Skip to main content
9. apríl 2019

Vinna að spennandi nýsköpunarverkefnum í sumar

Kollagen úr makrílroði, samanburður á tónfalli Norðlendinga og Sunnlendinga, lögfræðiorðabók, mat á áhrifum styttingar námstíma til stúdentsprófs á frammistöðu háskólanema og fjölnota tæki til mælinga á atferli og hreyfigetu ávaxtaflugna er aðeins brot af þeim spennandi nýsköpunarverkefnum sem nemendur við Háskóla Íslands munu vinna að í sumar fyrir tilstilli Nýsköpunarsjóðs námsmanna.

Sjóðurinn, sem er í umsjá Rannís, birti á dögunum yfirlit yfir þau nýsköpunarverkefni sem hlut styrk fyrir sumarið. Alls bárust sjóðnum 154 umsóknir um styrki í ár fyrir 228 háskólanema og hlutu 59 verkefni styrk. Fram kemur á vef Rannís að í styrktum verkefnum séu 90 nemendur skráðir til leiks í alls 262 mannmánuði.

Af 59 verkefnum sem hlutu styrk eru 24 vistuð hjá Háskóla Íslands og samstarfsaðilum þeirra og snerta þau afar fjölbreyttar fræðigreinar, svo sem fornleifafræði, lögfræði, matvælafræði, íslensku, táknmálsfræði, hagfræði, læknisfræði, líffræði og ferðamálafræði svo dæmi séu tekin.

Yfirlit yfir þau verkefni sem hlutu styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna má sjá á vefsíðu Rannís.

nemendi á gangi í tengibyggingu