Skip to main content
15. maí 2019

Vísindavefurinn svarar spurningum um lýðveldisárið 1944

""

Í tilefni þess að 75 ár eru frá því að lýðveldi var stofnað á Íslandi mun Vísindavefurinn leggja sérstaka áherslu á að svara spurningum sem tengjast hugtökunum lýðveldi og lýðræði en einnig spurningum um allt það sem lesendur og spyrjendur Vísindavefsins hafa áhuga á að vita um árið 1944, og tengist listum, menningu, vísindum og öðru.

Hver sem er getur sent inn spurningu um þessi efni til Vísindavefsins, það gerir fólk einfaldlega með því að smella á „skutluna“ á forsíðu Vísindavefsins og spurningarnar verða settar í forgang á þessu ári. Vísindavefurinn mun einnig hvetja krakka og unglinga sem koma í námskeið Háskólalestarinnar vorið 2019 til að velta lýðræði, lýðveldi og vísindum sérstaklega fyrir sér og senda inn spurningar um þessi efni. Markmið verkefnisins er að fá sem flesta til að hugsa um gildi og merkingu hugtaka eins og lýðræði, lýðveldi og vísinda og einnig að kalla fram hvaða hugmyndir börn, unglingar og almenningur hefur um þessi hugtök, bæði í sögulegu ljósi og í eigin samtíma.

Fyrstu svörin við spurningum lesenda munu birtast í maí og júnímánuði og síðan haustið 2019. Árið 2018 voru svör sem tengdust fullveldi og ártalinu 1918 í sérstökum forgrunni á Vísindavefnum. Þetta verkefni má skoða sem eins konar framhald þess. 

Verkefnið er unnið með stuðningi frá forsætisráðuneytinu.
 

í ferð Háskólalestarinnar í Stykkishólmi.