Skip to main content
13. mars 2019

Yfirlýsing frá Háskóla Íslands

Málefni hælisleitenda og flóttafólks eru ein af stóru áskorunum samtímans sem allar þjóðir verða að takast á við af ábyrgð og mannúð. Það er samfélagsleg ábyrgð Háskóla Íslands að nýta sérþekkingu og rannsóknir innan skólans til að stuðla að því að meðferð málefna þessa viðkvæma hóps í íslensku samfélagi sé eins fagleg og unnt er.

Eitt þeirra mála sem Háskólinn hefur tekið til umfjöllunar í þessu sambandi er aldursgreining fylgdarlausra barna. Um er að ræða viðkvæmt málefni sem við í Háskóla Íslands tökum mjög alvarlega. Háskólaráð Háskóla Íslands hefur nú fjallað ítarlega um málið og falið rektor í samráði við Heilbrigðisvísindasvið skólans að ganga frá tímabundnum verksamningi við Útlendingastofnun. Er það gert að undangengnu mati sérstaks starfshóps sem ráðið skipaði vegna málsins.

Verksamningurinn mun m.a. fela í sér að hlutverk Tannlæknadeildar í ferli aldursgreiningar verði skýrt afmarkað. Lögð er áhersla á að ákvarðanir Útlendingastofnunar byggi á heildstæðu mati á aldri einstaklings, en greining verði ekki framkvæmd nema fyrir liggi staðfesting frá Útlendingastofnun um að enn leiki verulegur vafi á aldri viðkomandi eftir að aðrar aðferðir til aldursgreiningar hafi verið fullreyndar. Verksamningurinn verður til eins árs og hann endurskoðaður þremur mánuðum fyrir lok samningstímans.

Þetta er í samræmi við tillögu meirihluta starfshóps háskólaráðs sem fór sérstaklega yfir málið. Starfshópurinn hafði til skoðunar hvernig haga skyldi samskiptum og fyrirkomulagi varðandi beiðnir Útlendingastofnunar til Háskólans um aldursgreiningar. Tillagan var samþykkt á fundi háskólaráðs 7. mars sl. með tíu atkvæðum gegn einu.

Starfshópur háskólaráðs og ráðið sjálft beina því sérstaklega til Alþingis að bókun Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna um aldursgreiningar frá 16. nóvember 2017 kunni að gefa tilefni til þess að endurskoða lög um útlendinga í ljósi þess að ríkjum beri almennt að haga löggjöf sinni í samræmi við mannréttindasamninga sem þau eru aðilar að. Rektor hefur þegar sent dómsmálaráðherra bréf þess efnis. Einnig telur starfshópurinn mikilvægt að hugtakið „heildstætt mat“ við aldursgreiningar sé skýrar útfært og afmarkað í lögum og reglugerð.

Um er að ræða viðkvæmt mál sem hefur ítrekað verið til umfjöllunar í fjölmiðlum og fyrirspurn um það m.a. lögð fram á Alþingi. Háskóli Íslands hefur tekið alvarlega þá gagnrýni sem að honum hefur beinst vegna málsins. Farið var vandlega yfir alla þræði þess og fékk starfshópurinn m.a. til viðtals Umboðsmann barna og fulltrúa Rauða krossins, Siðfræðistofnunar, Útlendingastofnunar og Tannlæknadeildar. Ljóst var að gæta þyrfti vandlega að faglegum og siðferðilegum forsendum málsins enda er um að ræða aldursgreiningar á einstaklingum sem sækja um alþjóðlega vernd á Íslandi.

Rök meirihluta starfshópsins eru einkum þau að Tannlæknadeild Háskóla Íslands starfrækir einu opinberu tannlæknastofu landsins, en í samanburðarríkjum sem horft var til eru sambærilegar greiningar framkvæmdar af sérfræðingum í réttartannlækningum sem starfa hjá opinberum stofnunum. Háskólinn hefur það mikilvæga hlutverk að veita þjóðfélaginu þjónustu í krafti þekkingar sinnar. Innan Tannlæknadeildar er til staðar bæði tækjakostur og nauðsynleg sérþekking í réttartannlækningum og deildin tekur þátt í öflugu alþjóðlegu samstarfi tengdu þessu málefni.

Í tillögum starfshópsins er gert ráð fyrir að samningsaðilar tilnefni tvo tengiliði hvor til að sinna samráði um þjónustu á grundvelli samningsins og fylgjast með þróun mála er varða aldursgreiningar almennt, siðferðileg álitaefni og aðferðir við aldursgreiningar.

Til frekari upplýsingar vísa ég á bókun háskólaráðs sem birt var í dag á vef Háskóla Íslands.

Jón Atli Benediktsson, rektor

Háskóli Íslands, aðalbygging