suðurgötu og Brynjólfsgötu hefur lokið undirbúningsvinnu og á næstunni verður efnt til opinnar hönnunarsamkeppni.
c)    Árleg afhending nýsköpunarverðlauna Háskóla Íslands fer fram föstudaginn 18. nóvember nk.
d)    Ársfundur Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands verður haldinn 23. nóvember nk. í Reykjavík.
e)    Ýmsir viðburðir verða haldnir við Háskóla Íslands fullveldisdaginn 1. desember nk. Um morguninn halda guðfræðinemar messu í kapellu Aðalbyggingar, stúdentar leggja blómsveig á leiði Jóns Sigurðssonar og efna til dagskrár á Háskólatorgi í hádeginu, haldinn verður í fyrsta sinn doktoradagur Háskóla Íslands og Reykjavíkurborg afhendir gjöf til Háskóla Íslands í tilefni af aldarafmæli skólans.  Þá verða veittar heiðursdoktorsnafnbætur frá deildum Hugvísindasviðs.
f)    Háskólaþing Háskóla Íslands verður haldið föstudaginn 9. desember nk.
g)    Rektor var nýlega boðið til Kína til að taka þátt í ráðstefnu kvenrektora háskóla um allan heim. Í ferðinni heimsótti rektor einnig tvo kínverska samstarfsháskóla Háskóla Íslands. Þá var rektor boðið til Noregs á fund rektora allra norsku háskólanna til að halda erindi um stefnumótun og árangursstjórnun Háskóla Íslands.

2.    Fjármál Háskóla Íslands.

a) Fjárhagsstaða háskólans, yfirlit eftir níu mánuði.
    Rektor kynnti yfirlit yfir rekstur Háskóla Íslands frá janúar til september 2011. Fram kom að reksturinn væri í jafnvægi.

b) Aldarafmælissjóður Háskóla Íslands.
Rektor kynnti fyrirliggjandi tillögur um ráðstöfun stofnframlags Aldarafmælissjóðs að fjárhæð 150 m.kr. Málið var rætt ítarlega. Einnig kom fram tillaga um að setja á laggirnar nefnd er taki þátt í að vinna tillögur um ráðstöfun framlaga í Aldarafmælissjóð til lengri tíma.

- Samþykkt samhljóða með sjö atkvæðum, tveir sátu hjá.

Hilmar B. Janusson vék af fundi.

3.   Gjafir til Háskóla Íslands í tilefni af aldarafmæli háskólans.
a) Gjöf frá ríkisstjórn og Alþingi: Aldarafmælissjóður Háskóla Íslands.
b) Gjöf frá ríkisstjórn og Alþingi: Prófessorsstarf tengt nafni Jóns Sigurðssonar.
c) Framlag Reykjavíkurborgar.
d) Gjafir og kveðjur frá erlendum háskólum og samtökum háskóla.
e) Aðrar gjafir.

Rektor gerði grein fyrir ítarlegu minnisblaði um gjafir til Háskóla Íslands í tilefni af aldarafmæli skólans. Gjöf frá Reykjavíkurborg verður kynnt opinberlega 1. desember nk. Í umræðum um málið kom fram að vel færi á því að efna til sýningar á gjöfum sem Háskóli Íslands hefur fengið á aldarafmælinu.

Í tengslum við lið b) var fjallað um tilnefningu háskólaráðs í dómnefnd.

Tinna Laufey Ásgeirsdóttir vék af fundi undir þessum dagskrárlið.

Halldór Jónsson gerði grein fyrir stöðu ráðningar í starf prófessors, sbr. b) lið að framan. Samkvæmt ályktun Alþingis, dags. 15. júní 2011, var stofnað til prófessorsstarfs við Háskóla Íslands sem tengt er nafni Jóns Sigurðssonar forseta. Starfið var auglýst með umsóknarfresti til 16. október 2011. Alls bárust 11 umsóknir um starfið og falla menntun og rannsóknir umsækjenda undir fræðasvið hugvísinda, félagsvísinda og verkfræði- og náttúruvísinda.

Rektor bar upp tillögu um að fulltrúar háskólaráðs í dómnefnd verði þau Guðmundur Heiðar Frímannsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, og Sveinbjörn Björnsson, prófessor emeritus og fyrrv. rektor Háskóla Íslands. Af hálfu rektors er Guðrún Kvaran, prófessor og formaður fastrar dómnefndar á Hugvísindasviði tilnefnd sem formaður nefndarinnar.

- Samþykkt einróma.

4.     Innri endurskoðun Háskóla Íslands.
Gunnlaugur H. Jónsson, innri endurskoðandi Háskóla Íslands, kom inn á fundinn og gerði grein fyrir minnisblaði til háskólaráðs og gögnum um mikilvæga þætti í rekstri skólans. Málið var rætt og svaraði Gunnlaugur spurningum ráðsmanna.

5.    Stefna Háskóla Íslands 2011-2016.
       a) Framkvæmdaáætlun, framhald frá fundi 8. september sl.
Rektor kynnti stöðu áætlunarinnar. Málið var rætt.

- Áætlun um framkvæmd Stefnu Háskóla Íslands 2011-2016 samþykkt einróma.

      b) Rannsóknaþjónusta, endurskoðun á stoðþjónustu.

      c) Alþjóðamál, endurskoðun á stoðþjónustu.

Inn á fundinn kom Ásta Bjarnadóttir, forstöðumaður innlendra háskólasamskipta Háskóla Íslands. Ásta gerði grein fyrir tillögu um breytt skipulag Alþjóðaskrifstofu háskólastigsins og Rannsóknaþjónustu háskólans í því skyni að efla stoðþjónustu í alþjóðamálum og rannsóknamálum innan háskólans. Málið var rætt ítarlega.

Rektor lagði til að Jóni Atla Benediktssyni, aðstoðarrektor vísinda- og kennslu, ásamt sviðsstjórum vísindasviðs og kennslusviðs, verði falið að útfæra nánar tillögu um breytt skipulag í samráði við starfsmenn Alþjóðaskrifstofu og Rannsóknaþjónustu. Rektor lagði enn fremur til að stúdentar taki þátt í endurskoðun alþjóðamála er varðar móttöku erlendra nemenda og tækifæri nemenda Háskóla Íslands til að taka hluta náms við erlenda háskóla. Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs, kom inn á fundinn undir þessum lið.

- Samþykkt einróma.

6.    Úttektir á deildum háskólans.

a) Lokaskýrsla vegna úttekta á Guðfræði- og trúarbragðafræðideild, ásamt samantekt á helstu niðurstöðum skýrslunnar og viðbrögðum deildarinnar.
Rektor kynnti málið og var það rætt. Lagði rektor til að í samræmi við almennt vinnulag við eftirfylgni með ytra gæðamati verði stjórn Hugvísindasviðs falið að gera fyrir lok maí 2012 ítarlega grein fyrir því hvernig brugðist hefur verið við ábendingum í lokaskýrslu ytri matshóps vegna úttektar á Guðfræði- og trúarbragðafræðideild. Forseti Hugvísindasviðs geri rektor grein fyrir framvindu vinnunnar fyrir lok febrúar 2012.

- Samþykkt einróma.

b) Lokaskýrsla vegna úttektar á lagadeildum fjögurra íslenskra háskóla, ásamt viðbrögðum Lagadeildar Háskóla Íslands.
Rektor kynnti málið og bar upp tillögu um að Stjórn Félagsvísindasviðs verði falið að gera fyrir lok maí 2012 ítarlega grein fyrir því hvernig brugðist hefur verið við ábendingum í lokaskýrslu ytri matshóps vegna úttektar á Lagadeild. Forseti Félagsvísindasviðs geri rektor grein fyrir framvindu vinnunnar fyrir lok febrúar 2012.

- Samþykkt einróma.

c) Minnisblað frá gæðanefnd um ábendingar í ytri úttektum sem varða háskólann í heild, sbr. fund ráðsins 8. september sl.
Halldór Jónsson og rektor kynntu efni minnisblaðsins og var það rætt.

d) Skipulag, tímaáætlun og framkvæmd sjálfsmats innan Háskóla Íslands, sbr. fund ráðsins 8. september sl.
Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt stuttlega.

7.    Tillögur að breytingu á reglum og að nýjum reglum í kjölfar gildistöku nýrra laga, sameiginlegra          reglna og breytts skipulags Háskóla Íslands.

a) Tillaga að breytingu á reglum um framgang og ótímabundna ráðningu akademískra starfsmanna við Háskóla Íslands nr. 263/2010, sbr. síðasta fund.
Rektor kynnti málið. Í ljósi þess að fjallað var ítarlega um málið á síðasta fundi háskólaráðs og á sérstökum aukafundi með sviðsstjórum kennslusviðs og vísindasviðs 31. október sl. lagði rektor til að gengið yrði strax til atkvæðagreiðslu um breytingatillögurnar. Málið var rætt. Þá bar rektor fyrst upp tillögu að breytingum á reglum um framgang og ótímabundna ráðningu akademískra starfsmanna við Háskóla Íslands nr. 263/2010, án ákvæðis til bráðabirgða.

- Samþykkt samhljóða, sjö voru með og einn sat hjá.

Næst bar rektor upp ákvæði til bráðabirgða.

- Ákvæði til bráðabirgða var fellt, þrír voru á móti, tveir voru með og þrír sátu hjá.

b) Aðlögun reglna Háskóla Íslands að breytingu á lögum um opinbera háskóla nr. 85/2008 vorið 2010, sbr. lög nr. 50/2010, sbr. síðasta fund:
-    Breyting á 3., 9., 10., 12., 29., 31., 64. og 96. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009.

Rektor og Þórður Kristinsson gerðu grein fyrir málinu.

- Samþykkt einróma.

-    Breyting á 1. gr. reglna um skipan og fundarsköp háskólaþings Háskóla Íslands nr. 984/2008.
Þórður Kristinsson gerði grein fyrir málinu.

- Samþykkt einróma.

c) Tillaga að breytingu á 77. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009 um Tækjakaupasjóð Háskóla Íslands ásamt vinnureglum sjóðsins og tillaga að breyttum vinnureglum fyrir Rannsóknasjóð háskólans til samræmis við breytta 77. gr., sbr. síðasta fund.
Þórður Kristinsson og Halldór Jónsson gerðu grein fyrir málinu.

- Samþykkt einróma.

d) Tillaga að reglum fyrir Lífvísindasetur Háskóla Íslands.
Rektor gerði grein fyrir málinu.

- Samþykkt einróma.

8.    Bréf frá umboðsmanni Alþingis, dags. 7. nóvember 2011.
Rektor greindi frá því að svar við erindi umboðsmanns væri í vinnslu og að málið yrði tekið fyrir á næsta fundi háskólaráðs.

9.    Mál til fróðleiks.
a) Drög að dagskrá háskólaþings föstudaginn 9. desember 2011.
b) Framkvæmd Stefnu Háskóla Íslands 2006-2011. Árangur og staða. Skýrsla Háskóla Íslands til mennta- og menningarmálaráðuneytis haustið 2011.
c) Tilvitnanir í ritverk vísindamanna Háskóla Íslands.
d) Skýrsla, Quality Enhancement Handbook for Icelandic Higher Education 2011.

10.    Önnur mál. Skipan nýs fulltrúa í stjórn Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum
Rektor greindi frá því að vegna andláts Páls Hersteinssonar, prófessors, þurfi að tilnefna nýjan fulltrúa í stjórn Keldna. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 67/1990 um Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum skipar háskólaráð fimm menn í stjórnina til fjögurra ára í senn. Leitað hefur verið tilnefningar, sbr. framangreind lög um Tilraunastöðina, og er lagt til að Eva Benediktsdóttir, dósent í Líf- og umhverfisvísindadeild á Verkfræði- og náttúruvísindasviði, verði skipuð í stjórn Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum til 31. desember 2014.

- Samþykkt einróma.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.40.