Skip to main content

Gefur háskólanum forna dýrmæta klukku

Í grein sem birtist í dagblaðinu Vísi í nóvember 1939 með fyrirsögninni Gefur háskólanum forna dýrmæta klukku segir: „(h)inn gamli Reykvíkingur, Wilhelm Jörgensen úrsmíðameistari í Kaupmannahöfn, sem nú er á níræðisaldri, gerir það ekki endasleppt við fæðingarbæ sinn, sem hann hefir hinar mestu mætur á.“ Í greininni er rakið að sumarið 1939 hafi Jörgensen úrsmíðameistari fært Alþingi að gjöf forna klukku, sem sé dýrgripur hinn mesti og prýði salarkynni þingsins. Hann hefði síðan frétt af því að verið væri að ljúka við nýja háskólabyggingu sem yrði tekin til afnota innan tíðar og fannst honum sem „svo ágætu húsi myndu ekki sæma nema ágætustu gripir og ákvað hann því að gefa háskólanum forna klukku sem er dýrindisverk“. Klukkuna færði hann Háskóla Íslands í tilefni af vígslu Aðalbyggingar háskólans 17. júní 1940.

Wilhelm M. Jörgensen úrsmíðameistari var fæddur á Íslandi 1857 og ólst hér upp til 10 ára aldurs er hann fór til móðurfólks síns í Danmörku. Í Kaupmannahöfn nam hann úrsmíði og fór síðan til Þýskalands og Sviss til að fullnaðarnáms í grein sinni. Hann starfaði um skeið í Þýskalandi en sneri aftur til Kaupmannahafnar 1896 og kom sér upp úraverslun í Holmens Kanal nr. 30 sem hann rak til æviloka. Wilhelm átti ógnarfagurt og verðmætt safn klukkna og var einn kunnasti sérfræðingur á sínu sviði. Átti hann m.a. í viðskiptum við Danakonung og sá um allar viðgerðir á hinum dýrmætu klukkum í konungshöllunum. Wilhelm M. Jörgensen var gerður að heiðursfélaga í Úrsmiðafélagi Íslands 1939.

Wilhelm M. Jörgensen var sonur Niels Jörgensen kom til Íslands með Trampe greifa stiftamtmanni sem þjónn hans. Niels Jörgensen ílentist á Íslandi og hóf hér veitingarekstur í húsnæði á horni Austurstætis og Aðalstrætis sem hann byggði við og varð það síðan stofninn að Hótel Íslandi. Hann var hinn mesti dugnaðarmaður og stofnaði m.a. hér frystihús fyrstur manna.

Hin glæsilega klukka er frá 17. öld og er hún af svokallaði Boulle-gerð, sem kennd er við Charles André Boulle, en hann var hirðúrsmiður Loðvíks konungs 14. Er talið að sonur Boulles hafi smíðað gripinn. Hún er hin mesta völundarsmíð og mikið augnayndi. Hún er liðlega einn metri á hæð og samsvarandi á breidd en skífa klukkunnar er 36 cm í þvermál.

Klukkan góða

Hin glæsilega klukka er frá 17. öld og er hún af svokallaði Boulle-gerð, sem kennd er við Charles André Boulle, en hann var hirðúrsmiður Loðvíks konungs 14.

Klukka Wilhelms Jørgensens

Klukkan prýddi upphaflega kennarastofu í Aðalbyggingu háskólans en stóð síðan lengi þögul á efstu hillu á upplýsingaskrifstofu skólans. Nú hefur henni verið fundinn verðugur staður, í nýuppgerðum móttökusal gamla Háskólabókasafnsins, sem nú gegnir hlutverki bókastofu. Klukkan hefur verið yfirfarin og er hún trekkt upp vikulega og vel um hana hugsað. Hún telur því á ný tímann í Háskóla Íslands, þrátt fyrir að vera hátt í þrjú hundruð ára gömul.

Guðbrandur Jónsson prófessor hafði milligöngu um að færa Háskóla Íslands gjöfina en hann hafði hitt Wilhelm Jörgensen úrsmið fyrir tilviljun í Kaupmannahöfn þegar hann leitaði aðstoðar við að laga brotið úr sitt og var það upphaf kynna þeirra. Kom fram í samtölum þeirra að úrsmiðameistarinn bæri mjög hlýjar tilfinningar til Íslands og að hann hefði lengi langað til að sýna landinu ræktarsemi með því að gefa því það sem hann vissi best, en það væri forláta stundaklukka. Varð það úr að Wilhelm Jörgensen gaf fyrst Alþingi og síðar Háskóla Íslands þessa völundargripi til að sýna Íslendingum þakklæti fyrir að fóstra sig sem barn.

Wilhelm Jörgensen lést árið 1950. Hann var hann jarðsunginn í Dómkirkjunni og til grafar borinn í Fossvogskirkjugarði. Hann mat tengsl sín við Ísland svo mikils að hann vildi bera beinin þar.

Ný gjöf frá Wilh. Jørgensen, úrsmíðameistara (Vísir 20. nóvember 1939)
Klukka Wilhelms Jørgensens
Tengt efni