Skip to main content
5. júní 2020

Viðtökur íslenskra fornbókmennta í Norður-Ameríku

Greinasafnið From Iceland to the Americas hefur verið gefið út í ritstjórn Jóns Karls Helgasonar, prófessors við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands og Tim Machan, prófessors í ensku við Háskólann í Notre Dame. Það er Manchester University Press sem gefur bókina út.

Bókin er ávöxtur af fjölþjóðlegu rannsóknarverkefni stórs hóps fræðimanna þar sem markmiðið var að kanna viðtökur íslenskra fornbókmennta í Norður-Ameríku. Meðal margra áhugaverðra greina í bókinni má nefna yfirlit Emily Lethbridge um skrif bandarískra ferðabókahöfunda um Ísland á 19. öld, greiningu Heather O'Donoghue á túlkun Neil Gaimans á norrænni goðafræði í skáldsögunni American Gods og grein Verenu Höfig um Vínland og rasíska öfgahópa í Bandaríkjunum. Tim Machan skrifar veigamikinn inngangskafla þar sem hann fjallar sögulega um fornnorrænt menningarminni í Norður- og Suður-Ameríku en aðrir höfundar eru Bergur Þorgeirsson, Kevin J. Harty, Amy C. Mulligan, Simon Halink, Jón Karl Helgason, Angela Sorby, Seth Lerer, Matthew Scribner og Dustin Gerhard.

Jón Karl sagði frá samstarfsverkefni hans og Tim Machan í viðtali við hi.is í vetur. Þar sagði hann að margir greinarhöfundar í bókinni beindu athygli sinni að hinum svonefndu Vínlands sögum, þ.e. Eiríks sögu rauða og Grænlendinga sögu, sem lýsa könnunarferðum norrænna manna með fram austurströnd Norður-Ameríku í kringum árið 1000. Ljóst sé að viðtökusaga fornbókmenntanna vestanhafs hafi verið mótast af þessum textum en einnig verið mörkuð af misgöfugum og -gáfulegum hugmyndum Bandaríkjamanna af engilsaxneskum og germönskum ættum um eigið ágæti. „Þessar hugmyndir hafa því miður notið vaxandi útbreiðslu á síðustu árum og áratugum. Má í því sambandi benda á hinn svonefnda Vínlandsfána sem orðinn er tákn manna sem telja hvíta kynstofninn öðrum æðri.“

Hægt er að kaupa bókina á vef Manchester University Press.

Greinasafnið From Iceland to the Americas hefur verið gefið út í ritstjórn Jóns Karls Helgasonar, prófessors við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands og Tim Machan, prófessors í ensku við Háskólann í Notre Dame.