Skip to main content
14. desember 2018

Vindurinn nýttur í stað olíu á norðurslóðum

""

„Árið er 2050. Norðurheimskautið er nú í fyrsta sinn í sögu mannkyns íslaust. Það vekur vissulega áhyggjur en því fylgja einnig ný tækifæri. Hægt hefur verið að nálgast olíu og gas á heimskautasvæðinu í áratugi en engu að síður hafa birgðirnar þar verið ósnertar. Hvernig skyldi standa á því? Ímyndum okkur að við séum einhvers staðar þarna – sumarið 2050 – milli Svalbarða og Grændlands. Hvað sjáum við? Í stað olíuborpalla sjáum við stóran skipaflota, jafnvel hundrað skip. Þetta er óvenjuleg sjón. Þau virðast ekki hafa hlutverk og þau ferðast mjög hægt. Hérna verður þetta spennandi. Við erum að horfa á fljótandi orkuver.“ 

Þannig hljómaði upphafið á kynningu Stuarts Daniels James, meistaranema í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands, sem fór með sigur af hólmi í samkeppni um bestu hugmyndina að sjálfbærum lausnum á norðurslóðum á Arctic Circle ráðstefnunni í Hörpu fyrr í haust. 

Samkeppnin bar heitið Arctic Innovation Lab og var skipulögð innan Arctic Circle á vegum Harvard Kennedy School of Government í Bandaríkjunum, Háskóla Íslands, Orkuskólans innan Háskólans í Reykjavík, Grænlandsháskóla og Fletcher School við Tufts-háskóla í Bandaríkjunum. Markmið samkeppninnar var hvetja ungt vísindafólk til að ræða þær öru breytingar sem eru að verða á norðurslóðum, áhrif þeirra á jörðina í heild og að koma með sjálfbærar lausnir við áskorunum á svæðinu. Alls tóku 15 nemendur víða að úr heiminum þátt í Arctic Innovation Lab að þessu sinni og fékk hver og einn tvær mínútur til þess að kynna hugmynd sína.

Hugmynd Stuarts, sem hlaut fyrstu verðlaun á ráðstefnunni í ár, snýst um að nýta hinn sterka vind á norðurslóðum sem orkugjafa í stað olíu. „Ég kynntist þessari hugmynd, Siglingarorku, við gamla háskólann minn, Tækniháskólann í Darmstadt í Þýskalandi. Hún er upphaflega komin frá Michael Sterner, prófessor við skólann, og nemanda hans, Thomas Raith. Þeir gerðu fyrstu hagkvæmnikönnunina árið 2013 og sýndu fram á tæknin hefur mikla framtíðarmöguleika,“ segir Stuart og bætir við: „Þegar Bjargey (Anna Guðbrandsdóttir, verkefnisstjóri í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands), leitaði til mín og spurði hvort ég vildi taka þátt í Arctic Innovation Lab í haust rifjaðist þessi hugmynd upp fyrir mér.“

Hugmyndin er í senn einföld og snjöll. „Hún gerir ráð fyrir skipum sem knúin eru áfram af heimskautavindinum á ferð sinn um norðurhöf. Neðansjávar eru svo vetnistúrbínur á skipsskrokknum sem framleiða rafmagn sem aftur er breytt í vetni í skipinu. Vetnið er svo geymt á tanki í skipinu og þegar hann fyllist sigla skipin til hafnar þar sem tankurinn er tæmdur,“ segir Stuart og bendir á að um sé að ræða blöndu af ýmiss konar vel þekktri tækni sem nýtt sé á nýjan hátt. 

Stuart lagði stund á vélaverkfræði í Tækniháskólanum í Darmstadt og kom hingað til lands í fyrra sem skiptinemi. Við Háskóla Íslands tók hann m.a. námskeið í umhverfis- og auðlindafræði og ákvað í framhaldinu að venda kvæði sínu í kross og hefja meistaranám í þeirri grein í haust, en hann leggur sérstaka áherslu á endurnýjanlega orku í námi sínu. 

Hugmyndin sem hann kynnti á Arctic Innovation Lab snertir því í raun báðar námsgreinarnar sem Stuart hefur lagt stund á. „Þetta er algjörlega græn tækni þar sem engin hætta er á olíuleka auk þess sem ég tel hana henta einkar vel fyrir svæði eins og Svalbarða sem eru afskekkt en jafnframt aðgengileg skipum. Þessi svæði standa frammi fyrir miklum breytingum með tilliti til orkugjafa eins og ég komst að á Arctic Circle. Það stendur til að loka kolanámu á Svalbarða á næstu tíu árum og orkuverð á svo afskekktum svæðum er nú þegar mjög hátt. Þess vegna er ég þess fullviss að Siglingarorka sé raunverulegur kostur og geti skipt sköpum á norðurslóðum,“ segir Stuart að endingu.

Stuart Daniel James