Skip to main content
7. febrúar 2018

Viðurkenning fyrir framúrskarandi lokaritgerð

Viðurkenning fyrir framúrskarandi lokaritgerð - á vefsíðu Háskóla Íslands

Þann 6. febrúar var í fyrsta skipti veitt viðurkenning fyrir framúrskarandi lokaritgerð sem er á sviði öryggismála, norðurslóðarannsókna eða utanríkismála Norðurlandanna. Viðurkenningin er veitt í minningu Alyson J.K. Bailes sem var aðjunkt við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands árin 2007–2016. 

Viðurkenninguna hlaut Eyrún Inga Jóhannsdóttir fyrir meistararitgerðina „Landamæravandamál í norrænu samhengi: Dönsk og sænsk orðræða um endurreisn landamæraeftirlits vegna innstreymis flóttafólks (A Border Dilemma in a Nordic Context: Danish and Swedish discourses on the reintroduction of border control amid influx of displaced persons)“.  Eyrún lauk meistaraprófi í alþjóðasamskiptum frá Stjórnmálafræðideild í júní 2017. Í umsögn valnefndar segir: „Ritgerðin er mjög vel unnin, efnið er áhugavert og á mikið erindi í dag, það er vel afmarkað og nemandi hefur lagt mikla vinnu í fræðilegar undirstöður og greiningarvinnu.“

Michael Nevin, sendiherra Bretlands á Íslandi afhenti viðurkenninguna að viðstöddum rektor Háskóla Íslands, deildarforseta Stjórnmálafræðideildar og forstöðumanni og stjórnarformanni Alþjóðamálastofnunar HÍ. Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, Sendiráð Bretlands á Íslandi og Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands standa að viðurkenningunni.

Um Alyson J.K. Bailes
Alyson var einn af virtustu fræðimönnum á sviði varnar- og öryggismála í Evrópu, vopnaeftirlits og afvopnunar. Hún lagði stund á rannsóknir og kennslu við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, einkum á sviði utanríkismála Norðurlanda, norðurslóðamála og smáríkjafræða. Alyson starfaði í þrjátíu ár í bresku utanríkisþjónustunni og gegndi þar fjölda trúnaðarstarfa, síðast starfi sendiherra í Helsinki.

Þá var hún forstöðumaður Alþjóðafriðarrannsóknastofnunarinnar (SIPRI) í Stokkhólmi árin 2002–2007. Alyson tók virkan þátt í starfi Alþjóðamálastofnunar og Rannsóknaseturs um smáríki við HÍ og var formaður stjórnar stofnananna um tíma. Hún tók einnig þátt í stofnun Rannsóknaseturs um norðurslóðir innan Alþjóðamálastofnunar.

Alyson var óþreytandi við að leiðbeina nemendum í námi þeirra við Stjórnmálafræðideild og veitti þeim innblástur til frekara náms og starfa. Alyson var afkastamikill fræðimaður og birti árlega tugi greina í fræðiritum auk þess sem hún ritstýrði fjölmörgum bókum og ritum. Hún hélt fjölda fyrirlestra víðs vegar um Evrópu og veitti rannsóknastofnunum, félagasamtökum, stofnunum og ríkjum ráðgjöf á ofangreindum sérsviðum.

Valnefnd viðurkenningar skipa þau Árni Þór Árnason, sendiherra og alþjóðastjórnmálafræðingur, Guðmundur Hálfdanarson, prófessor í sagnfræði og stjórnarformaður Alþjóðamálastofnunar, Jón Gunnar Ólafsson, alþjóðastjórnmálafræðingur, aðjúnkt og doktorsnemi við Goldsmiths, University of London, og Maximilian, Conrad dósent í stjórnmálafræði.

Frá vinstri: Baldur Þórhallsson, forseti Stjórnmálafræðideildar, Michael Nevin, sendiherra Breta á Íslani, Eyrún Inga Jóhannsdóttir verðlaunahafi, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Pia Hansson, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, og Guðmundur Hálfdánarson, prófessor í sagnfræði og stjórnarformaður Alþjóðamálastofnunar.
Michael Nevin, sendiherra Bretlands á Íslandi, afhenti Eyrúnu Ingu Jóhannsdóttur viðurkenninguna.