Frístundastarf fléttað inn í skóladaginn | Háskóli Íslands Skip to main content

Frístundastarf fléttað inn í skóladaginn

Kolbrún Þ. Pálsdóttir, lektor við Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild 

„Ég er að skoða samþættingu skóla- og frístunda- starfs fyrir yngstu börn grunnskólans og beini sjónum að fimm grunnskólum í Reykjavík sem brjóta upp skóladaginn með frístundastarfi. Markmið rannsóknarinnar er m.a. að varpa ljósi á möguleika og áskoranir í slíkri samþættingu,“ segir Kolbrún Þ. Pálsdóttir, lektor við Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild, um rannsóknarviðfangsefni sín þessi misserin.

Kveikjan að rannsókn hennar var þróunarverkefni sem Reykjavíkurborg setti á laggirnar innan fimm skóla og nefnist „Dagur barnsins“ en þar flétta fimm grunnskólar frístundastarf inn í skóladag barnanna, hver á sinn hátt. „Rannsóknin er í raun rökrétt framhald á doktorsrannsókn minni sem ég lauk árið 2012. Þar skoðaði ég hlutverk frístundaheimila og stöðu þeirra í skólakerfinu. Mér fannst spennandi að varpa ljósi á möguleika þess að efla þátttöku og hlutverk frístundaleiðbeinenda í skólastarfi,“ segir Kolbrún.

Kolbrún Þ. Pálsdóttir

„Ég er að skoða samþættingu skóla- og frístunda- starfs fyrir yngstu börn grunnskólans og beini sjónum að fimm grunnskólum í Reykjavík sem brjóta upp skóladaginn með frístundastarfi. Markmið rannsóknarinnar er m.a. að varpa ljósi á möguleika og áskoranir í slíkri samþættingu.“

Kolbrún Þ. Pálsdóttir

Fyrstu niðurstöður sýna að skólastjórnendur og forstöðumenn frístundaheimila í þessum fimm skólum telja þessa samþættingu gagnlega. Hún bjóði upp á markvissari vinnu með félagslega þætti innan skólastarfsins, s.s. vináttu, samskipti, einelti og líðan. „Þá skapaðist ekki síst ákveðin samfella þar sem hluti frístundaleiðbeinenda starfaði bæði á skólatíma og eftir skóla. Ein helsta áskorunin var að finna tíma og svigrúm fyrir samstarf kennara og frístundaleiðbeinenda. Einnig voru hlutverk frístundaleiðbeinenda í sumum skólanna óskýr þar sem þeir gegndu í raun tveimur störfum, annars vegar sem stuðningsfulltrúar og hins vegar sem frístundaleiðbeinendur,“ segir Kolbrún enn fremur.

Kolbrún segist vonast eftir að rannsóknin skapi nýja þekkingu á tengslum formlegs og óformlegs náms og gagnist þeim sem starfa við að móta og þróa skóla- og frístundastarf barna í 1.–4. bekk.

Netspjall