Skip to main content
19. apríl 2021

Vigdísarstofnun í stýrihóp UNESCO vegna áratugar frumbyggjamála

Vigdísarstofnun í stýrihóp UNESCO vegna áratugar frumbyggjamála - á vefsíðu Háskóla Íslands

Birna Arnbjörnsdóttir, forstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og deildarforseti Mála- og menningardeildar við Háskóla Íslands, hefur tekið sæti sem fulltrúi Íslands í stýrihóp og undirbúningsnefnd UNESCO vegna áratugar frumbyggjamála, en Ísland var valið ásamt Noregi til setu í stýrihópnum fyrir hönd Evrópu.

Á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í desember 2019 var áratugurinn 2022-2032 útnefndur Alþjóðlegur áratugur frumbyggjatungumála (IDIL 2022-2032). Helstu markmiðin með IDIL 2022-2032 eru að vekja athygli á alvarlegri fækkun frumbyggjatungumála og brýnni þörf á að varðveita, endurlífga og efla þau og grípa til brýnna ráðstafana til að kynna frumbyggjamál jafnt á lands- og alþjóðavísu. Tilkoma áratugarins er í beinu framhaldi af vel heppnuðu Alþjóðári frumbyggjatungumála 2019 sem UNESCO stóð fyrir. 

Flest tungumál heimsins eru notuð af fáum málhöfum og mörg þeirra flokkast sem mál í útrýmingarhættu. Sum eru opinber mál þjóðríkja, önnur eru minnihlutamál og enn önnur frumbyggjamál. Með auknu sambýli tungumála jaðarsetjast minnihlutamál, frumbyggjamál og fámennismál auðveldlega innan þjóðríkja sem getur að lokum leitt til útrýmingar.

Nú fer fram undirbúningur Alþjóðlegrar framkvæmdaáætlunar IDIL 2022-2032, þar sem gerð er grein fyrir stefnumótandi nálgun, helstu aðgerðir eru skilgreindar og leiðbeiningar til aðildarlanda Sameinuðu þjóðanna eru útfærðar. Birna Arnbjörnsdóttir hefur starfað með undirbúningsnefndinni frá því í lok árs 2020 sem fulltrúi Vigdísarstofnunar – alþjóðlegar miðstöðvar tungumála og menningar.

Vigdísarstofnun – alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar sem starfar undir hatti UNESCO, hefur lýst yfir vilja til að styðja við áratuginn með verkefnum sem lúta að fámennistungumálum, og byggja þar á langri rannsóknarreynslu innan þess málaflokks. Innan Vigdísarstofnunar hefur verið settur á laggirnar vinnuhópur til undirbúnings fyrir Alþjóðlegan áratug frumbyggjatungumála þar sem verið er að leggja drög að þeim verkefnum sem stofnunin mun hrinda í framkvæmd í tilefni hans, en Ásdís Rósa Magnúsdóttir, stjórnarformaður Vigdísarstofnunar, leiðir vinnu hans. 

Birna Arnbjörnsdóttir, forstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, og Ásdís Rósa Magnúsdóttir, stjórnarformaður Vigdísarstofnunar.  MYND/Kristinn Ingvarsson