Skip to main content

Háskólaráðsfundur 17. mars 2011

03/2011

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2011, fimmtudaginn 17. mars var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Kristín Ingólfsdóttir, Anna Agnarsdóttir, Börkur Hansen, Guðrún Sóley Gestsdóttir, Guðrún Hallgrímsdóttir, Hilmar B. Janusson, Margrét Arnardóttir (varamaður Fannars Freys Ívarssonar), Pétur Gunnarsson, Sigríður Ólafsdóttir, Sigríður Valgeirsdóttir (varamaður Þórðar Sverrissonar) og Tinna Laufey Ásgeirsdóttir. Fundinn sat einnig Jón Atli Benediktsson. Fundargerð ritaði Halldór Jónsson.

Fundargerð síðasta fundar var lögð fram og hún samþykkt.

1.    Mál á döfinni í Háskóla Íslands.
Rektor gerði grein fyrir nokkrum viðburðum frá síðasta fundi ráðsins og málum á döfinni.
a)    Rektor greindi frá því að eftir hamfarirnar í Japan hefur verið haft samband við foreldra allra nemenda HÍ sem eru í skiptinámi í Japan og að þeir eru allir óhultir. Einnig hefur verið haft samband við þá 11 stúdenta frá Japan sem stunda nám við HÍ og þeim boðinn stuðningur.
b)    Kynningardagur háskólanna fór fram 19. febrúar sl. Rektor vakti athygli á Tímariti Háskóla Íslands, sem lagt var fram á fundinum, en það var gefið út í tengslum við kynningardaginn. Tímaritið sýnir vel þá breidd sem er í starfi skólans.
c)    Brautskráning fór fram 26. febrúar. All nokkrir kandídatar mættu til athafnarinnar í íslenskum búningum og setti það skemmtilegan svip á brautskráninguna.
d)    Rektor tók þátt í ráðstefnu í tilefni af 200 ára afmæli Óslóarháskóla í byrjun mars. Rektor flutti þar ávarp um þarfir nýrra tíma í menntun og vísindum.
e)    Næst greindi rektor frá nokkrum umbótaverkefnum sem unnið er að um þessar mundir. Verið er að endurskoða alla verkferla í stjórnsýslu og bæta skráningu þeirra. Verkefnið miðar einnig að því að meta hvernig breytingarnar á skipulagi og stjórnkerfi Háskóla Íslands frá árinu 2008 hafa reynst. Enn fremur er lögð áhersla á að leita leiða til að bæta upplýsingamiðlun innan skólans og gera verkaskiptingu á milli starfseininga skýrari.
f)    Viðburðir samkvæmt dagskrá afmælisársins ganga vel. Rektor sagði frá dagskrá Hugvísindasviðs í marsmánuði og samstarf við Ferðafélag Íslands um gönguferðir á laugardögum. Síðastliðinn laugardag gengu 180 manns um Reykjavík og fengu fræðslu um matarmenningu fyrr og nú undir leiðsögn þeirra Laufeyjar Steingrímsdóttur, prófessors í næringarfræði, Guðrúnar Hallgrímsdóttur, matvælaverkfræðings og Sólveigar Ólafsdóttur, sagnfræðings. Loks minnti rektor á að apríl er mánuður Verkfræði- og náttúruvísindasviðs.
g)    Í lokin greindi rektor frá því að hinn 6. apríl nk. verður haldin úthlutunarathöfn styrktarsjóðs Watanabe og þá verður úthlutun úr Háskólasjóði Eimskipafélagsins fimmtudaginn 5. maí, strax að loknum háskólaráðsfundi.

2.    Stefna Háskóla Íslands 2011-2016: Mótun stefnu um sjálfbærni innan Háskóla Íslands. Staða mála.
Inn á fundinn kom Sigurlaug I. Lövdahl, skrifstofustjóri framkvæmda- og tæknisviðs og kynnti fyrirliggjandi minnisblað um stöðu mála í tengslum við endurskoðun stefnu um umhverfismál og sjálfbærni við Háskóla Íslands. Málið var rætt og fram komu ýmsar ábendingar um framhald málsins. Rektor lagði til að settur verði á laggirnar starfshópur til að undirbúa nýja umhverfis- og sjálfbærnistefnu fyrir Háskóla Íslands. Hópurinn verði skipaður eftirtöldum: Allyson McDonald, prófessor við Menntavísindasvið, sem verði formaður, Kristínu Þóru Jökulsdóttur, meistaranema í umhverfis- og auðlindafræðum, Ólafi Páli Jónssyni, dósent við Menntavísindasvið, Karli Benediktssyni, prófessor á Verkfræði og náttúruvísindasviði og Sigurlaugu I. Lövdahl, skrifstofustjóra framkvæmda- og tæknisviðs. Hópnum er ætlað að gera tillögu um nýja stefnu og aðgerðaáætlun, m.a. í samræmi við Stefnu Háskóla Íslands 2011-2016. Hópurinn hafi samráð við sérfræðinga háskólans á sviði umhverfismála og sjálfbærni. Starfshópurinn skili drögum að nýrri umhverfis- og sjálfbærnistefnu fyrir 1. nóvember 2011.

Rektor er falið að ganga frá skipan starfshópsins að fengnum tillögum háskólaráðsmanna um viðbótarfulltrúa í kjölfar fundarins.
- Samþykkt einróma.

3.    Breytt heiti Stofnunar fræðasetra Háskóla Íslands og samningar um tengsl starfsmanna setranna við fræðasvið/deildir.
Rektor gerði grein fyrir málinu. Heiti setra sem Stofnun fræðasetra starfrækir á landsbyggðinni hafa ekki verið nægilega skýr og samhæfð. Fyrir liggur tillaga um að breyta heiti Stofnunar fræðasetra Háskóla Íslands í Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands og að breyta jafnframt heitum þeirra setra sem undir stofnunina heyra. Með þessari breytingu eru heiti setranna samræmd, en þau verða öll kennd við Háskóla Íslands og viðkomandi stað, sbr. meðfylgjandi yfirlit. Þar með er lögð ríkari áhersla á tengsl þeirra við háskólann og að þau myndi eina heild.

Rektor greindi enn fremur frá því að unnið er að samkomulagi á milli Stofnunar fræðasetra og viðeigandi fræðasviða háskólans (Verkfræði- og náttúruvísindasvið og Hugvísindasvið). Samkomulaginu er m.a. ætlað að auka tengsl akademískra starfsmanna setranna við deildir fræðasviðanna og að auðvelda þeim að taka virkan þátt í leiðbeiningu framhaldsnema að uppfylltum þeim skilyrðum sem lýst er í Viðmiðum og kröfum um doktorsnám við Háskóla Íslands. Málið var rætt og svaraði rektor fyrirspurnum.
- Samþykkt einróma.

4.    Starfsfólk Háskóla Íslands - skipting eftir eðli starfa og samanburður við Norðurlönd.
Inn á fundinn kom Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs. Hann kynnti upplýsingar um fjölda akademískra starfsmanna annars vegar og starfsmanna í stjórnsýslu- og þjónustustörfum hins vegar við nokkra norræna háskóla og bar þær saman við gögn um Háskóla Íslands. Guðmundur gerði ítarlega grein fyrir fjölda ársverka við HÍ og sundurgreindi þær upplýsingar eftir starfsheitum og meðallaunum.

Málið var rætt og fram komu ýmsar gagnlegar athugasemdir og fyrirspurnir og verður þessari vinnu áfram haldið.

5.    Tillögur að breytingu á reglum og að nýjum reglum í kjölfar gildistöku nýrra laga, sameiginlegra reglna og breytts skipulags Háskóla Íslands.
Inn á fundinn kom Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs.

a)    Verklagsreglur um framgang akademískra starfsmanna strax við nýráðningu.
Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísindasviðs gerði grein fyrir drögum að verklagsreglum um framgang. Málið var rætt og svöruðu Halldór og Þórður fyrirspurnum.
- Samþykkt samhljóða, einn sat hjá.

b)    Heilbrigðisvísindasvið: Breyting á 105. gr. (Sálfræðideild).
- Samþykkt samhljóða, einn sat hjá.

c)    Verkfræði- og náttúruvísindasvið:
- Breyting á 27. gr. reglna nr. 319/2009 um inntökuskilyrði í grunnnám.
- Breyting á 128. gr. og 132. gr. reglna HÍ nr. 569/2009 (ný námsleið í nýrri námsbraut í samvinnu Raunvísindadeildar og Líf- og umhverfis­vísinda­deildar).

- Samþykkt einróma.

d)    Reglur um meistaranám á Menntavísindasviði.
- Frestað.

e)    Breyting á reglum um meistaranám við Hjúkrunarfræðideild nr. 239/2004.
- Samþykkt einróma.

6.    Stjórnir, nefndir og ráð.
a)    Skipun fulltrúa háskólans í samstarfsnefnd um málefni samnings Háskóla Íslands og Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins.

Þórður Kristinsson kynnti efni samningsins og greindi frá því að í samstarfsnefndinni sitja sex fulltrúar, þrír frá hvorum samningsaðila, skipaðir til þriggja ára í senn. Fyrir liggur tillaga um að fulltrúar Háskóla Íslands verði þeir sömu og verið hafa. Það eru þau Ásgeir Haraldsson, prófessor í barnalækningum við Heilbrigðisvísindasvið, Steinunn Hrafnsdóttir, dósent í félagsráðgjöf við Félagsvísindasvið og Zuilma Gabriela Sigurðardóttir, dósent í sálfræði við Heilbrigðisvísindasvið.
- Samþykkt einróma

Tinna Laufey Ásgeirsdóttir vék af fundi undir þessum lið.

b)    Fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn RHnets hf.
Rannsókna- og háskólanet Íslands hf. (RHnet) er hlutafélag í eigu HÍ og annarra háskóla og rannsóknastofnana sem annast rekstur á hraðvirku neti á milli háskóla og rannsóknastofnana á Íslandi og annast internettengingu til stærstu háskólaneta í Evrópu og Ameríku í gegnum NORDUnet sem HÍ er aðili að.  Fimm manns skipa stjórn sem kjörin er á aðalfundi ár hvert. Háskólinn á meirihluta í félaginu og hefur haft þrjá fulltrúa í stjórn. Stefnt er að aðalfundi í félaginu í lok mars nk. Fyrir liggja drög ársreiknings fyrir árið 2010.

Lagt er til að fulltrúar HÍ verði fyrir næsta starfsár þau Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs, Sæþór L. Jónsson, forstöðumaður Reiknistofnunar HÍ og Ebba Þóra Hvannberg prófessor við Verkfræði- og náttúruvísindasvið. Varamenn verði Sigurður Jónsson, forstöðumaður Smiðju og tölvumála Menntavísindasviðs, Anna Soffía Hauksdóttir prófessor við Verkfræði- og náttúruvísindasvið og Fjóla Jónsdóttir dósent við Verkfræði- og náttúruvísindasvið.
- Samþykkt einróma.

Þórður Kristinsson vék af fundi undir þessum lið.

c)    Fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Keilis.
Keilir er hlutafélag sem Háskóli Íslands á hlut í og hefur þann tilgang að nýta aðstöðu á Keflavíkurflugvelli til rannsókna og kennslu. Keilir rekur frumgreinadeild (Háskólabrú) og er jafnframt vettvangur fyrir nám í tæknigreinum, en námið er á vegum HÍ sem ber faglega ábyrgð á hvoru tveggja. Háskóli Íslands á tvo fulltrúa af sjö í stjórn Keilis. Fyrir liggur tillaga um að fulltrúar Háskóla Íslands fyrir næsta starfsár verði Jón Atli Benediktsson, aðstoðarrektor vísinda og kennslu og Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísindasviðs. Varamenn verði Brynhildur Davíðsdóttir, dósent í umhverfis- og auðlindafræðum og Sæunn Stefánsdóttir, sérfræðingur á skrifstofu rektors.
- Samþykkt einróma.

Halldór Jónsson vék af fundi undir þessum lið.

d)    Varafulltrúi í stjórn Styrktarsjóða Háskóla Íslands.
Háskólaráð skipar þriggja manna stjórn styrktarsjóða til þriggja ára í senn, samkvæmt reglum um stjórnun, varðveislu og ávöxtun eigna styrktarsjóða Háskóla Íslands. Í reglunum er ekki gert ráð fyrir því að kjörinn sé varamaður, en stjórn styrktarsjóða hefur óskað eftir því að varamaður verði kjörinn. Lagt er til að Sigurður Jóhannesson, aðjúnkt og sérfræðingur á Hagfræðistofnun HÍ verði kjörinn varamaður.
- Samþykkt einróma.

7.    Erindi frá Lagadeild um að veita ekki heimild til undanþágu frá inntökuskilyrðum, sbr. samþykkt háskólaráðs 3. febrúar sl.
Þórður Kristinsson gerði grein fyrir málinu.
- Samþykkt einróma.

8.    Veiting akademískra nafnbóta sbr. reglur nr. 838/2002 [nú nr. 212/2011] um viðurkenningu Háskóla Íslands á akademísku hæfi starfsmanna LSH og veitingu akademískrar nafnbótar.
Þórður Kristinsson gerði grein fyrir málinu. Þórður og Halldór svöruðu fyrirspurnum.
- Samþykkt einróma.

9.    Mál til fróðleiks
a)    Ræða rektors við brautskráningu kandídata 26. febrúar 2011.
b)    Ályktun Verkfræði- og náttúruvísindasviðs um samsetningu gæðaráðs háskóla.
c)    Erindi til vísindanefndar háskóla frá vísindanefnd Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands, dags. 28. febrúar sl.
d)    Frá Alþingi: Frumvarp til laga um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls, 533. mál.
e)    Yfirlit um fasteignir Háskóla Íslands, dags. 31. desember 2010.
f)    Tímarit Háskóla Íslands, útg. í febrúar 2011.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.00.