Um framhaldsnám í trúarbragðafræði | Háskóli Íslands Skip to main content

Um framhaldsnám í trúarbragðafræði

Meistaranám í trúarbragðafræði er tveggja ára (fjögurra missera) framhaldsnám til 120 ECTS-eininga á háskólastigi, þar sem fræðileg vinnubrögð, rannsóknir og kenningar eru samtvinnuð. Náminu lýkur með MA prófgráðu í trúarbragðafræði. Nemandi skipuleggur nám sitt í samráði við fastráðna kennara í greininni. Námsþættir eru tvenns konar: Námskeið eru samtals 90 einingar, að meðtöldum rannsóknarverkefnum, auk 30 eininga MA-ritgerðar. Námskeiðin skiptast í kjarnanámskeið (30 einingar) bundið val innan greinar (30 einingar) og valnámskeið sem eru sameiginleg öðrum námsleiðum á meistarastigi við HÍ. Þau skulu þó ekki nema meira en 30 einingum.

Trúarbragðafræði veitir yfirsýn, þekkingu og skilning á fjölbreyttu hlutverki  trúarbragða í samfélaginu. Markmið meistaranáms í trúarbragðafræði er að stúdentar öðlist greinargóða þekkingu á sögu og merkingu trúarbragða og hljóti þjálfun til að vinna sjálfstæð rannsóknaverkefni á sviði trúarbragða sem og að miðla rannsóknum sínum og þekkingu með fjölbreyttu móti. Með framhaldsnámi í trúarbragðafræði öðlist þeir traustan undirbúning fyrir störf sem trúarbragðafræðingar og geti unnið sjálfstætt að rannsóknum og skrifum um trúarbrögð, menningu, listir, bókmenntir, stjórnmál og önnur þau fjölmörgu svið mannlífs og menningar þar sem trúarbrögð koma við sögu. Einnig veiti námið undirbúning undir kennslu á ýmsum skólastigum og gerð námsefnis á breiðu sviði samfélagsgreina.  Þá er meistaranám í trúarbragðafræði hugsað sem undirbúningur að doktorsnámi.