Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 18. desember 2008

17/2008

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2008, fimmtudaginn 18. desember var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Kristín Ingólfsdóttir, Anna Agnarsdóttir, Gunnar Einarsson, Gunnlaugur Björnsson, Ragnhildur Geirsdóttir (varamaður Hilmars B. Janussonar), Sigríður Ólafsdóttir, Sigrún Ingibjörg Gísladóttir, Valgerður Bjarnadóttir, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir og Þórður Sverrisson. Elín Ósk Helgadóttir boðaði forföll og varamaður hennar einnig. Fundargerð ritaði Magnús Diðrik Baldursson.

Fundargerð síðasta fundar var lögð fram og hún samþykkt.

1.    Mál á dagskrá

1.1    Fjármál Háskóla Íslands, sbr. síðasta fund.
Inn á fundinn komu þeir Guðmundur R. Jónsson, formaður fjármálanefndar háskólaráðs, Jón Atli Benediktsson, þróunarstjóri og aðstoðarmaður rektors og Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs. Fyrir fundinum lágu drög að fjárhagsáætlun Háskóla Íslands fyrir árið 2009 og tillögur um viðbrögð við boðuðum niðurskurði á fjárveitingum til Háskóla Íslands sem nemur tæpum milljarði króna frá fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar sem lagt var fram í byrjun október sl. Í tillögum um viðbrögð við kröfu um niðurskurð var áhersla lögð á þrennt: a) að standa vörð um störf, b) að tryggja stúdentum kennslu í samræmi við gæðakröfur Háskólans, c) að standa vörð um stefnu Háskóla Íslands eins og kostur er við eflingu kennslu, vísinda og nýsköpunar.

Rektor las upp ályktun fundar Félags prófessora við ríkisháskóla frá því fyrr um daginn, sem send var háskólaráði og menntamálanefnd Alþingis. Í ályktuninni er mótmælt boðuðum niðurskurði fjárveitinga til Háskóla Íslands og tillögum um hagræðingu sem snúa að starfskjörum prófessora.

Fjármálin voru rætt ítarlega og svöruðu rektor og Guðmundur framkomnum spurningum og athugasemdum.

- Samþykkt að beina því til fjármálanefndar háskólaráðs að ganga frá tillögum um hagræðingu og aðhald í rekstri Háskólans fyrir næsta fund ráðsins í samræmi við þann ramma sem lagður er í tillögunum. Háskólaráð mun í apríl 2009 fara yfir alla þætti rekstrar Háskólans og endurskoða einstaka liði eftir ástæðum.

Fyrir fundinum lá tillaga rektors um viðmið vegna aðhalds með ferðakostnaði er tengist rannsóknamisserum á árinu 2009, en ljóst er að þessi kostnaður eykst verulega vegna gengisþróunar. Tillagan hljóðar svo: „Því er beint til forseta fræðasviða að við afgreiðslu umsókna um rannsóknamisseri kennara á árinu 2009 verði tekið mið af eftirfarandi forsendum:
-    Hverju fræðasviði eru úthlutaðar 20 m.kr. vegna rannsóknamissera kennara á árinu 2009.
-    Kennarar sem hafa áunnið sér a.m.k. 20 rannsóknastig á ári að jafnaði sl. þrjú ár njóti forgangs.
-    Hámarksgreiðsla vegna rannsóknamisseris hvers kennara er 1.500 þús. kr. að fargjaldi meðtöldu sem ekki skal nema hærri upphæð en 200 þús. kr.
-    Að öðru leyti hafi forsetar fræðasviða svigrúm til að afgreiða umsóknir um rannsóknamisseri m.t.t. sjónarmiða um vísindastarf á fræðasviðinu og uppbyggingu þess, og sérstakra aðstæðna."

- Samþykkt einróma.

1.2    Reglur um aldurs- og árangurstengda tilfærslu starfsþátta kennara við 55 og 60 ára aldur, sbr. síðasta fund.
Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt ítarlega. Svöruðu rektor, Guðmundur R. Jónsson og Þórður Kristinsson framkomnum spurningum ráðsmanna. Rektor bar upp eftirfarandi tillögu til samþykktar: „Felldar eru úr gildi frá og með 1. janúar 2009 reglur Háskóla Íslands um aldurs- og árangurtengda tilfærslu starfsþátta kennara við 55 og 60 ára aldur, er samþykktar voru á fundi háskólaráðs hinn 28. júní 2002. Jafnframt er forsetum fræðasviða falið að hlutast til um nauðsynlegar breytingar er afnám reglnanna kallar á að gerðar verði á grundvelli heimildar í lögum og 32. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 458/2000 sem fjallar um skiptingu starfsþátta kennara."
- Samþykkt einróma.

Að lokinni umræðu samþykkti háskólaráð svohljóðandi bókun:

„Háskólaráð Háskóla Íslands hefur á fundi sínum í dag fjallað um fjárhagsáætlun Háskólans fyrir árið 2009 í ljósi endurskoðaðs fjárlagafrumvarps og nýrra umsókna um nám í skólann.

Í endurskoðuðu fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2009 sem lagt hefur verið fram á Alþingi sætir Háskóli Íslands miklum niðurskurði. Samanlagt nemur niðurskurðurinn tæpum milljarði króna eða 10% af áætlaðri fjárveitingu til skólans miðað við fjárlagafrumvarp sem lagt var fram á Alþingi í október sl. Hlutfallslegur niðurskurður fjárveitinga til Háskólans er meiri en til annarra íslenskra háskóla. Grípa þarf til margvíslegra aðgerða til þess að varðveita kjarnastarfsemi Háskólans og tryggja nemendum fullnægjandi gæði kennslu og þjónustu við mjög erfiðar aðstæður í samfélaginu. Við blasir að gæta þarf mikils aðhalds og ráðast í hagræðingu í öllum rekstri skólans, þ.m.t. í launakostnaði, sem tekur til endurskoðunar á yfirvinnu og fastlaunasamningum og endurskipulagningu námsleiða. Frestun verður að hluta á framkvæmd árangurstengds rannsóknasamnings við menntamálaráðuneyti, sem m.a. tekur til nýrra starfa, stuðnings við framhaldsnám, stuðnings við rannsóknir, kaup á rannsóknatækjum o.fl. Háskólinn hefur staðið við alla þá árangursmælikvarða sem í samningnum eru og gott betur. Enn fremur verður að beita auknu aðhaldi vegna rannsóknamissera og ferðalaga og endurnýjunar á tækja- og tölvubúnaði. Ljóst er að þessar aðgerðir reyna verulega á alla starfsemi Háskólans.

Á sama tíma hefur Háskóli Íslands brugðist við ákalli stjórnvalda um að opna dyr sínar fyrir umsóknum um nám nú á vormisseri 2009 til að bregðast við afleiðingum fjármálakreppunnar. Í því skyni rýmkaði skólinn umsóknarfrest um nám til 15. desember. Alls hafa borist yfir 1.600 umsóknir um nám á grunn- og framhaldsstigi, sem svarar til um 13% af heildarnemendafjölda Háskólans. Þessi mikla eftirspurn sýnir mikilvægi Háskólans og þær væntingar sem gerðar eru til hans. Háskóli Íslands mun axla samfélagslega ábyrgð í þessu efni, en á hinn bóginn eru takmörk fyrir því hversu langt er unnt að ganga þannig að gæði starfseminnar hljóti ekki skaða af. Þess vegna hlýtur háskólaráð að gera ráð fyrir að stjórnvöld samþykki sérstaka fjárveitingu til þess að hægt sé að mæta þeim viðbótarkostnaði sem af þessu myndi hljótast fyrir Háskóla Íslands.“

1.3    Inntaka nemenda í janúar 2009, sbr. síðasta fund.
- Frestað þar til fjárlagafrumvarp fyrir 2009 hefur verið samþykkt og endanleg fjárveiting til Háskóla Íslands liggur fyrir.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 15.50.