Viðfangsefni námsins | Háskóli Íslands Skip to main content

Viðfangsefni námsins

Lykilhugtök í þroskaþjálfafræði eru þátttaka, mannréttindi, valdefling, sjálfræði, stuðningur og virðing.

Þroskaþjálfafræði hafa það viðfangsefni að gera samfélag fyrir alla að veruleika. Þroskaþjálfar starfa víðar í samfélaginu með fólki á öllum aldri. Með störfum sínum stuðla þroskaþjálfar að jöfnum réttindum, sjálfstæðu lífi og virkri samfélagsþátttöku fatlaðs fólks og annarra sem þarfnast stuðnings til lengri eða skemmri tíma. 

Þroskaþjálfafræði byggir á hugmyndafræði alþjóðlegra mannréttindasáttmála þar sem kveðið er á um eðlislæga reisn og verðmæti hverrar manneskju. Námið er bæði fræðilegt og starfstengt og byggir á félagslegum skilningi á fötlun og margbreytileika.

Á þroskaþjálfabraut gefst nemendum kostur á að nema til BA-gráðu í þroskaþjálfafræði sem tekur þrjú ár í fullu námi. Þeir sem brautskrást með BA-gráðu með fyrstu einkunn (7,25) geta sótt um eins árs nám til viðbótardiplómu sem veitir leyfi til að starfa undir heitinu þroskaþjálfi.

Nám til starfsréttinda í þroskaþjálfafræði miðar að því að nemendur öðlist þekkingu og hæfni til þess að veita heildræna þjónustu og ráðgjöf í þeim tilgangi að styðja við fullgilda samfélagsþátttöku, mannréttindi, sjálfræði og lífsgæði fólks sem þarfnast stuðnings til lengri eða skemmri tíma. Í þessu hlutverki eru nemendur búnir undir að starfa í þverfaglegu umhverfi við að fjarlægja samfélagslegar hindranir sem koma í veg fyrir að fólk njóti fullra mannréttinda. Þannig býr námið nemendur undir að starfa á jafnréttisgrunni með fólki á öllum sviðum samfélagsins.

Meðal kennslugreina í náminu eru þroskaþjálfafræði, fötlunarfræði, félagsfræði, uppeldis- og menntunarfræði, siðfræði og sálfræði.

Nemendur fá góða innsýn í íslenskar og erlendar rannsóknir og kynnast áherslum í þjónustu við fatlað fólk og aðra þá sem þarfnast stuðnings til lengri eða skemmri tíma, svo sem á sviði búsetumála, atvinnumála, skólamála og fjölskyldumála. Enn fremur er lögð áhersla á að nemendur öðlist þekkingu á lagalegum rétti og mannréttindasáttmálum sem varða fatlað fólk og aðra jaðarsetta hópa samfélagsins.

Á fyrri hluta námstímans er lagður fræðilegur grunnur að starfsháttum þroskaþjálfa en á þeim síðari læra nemendur um starfsaðferðir á vettvangi þroskaþjálfa, meðal annars í samfelldu vettvangsnámi sem fram fer tvisvar á námstímanum. Í vettvangsnámi gefst nemendum tækifæri til að tengja fræðasvið námsins við væntanlegan starfsvettvang og taka þátt í starfi með börnum, unglingum og fjölskyldum þeirra eða þjónustu við fullorðið eða aldrað fólk.

Fyrirkomulag kennslu

Námið er hægt að sækja sem staðnám eða fjarnám með staðbundnum lotum. Kennsla fer fram með fyrirlestrum ásamt umræðu- og verkefnatímum. Í mörgum námskeiðum er samvinnunám af ýmsum toga og gerð er krafa um virka þátttöku nemenda. Nemendur sækja vettvangsnám innan fjölbreytilegs starfsvettvangs þroskaþjálfa á námstímanum.

Tengt efni

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

CAPTCHA
Sía fyrir ruslpóst
Image CAPTCHA
Skrifaðu stafina sem sjást á myndinni.