Skip to main content
14. september 2022

Viðfangsefni verufræðinnar í nýrri bók

Viðfangsefni verufræðinnar í nýrri bók - á vefsíðu Háskóla Íslands

Út er komin bókin Verufræði eftir Björn Þorsteinsson, prófessor í heimspeki við Deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði við Háskóla Íslands. Heimspekistofnun Háskóla Íslands gefur út. Í bókinni er tekist á við krefjandi spurningar af heimspekilegri kostgæfni en jafnframt á léttu og leikandi máli þar sem leitast er við að nýta möguleika íslenskunnar til að hugsa um veruna. Megintexti bókarinnar er lýstur upp af fjölmörgum rammagreinum sem tengja umfjöllunarefnið við hversdagslega reynslu.

Á káputexta Verufræði er spurt hvað sé til og hvað sé að vera (til), hvort ekkert annað sé til en efnið. Spurningar af þessum toga eru viðfangsefni verufræðinnar og bókarinnar. Í henni er sett fram kenning sem kalla má verufræði skynsins. Fyrst er fjallað um grunnatriði verufræðinnar út frá þremur sígildum vandamálum en síðan er rætt um verufræðilegar afleiðingar skammtafræðinnar, þeirrar greinar eðlisfræðinnar sem fæst við innstu gerð efnisins. Sú umræða leiðir til þeirrar hugmyndar að vitundina megi skilja sem afbrigði af því sem kalla má skyn og býr í efninu á hliðstæðan hátt og vitundin býr í líkamanum. Efnið er skyn, rétt eins og líkaminn er vitund. Í ljós kemur að skynið helst í hendur við þá iðju verunnar að birtast og sú birting er margvísleg og fjölbreytileg. Veran er ein – en hún er líka margt! Hægt er að nálgast nánari upplýsingar um bókina á vef Háskólaútgáfunnar.

Björn Þorsteinsson lauk doktorsnámi við Université Paris 8 (Vincennes-St. Denis) árið 2005 og var ráðinn lektor í heimspeki við Háskóla Íslands 2014. Hann hefur verið prófessor frá 2016. Björn hefur sinnt rannsóknum á sviði fyrirbærafræði, og meðal annars lagt sig eftir því að kanna samband fyrirbærafræðinga 20. aldar við eðlisfræðikenningar samtíma síns, einkum skammtafræði. Jafnframt hefur hann hugað að pólitískum víddum kenninga um stöðu mannlegrar (sjálfs)veru í framvindu sögunnar. Greinar og bókarkaflar eftir Björn hafa birst á íslensku, ensku, frönsku, dönsku og japönsku og árið 2016 kom út eftir hann bókin Eitthvað annað. Þá hefur hann sinnt þýðingum og ritstjórn um árabil, og ritstýrði meðal annars Lærdómsritum Hins íslenska bókmenntafélagsHug – tímariti um heimspeki og Ritinu, tímariti Hugvísindastofnunar. Meðal afurða hans á þýðingasviðinu má  nefna Samfélagssáttmálann eftir Jean-Jacques Rousseau (ásamt Má Jónssyni), Fyrirbærafræði eftir Dan Zahavi og Heim skynjunarinnar eftir Maurice Merleau-Ponty (ásamt Steinari Erni Atlasyni).

Í formála Verufræði fjallar Björn m.a. um þann heimspekilega bakgrunn sem bókin er sprottin úr: „Undir handleiðslu Páls Skúlasonar og fleiri góðra kennara við heimspekiskor Háskóla Íslands kynntist ég kenningum G.W.F. Hegels og get víst ekki neitað því að ég tók nokkru ástfóstri við þær. Fyrir mér var hugsun Hegels alltaf fyrst og fremst tilraun til að gera grein fyrir innri gerð veruleikans og jafnvel hinum hinstu rökum eins og það er orðað svo fallega á íslensku – en þessi greinargerð hlaut þó alltaf jafnframt að svara þeirri spurningu hvernig og hvers vegna þessi innri gerð eða innsta eðli birtist eins og raun ber vitni. ... Að einhverju leyti spratt verufræðilegur eldmóður minn af því sem kalla mætti – með orðalagi sem virðist sakleysislegt en er í raun djúpri merkingu hlaðið – eðlislægan áhuga minn á innri gerð veruleikans og því sem þau vísindi sem kenna sig við eðlið, eðlisvísindin eða bara eðlisfræðin, hafa fram að færa. Staðreyndin er sú að kenningar eðlisfræðinnar um atóm, tvíeðli og skammta urðu mér að hugðarefni áður en ég leiddist inn á fræðasvið heimspekinnar. Ég virðist í rauninni alltaf hafa litið svo á að könnun á veruleikanum þyrfti að hafa eðlisfræðina með í farteskinu, hvort heldur sem innblástur eða viðfang gagnrýni. Það vakti því strax óskiptan áhuga minn, einhvern tímann á árinu 2007, þegar nemandi minn og vinkona Adda Ingólfs Heiðrúnardóttir benti mér á nýútkomið stórvirki Karenar Barad, Meeting the universe halfway, með þeim orðum að þar væri komin bók sem tengdi rannsókn eðlisfræðinga á undraheimi öreindanna við heimspekilegar kenningar af meiði fyrirbærafræði, femínískra fræða og þess franska póststrúktúralisma sem Derrida er oft talinn fulltrúi fyrir. Ég nældi mér strax í bókina og las hana af áfergju. Víst er að bókin sem þú hefur hér í höndunum, lesandi góður, sækir æði margt til Barad, ekki síst þá grundvallarafstöðu að í glímu sinni við skilning á hegðun smæstu einda veruleikans gætu eðlisfræðingar haft ómælt gagn af því að grufla í kenningum og hugtökum úr smiðju verufræðinnar, gömlum og nýjum. Fleiri höfunda og spekinga mætti tína hér til, ekki síst Gilles Deleuze og viðleitni hans, að hluta til í félagi við Félix Guattari, til að móta það sem kalla mætti verufræði verðandinnar. Sú kenning um skynið í veruleikanum sem hér fær að viðra sig þegar á líður bókina á margt að þakka þeirri meginhugsun sem ég þykist sjá hjá Deleuze og raunar Merleau-Ponty líka. Víst er að margt er þar enn á huldu og mun ég sjálfsagt halda áfram að róta í þessum haug.“

Björn Þorsteinsson, prófessor í heimspeki.