Skip to main content

Háskólaráðsfundur 15. janúar 2015

01/2015

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2015, fimmtudaginn 15. janúar var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.

Fundinn sátu Kristín Ingólfsdóttir, Áslaug María Friðriksdóttir, Ebba Þóra Hvannberg, Eiríkur Rögnvaldsson, Iðunn Garðarsdóttir, Jakob Ó. Sigurðsson, Margrét Hallgrímsdóttir, Nanna Elísa Snædal Jakobsdóttir, Orri Hauksson, Stefán Hrafn Jónsson og Tómas Þorvaldsson. Fundinn sátu einnig Elín Blöndal og Magnús Diðrik Baldursson sem ritaði fundargerð.

Rektor setti fundinn og greindi frá því að engar athugasemdir hefðu borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Jafnframt spurði rektor hvort einhver teldi sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki. Rektor lagði til að dagskrárlið 8k yrði frestað og var það samþykkt. Að öðru leyti voru engar athugasemdir gerðar við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.

Áður en gengið var til dagskrár þakkaði rektor fulltrúum í háskólaráði fyrir þátttöku þeirra í ytri úttekt á Háskóla Íslands af hálfu Gæðaráðs háskóla.

1. Mál á döfinni í Háskóla Íslands.
Rektor gerði grein fyrir nokkrum málum og viðburðum frá síðasta fundi.
a) Rektor minntist Eggerts Þórs Bernharðssonar prófessors sem lést á gamlársdag sl. fyrir aldur fram. Útför hans fór fram frá Hallgrímskirkju þriðjudaginn 13. janúar sl.
b) Bent Scheving Thorsteinsson, velgjörðarmaður Háskóla Íslands og stofnandi þriggja styrktarsjóða við skólann, lést á 93. aldursári 7. janúar sl. Útför hans verður föstudaginn 16. janúar nk.
c) Í gær var tilkynnt um úhlutun úr Rannsóknasjóði Vísinda- og tækniráðs fyrir árið 2015. Allir fimm öndvegisstyrkir féllu í hlut vísindamanna Háskóla Íslands og er fjárhæð þeirra samtals 165 m.kr. Eru styrkirnir á sviði efnafræði, lífvísinda (tveir styrkir), jarðvísinda og rafmagns- og tölvuverkfræði. Hlutdeild Háskóla Íslands í verkefnastyrkjum þar sem vísindamenn háskólans eru í forsvari er 73%, en séu talin verkefni með þátttöku vísindamanna háskólans er hlutur hans 85%.
d) Tilkynnt var um úthlutun úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands 12. janúar sl. Samtals var sótt um 661 m.kr. og var úthlutað 248 m.kr.
e) Hinn 30. desember sl. fór fram úthlutun úr Verðlaunasjóði Ásu G. Wright og hlaut Gísli Pálsson, prófessor í mannfræði við Félagsvísindasvið, styrkinn að þessu sinni.
f) Dagana 6.-7. janúar sl. fór fram árleg ráðstefna í heilbrigðisvísindum og var hún nú haldin í 17. sinn. Var ráðstefnan fjölsótt og fékk mikla athygli í fjölmiðlum.
g) Úthlutun úr Minningarsjóði Bjargar Magnúsdóttur ljósmóður og Magnúsar Jónassonar bónda fór fram 10. desember sl. Styrki hlutu Lísa Sigurðardóttir og Ingibjörg Eiríksdóttir fyrir doktorsverkefni sín á sviði ljósmóðurfræði.
h) Úthlutað var úr Minningarsjóði Þorvalds Finnbogasonar stúdents 21. desember sl. Viðurkenningu hlaut að þessu sinni Ingimar Jóhannsson, BS-nemi í umhverfis- og byggingarverkfræði.
i) Skömmu fyrir áramót var auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu útboð á framkvæmdum vegna byggingar Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Umsóknarfrestur rennur út 10. febrúar nk.

2. Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
a) Fjárlög ársins 2015.
b) Fjárhagsáætlun Háskóla Íslands fyrir árið 2015, tillaga fjármálanefndar háskólaráðs að skiptingu fjárveitinga.

Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs, og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs, og gerðu grein fyrir fjárlögum ársins 2015, fjárhagsáætlun Háskóla Íslands og tillögu fjármálanefndar að skiptingu fjárveitinga árið 2015. Málið var rætt og svöruðu Guðmundur og Jenný Bára spurningum ráðsmanna. Fram komu nokkrar spurningar til fjármálanefndar sem verður nánar fjallað um á næsta fundi.
- Samþykkt að fela fjármálanefnd háskólaráðs að vinna áfram að fjárhagsáætlun og skiptingu fjárveitinga í samræmi við þær tillögur sem kynntar voru á fundinum. Málið verður aftur á dagskrá á næsta fundi.

3. Fjármögnun Háskóla Íslands til framtíðar.
a) Aldarafmælissjóður Háskóla Íslands. Yfirlit um ráðstöfun fjár og starf nefndar um framlög til Aldarafmælissjóðs 2016-2020. Staða mála.
b) Sértekjur.

Rektor gerði ítarlega grein fyrir stöðu mála varðandi Aldarafmælissjóð Háskóla Íslands og starf nefndar um framlög til sjóðsins 2016-2020. Málið var rætt og verður það áfram á dagskrá ráðsins. 

4. Drög að verklagsreglum um undirbúning, framkvæmd og fyrirkomulag rafrænnar kosningar til embættis rektors Háskóla Íslands og gerð rafrænnar kjörskrár.
Fyrir fundinum lágu drög að verklagsreglum um undirbúning, framkvæmd og fyrirkomulag rafrænnar kosningar til embættis rektors Háskóla Íslands og gerð rafrænnar kjörskrár. Inn á fundinn kom Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs, og gerði grein fyrir málinu. Málið var rætt og komu fram nokkrar ábendingar sem höfð verður hliðsjón af við frekari vinnslu málsins.

5. Menntun kennara.
a) Uppfærð aðgerðaráætlun, sbr. síðasta fund.

Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
- Uppfærð aðgerðaráætlun vegna eftirfylgni með ytri matsskýrslu um árangur sameiningar Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands og stöðu kennaramenntunar samþykkt einróma.
b) Stærðfræði. Átak í menntun stærðfræðikennara og aukin áhersla á stærðfræði þvert á greinar.
Rektor kynnti hugmyndir til að efla stærðfræðiþekkingu og vitund um mikilvægi stærðfræði innan Háskóla Íslands og í íslensku samfélagi. Málið var rætt ítarlega. Lýstu ráðsmenn ánægju með málið og verður áfram unnið að framgangi þess.

6. Tillaga Íslensku- og menningardeildar um kjör heiðursdoktors.
Fyrir fundinum lá tillaga Íslensku- og menningardeildar á Hugvísindasviði um kjör heiðursdoktors við deildina, umsögn heiðursdoktorsnefndar og niðurstaða atkvæðagreiðslu deildarfundar. Rektor gerði grein fyrir málinu.
- Tillaga Íslensku- og menningardeildar um kjör heiðursdoktors við deildina samþykkt einróma.

7. Málefni fræðasviða Háskóla Íslands.
Inn á fundinn kom Daði Már Kristófersson, forseti Félagsvísindasviðs, og gerði ítarlega grein fyrir starfsemi og áherslumálum fræðasviðsins. Málið var rætt og svaraði Daði Már spurningum fulltrúa í háskólaráði.

8. Bókfærð mál.
a) Stjórn Happdrættis Háskóla Íslands.
- Samþykkt að skipan stjórnar Happdrættis Háskóla Íslands verði óbreytt frá fyrra ári.
b) Stjórn Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum.
- Samþykkt að stjórn Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum verði skipuð sem hér segir: Þórarinn Guðjónsson prófessor, formaður, Zophonías Oddur Jónsson prófessor, Stefanía Þorgeirsdóttir, Sigurborg Daðadóttir og Ólöf Sigurðardóttir. Skipunartíminn er frá 1. janúar 2015 til 31. desember 2018.
c) Fulltrúi í stjórn Reiknistofnunar háskólans.
- Samþykkt að stjórn Reiknistofnunar Háskóla Íslands verði skipuð sem hér segir: Helgi Þorbergsson dósent, formaður, Birna Arnbjörnsdóttir prófessor, Björg Gísladóttir rekstrarstjóri, Runólfur Smári Steinþórsson prófessor, Páll Melsted lektor og Vilborg Lofts rekstrarstjóri. Skipunartíminn er til 30. september 2015.
d) Tillaga Félagsvísindasviðs að nýju meistara- og diplómanámi í fjölmiðla- og boðskiptafræðum í samstarfi Stjórnmálafræðideildar og Félags- og mannvísindadeildar Háskóla Íslands við Háskólann á Akureyri.
- Samþykkt.
e) Tillaga Menntavísindasviðs að nýrri námsleið í tómstunda- og félagsmálafræði, grunndiplóma 60 einingar, í Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild og viðeigandi breytingu 117. gr. reglna nr. 569/2009.
- Samþykkt.
f) Tillaga Verkfræði- og náttúruvísindasviðs um nýja námsleið í hagnýtri tölfræði á meistarastigi ásamt tillögum að viðeigandi breytingu á reglum nr. 569/2009.
- Samþykkt.
g) Tillaga Félagsvísindasviðs f.h. Lagadeildar að breytingu á reglum nr. 928/2013 um inntöku nýnema og inntökupróf í Lagadeild Háskóla Íslands.
- Samþykkt.
h) Tillaga Heilbrigðisvísindasviðs f.h. Hjúkrunarfræðideildar að nýjum reglum um inntöku nýnema og inntökupróf í Hjúkrunarfræðideild.
- Samþykkt.
i) Fyrirvarar í Kennsluskrá Háskóla Íslands 2015-2016.
- Samþykkt.
j) Frestun framkvæmdar stefnu Háskóla Íslands um opinn aðgang að rannsóknaniðurstöðum og lokaverkefnum til 1. september 2015.
- Samþykkt.
k) Skipan gæðanefndar háskólaráðs frá 1. febrúar nk.
- Frestað.

9. Mál til fróðleiks.
a) Viljayfirlýsing Háskóla Íslands, Félagsstofnunar stúdenta og Reykjavíkurborgar um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í Reykjavík á næstu fimm árum, dags. 22. desember 2014.
b) Samstarfssamningur Háskóla Íslands og Reykjavíkurborgar um undirbúning að stofnun Friðarseturs í Reykjavík, dags. 7. janúar 2015.
c) Samstarfssamningur Háskóla Íslands og Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands um eflingu samstarfs á sviði íþrótta, dags. 7. janúar 2015.
d) Ársskýrsla Hugverkanefndar.
e) Hugskeyti – Innanhússfréttabréf Hugvísindasviðs, janúar 2015.
f) Innanhússfréttabréf Menntavísindasviðs, hausmisseri 2014.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.00.