Yfir hundrað tungumál töluð í skólum landsins | Háskóli Íslands Skip to main content
22. febrúar 2021

Yfir hundrað tungumál töluð í skólum landsins

Yfir hundrað tungumál töluð í skólum landsins - á vefsíðu Háskóla Íslands

Í tilefni alþjóðadags móðurmálsins 21. febrúar síðastliðinn var blásið til tungumálaleitar meðal barna og unglinga í leikskólum, grunnskólum og í frístundastarfi á Íslandi. Hugmyndin var að kortleggja öll tungumál töluð af börnum og unglingum og um leið að stuðla að jákvæðri umræðu um tungumál. Markmið verkefnisins var öðrum þræði að skapa námsmenningu þar sem börn og unglingar finna til stolts yfir móðurmáli sínu og átti sig á mikilvægi tungumálsins fyrir sjálfsmynd sína og tilfinningalíf. 

„Umræðan um mikilvægi móðurmálsins og tungumála er það sem skiptir öllu máli. Slíkar áherslur í menntun barna hafa í heiðri gildi Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og drög stjórnvalda að stefnu um menntun barna og ungmenna með fjölbreyttan tungumála og menningarbakgrunn. Nýi leiðarvísirinn um stuðning við móðurmál og virkt fjöltyngi er jafnframt mikilvæg staðfesting stjórnvalda á rétti barna og ungmenna til að viðhalda og efla móðurmál sitt,“ segir Renata Emilsson Pesková, doktorsnemi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og stjórnarmaður Móðurmáls – samtaka um tvítyngi.

Renata leiddi vinnu mennta- og menningarmálaráðuneytisins við nýjan leiðarvísi um stuðning við móðurmál og virkt fjöltyngi í skóla- og frístundastarfi. Leiðarvísirinn inniheldur fjölbreyttar leiðir og verkefni til að styðja við tungumál í skóla- og frístundastarfi og heima fyrir, skilgreiningar hugtaka og gagnlegar slóðir með hagnýtum fróðleik. 

Móðurmál er auðlind

Renata segir þátttöku skóla í kortlagningu tungumálanna hafa verið afar góða, en 96% grunnskóla og 40% leikskóla tóku þátt, auk þess sem frístundaheimili og félagsmiðstöðvar lögðu hönd á plóg. Skráð voru 95 tungumál og mállýskur sem börn og unglingar hér á landi búa yfir, sem er aðeins hærri fjöldi tungumála en kom í ljós þegar tungumálaforðinn var kortlagður árið 2014. Að sögn Renötu komu hins vegar 14 ný tungumál í ljós, sem rötuðu ekki á kortið í síðustu könnun. „Því má segja að fjöldi tungumála í skóla- og frístundastarfi sé kominn upp í 109. Tungumálin má kynna sér á gagnvirku Íslandskorti á vef samtaka Móðurmáls og það er kjörið að fara hringinn í kringum landið með börnum og velta fyrir sér ólíkum stöðum sem búa yfir tungumálaauði. Í Árskóla á Sauðárkróki eru til dæmis töluð 13 tungumál, 12 í Seyðisfjarðarskóla, 18 í leikskólanum Árborg í Reykjavík og 25 í Varmárskóla í Mosfellsbæ. Móðurmál er auðlind í íslensku skóla- og frístundastarfi.“  

  

Renata Emilsson Pesková

„Umræðan um mikilvægi móðurmálsins og tungumála er það sem skiptir öllu máli. Slíkar áherslur í menntun barna hafa í heiðri Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og drög stjórnvalda að stefnu um menntun barna og ungmenna með fjölbreyttan tungumála og menningarbakgrunn.“ 

Samstarf um Íslandskort tungumálanna  

Í ár tóku höndum saman um Íslandskort tungumálanna Menntavísindastofnun Háskóla Íslands, Tungumálatorg á Menntamiðju, Menningarmót – Fljúgandi teppi, Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar og Móðurmál – samtök um tvítyngi.  

Renata er þeirrar skoðunar að samstarf sé lykilatriði þegar kemur að fjölmenningu í íslensku samfélagi. „Stuðningur við móðurmál og virkt fjöltyngi er samvinnuverkefni margra; skólanna og frístundavettvangsins, heimilanna, rannsakenda og samfélagsins í heild. Öðruvísi náum við ekki að fanga og viðurkenna þá staðreynd að heimurinn er hér.“  

109 tungumál eru tölum í skólum landsins. MYND/Kristinn Ingvarsson