Skip to main content
16. júní 2021

Vigdís opnaði nýja íslensk-franska veforðabók

Vigdís opnaði nýja íslensk-franska veforðabók - á vefsíðu Háskóla Íslands

Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, opnaði Lexíu, nýja íslensk-franska veforðabók, við hátíðlega athöfn í Veröld – húsi Vigdísar í dag að viðstöddum fjölda gesta. Yfir 70 ár eru liðin frá því að íslensk-frönsk orðabók kom síðast út.

Lexía er samstarfsverkefni Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur (SVF) í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (SÁM). Þórdís Úlfarsdóttir er aðalritstjóri orðabókarinnar og Halldóra Jónsdóttir er verkefnisstjóri fyrir hönd SÁM. Rósa Elín Davíðsdóttir, orðabókafræðingur við SVF, er ritstjóri franska hluta orðabókarinnar. Aðrir í ritstjórn orðabókarinnar eru François Heenen, Jean-Christophe Salaün og Ólöf Pétursdóttir.

Upptaka af athöfninni

Orðabókin á sér aðdraganda aftur til ársins 1983 þegar íslensk og frönsk stjórnvöld undirrituðu samkomulag um að efla samvinnu landanna á sviði menningar og vísinda m.a. með stuðningi við gerð fransk-íslenskrar orðabókar og sömuleiðis íslensk-franskrar bókar. Sú fyrri kom út árið 1995 en vinna við íslensk-frönsku veforðabókina hófst haustið 2015 eftir að ákveðið var að gefa hana út í stafrænu formi og byggja á gagnagrunni ISLEX, margmála orðabókar milli íslensku og norrænu málanna á vegum SÁM. 

Vigdís Finnbogadóttir hefur frá upphafi verið mikill hvatamaður að útgáfu bókarinnar en hún hefur alla tíð haldið á lofti mikilvægi tungumála og tungumálanáms. Vigdís var landsþekktur frönskukennari og frumkvöðull í tungumálakennslu í íslensku sjónvarpi og hefur gegnt starfi velgjörðarsendiherra UNESCO í tungumálum frá árinu 1998. 

Vigdís opnaði bókina formlega á hátíðarviðburði í Veröld – húsi Vigdísar í dag en auk hennar tóku Roselyne Bachelot-Narquin, menningarmálaráðherra Frakklands, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Graham Paul, sendiherra Frakklands á Íslandi, Olivier Cadic öldungadeildarþingmaður, Guðrún Nordal, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar, og Ásdís R. Magnúsdóttir, forstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, til máls á athöfninni.

Eftir að Vigdís hafði opnað orðabókina formlega sögðu þær Þórdís Úlfarsdóttir og Halldóra Jónsdóttir hjá SÁM, Rósa Elín Davíðsdóttir hjá SVF og Jean-Christophe Salaün, þýðandi og starfsmaður Lexíu, frá tilurð bókarinnar auk þess sem  Unnur Orradóttir Ramette, sendiherra Íslands í Frakklandi, ávarpaði samkomuna. Þá fluttu þau Áshildur Haraldsdóttir flautuleikari og Þröstur Þorbjörnsson gítarleikari verkið Entr‘acte de Jacques Ibert. Kynnir á viðburðinum var Eyjólfur M. Sigurðsson, forstöðumaður Tungumálamiðstöðvar Háskóla Íslands.

Útgáfa Lexíu markar tímamót þar sem nú eru liðin meira en 70 ár frá því að íslensk-frönsk orðabók kom síðast út.

Lexía hefur að geyma um 50.000 uppflettiorð ásamt fjölmörgum notkunardæmum og orðasamböndum sem eru þýdd á frönsku. Brýn þörf var á nýrri orðabók og það er mikill fengur í henni fyrir bæði Íslendinga sem eru að læra frönsku, frönskumælandi íslenskunema, þýðendur, áhugafólk um franska tungu, menningu og þjóðlíf og alla þá sem eiga samskipti við frönskumælandi fólk. Franska er töluð af um 75 milljónum manna víða um heim og er því mikilvægt tungumál í alþjóðasamskiptum. Útgáfa Lexíu er enn fremur mikilvægur liður í því að efla samskipti og treysta vináttubönd Frakklands og Íslands.

Orðabókin er öllum aðgengileg án endurgjalds á slóðinni www.lexia.arnastofnun.is.

Fleiri myndir frá opnun orðabókarinnar í Veröld - húsi Vigdísar
 

Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, opnaði Lexíu, nýja íslensk-franska veforðabók, við hátíðlega athöfn í Veröld – húsi Vigdísar í dag. MYND/Kristinn Ingvarsson