Skip to main content
13. júlí 2018

Vinnur að þróun ígræðanlegrar rafrásar við Caltech í sumar

„Mig hefur alltaf langað að prófa að læra úti í Bandaríkjunum og fá að vinna að rannsókn sem tengist rafmagnsverkfræði og þetta verkefni fléttar þetta tvennt saman,“ segir Harpa Ósk Björnsdóttir, BS-nemi í rafmagnsverkfræði við Háskóla Íslands. Hún hlaut á dögunum styrk til að vinna tíu vikna sumarverkefni við einn fremsta háskóla heims, California Institute of Technology – Caltech í Pasadena í Kaliforníu í Bandaríkjunum.

Auk hennar fer Stefán Eggertsson, nemi í lífefna- og sameindalíffræði, vestur um haf í sumarverkefni fyrir tilstilli samstarfs Háskóla Íslands og Caltech. Verkefnin eru unnin undir hatti svokallaðra SURF-verkefna eða Summer Undergraduate Research Fellowship hjá Caltech, en SURF gengur út á rannsóknasamstarf á milli leiðbeinanda og nemanda í grunnnámi. Þess má geta að Jake Mattinson, nemandi við Caltech, mun koma hingað til lands til að vinna að sumarrannsóknarverkefni hjá Guðlaugi Jóhannessyni, fræðimanni við Raunvísindastofnun.

Aðspurð hvers vegna hún hafi ákveðið að sækja um styrk til sumarverkefnis við Caltech segir Harpa að vinur hennar hafi fengið styrk til að taka þátt í SURF-verkefni fyrir tveimur árum og hún hafi heillast af þessum möguleika að læra við einn fremsta háskóla heims.

Harpa hóf vinnu við verkefnið 25. júní en það stendur í tíu vikur. Hún mun starfa á rannsóknastofu Azitu Emami sem nefnist Mixed-mode Integrated Circuits and Systems Lab (MICS), og leiðbeinandi Hörpu verður doktorsneminn Abhinav Agarwal.

„Rannsóknarverkefnið mitt snýst í stuttu máli um að beturumbæta ígræðanlega rafrás sem rannsóknarteymið hefur unnið að síðustu ár. Rafrásin er minni en hrísgrjón að stærð og er henni komið fyrir undir húð hjá fólki þar sem hún sendir frá sér mælingar á ýmsum hlutum, svo sem sýrustigi blóðs, kólesterólmagni og ýmsu fleiru sem þarf reglulega að fylgjast með hjá fólki, sérstaklega þeim sem eru í áhættuhóp fyrir hjarta- og æðasjúkdóma. Mitt hlutverk er að minnka raforkunotkun/batterínotkun rafrásarinnar úr 1 míkróvatti niður í 1 nanóvatt og að reyna að láta rafrásina ganga fyrir glúkósa í blóði í stað þess að það þurfi reglulega að hlaða rásina með fjarhleðslu. Þetta er mjög spennandi verkefni,“ segir Harpa.

Harpa er langt komin í BS-námi við rafmagns- og tölvuverkfræði við Háskóla Íslands og með fram náminu hefur hún m.a. starfað í Vísindasmiðju Háskóla Íslands og ferðast með Háskólalest skólans um landið og kynnt undur vísindanna fyrir ungu fólk í gegnum námskeið um vindmyllusmíði. Harpa lætur hins vegar ekki rafmagns- og tölvuverkfræðina nægja því hún lauk í vor einsöngvaraprófi frá Söngskóla Reykjavíkur. Hún hefur lengi sungið með kórum og þá söng hún einsöng á tvennum tónleikum í Nuuk í Grænlandi áður en hún hélt vestur um haf til Caltech.

Aðspurð hver næstu skref verði að lokinni útskrift úr rafmagns- og tölvuverkfræði segir Harpa það enn óráðið. „Ég vona að þetta verkefni úti í Caltech hjálpi mér að ákveða hvaða braut mig langar að feta í rafmagnsverkfræðinni. Ég hef alltaf horft til Bandaríkjanna en ég hef líka áhuga á nokkrum skólum í Evrópu,“ segir hún.

Styrkurinn sem Harpa og Stefán hljóta til Bandaríkjadvalarinnar hefur staðið nemendum í Háskóla Íslands til boða í um áratug. Hann er kenndur við hjónin Kiyo og Eiko Tomiyasu en Kiyo var heimskunnur vísindamaður á sviði rafmagnsverkfræði og lykilmaður í að koma á samstarfinu milli Caltech og Háskóla Íslands. „Ég er alveg svakalega spennt fyrir þessu. Við Stefán búum bæði á kampus svo við fáum bandaríska háskólalífið alveg beint í æð. Ég er búin að skrá mig í svokallaðan Glee Club og badmintonhóp Caltech svo það verður nóg að gera í sumar!“ segir Harpa að endingu.

Harpa Ósk Björnsdóttir, BS-nemi í rafmagnsverkfræði við Háskóla Íslands.