Viðbrögð við kynferðisofbeldi í Háskóla Íslands | Háskóli Íslands Skip to main content

Viðbrögð við kynferðisofbeldi í Háskóla Íslands

9. maí 2018

Fjallað var um það í fréttum á DV.is og RUV.is 2. maí síðastliðinn að það hefði tekið nemanda við Háskóla Íslands átta daga að koma tilkynningu um kynferðisofbeldi sem hefði átt sér stað á Stúdentagörðum skólans í réttan farveg. Það er að sjálfsögðu óásættanlegt að þetta hafi tekið svo langan tíma. Í Háskólanum eru í gildi verklagsreglur um viðbrögð við kynbundinni og kynferðislegri áreitni og öðru kynferðislegu ofbeldi. Í verklagsreglunum sem er að finna á heimasíðu skólans (sjá hér: https://www.hi.is/jafnrettismal jafnretti) kemur fram að kvörtun vegna brots eða gruns um brot skuli að jafnaði beina til jafnréttisfulltrúa skólans eða til fulltrúa fagráðs, sem háskólaráð skipar til þriggja ára í senn. Fagráðið hefur það hlutverk að taka til meðferðar mál er varða ofangreindar kvartanir. Á heimasíðunni er sá farvegur sem málin eru sett í af hálfu fagráðsins einnig útskýrður. Þegar um lögbrot og alvarlegt ofbeldi er að ræða eru jafnframt til staðar þekktar kæru- og viðbragðsleiðir innan réttar- og heilbrigðiskerfisins.

Í kjölfar þess að konur í vísindum stigu fram undir merkinu #MeToo og deildu reynslusögum af áreitni og ofbeldi í háskólasamfélaginu skipaði Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, starfshóp með það að markmiði að kanna hvaða frekari aðgerða væri þörf svo hægt væri að koma í veg fyrir kynferðislega áreitni, kynferðislegt ofbeldi og þöggun innan Háskólans. Meðal markmiða sem starfshópurinn lagði til er að auka sýnileika áðurnefndra verklagsreglna og þess farvegs sem skólinn hefur fyrir kvartanir af þessum toga. Því er nú verið að vinna að því að nemendur og starfsfólk fái reglulega fræðslu um birtingarmyndir kynferðislegrar áreitni, eineltis og annars ofbeldis og þau úrræði sem skólinn hefur yfir að ráða. Jafnframt er unnið að því að merkingar á nokkrum tungumálum og með góðu myndmáli verði komið upp víða um skólann, þar sem fram koma skilgreiningar á slíku ofbeldi og upplýsingar um þau úrræði sem Háskólinn hefur yfir að ráða. Starfshópurinn lagði einnig til að kannaður yrð fýsileiki þess að hægt verði að tilkynna kynferðislega áreitni og kynferðisbrot með hnappi á heimasíðu HÍ.

Jafnrétti er eitt af þremur grunngildunum í stefnu Háskóla Íslands. Því tökum við ábendingum eins og þeim sem fram komu í áðurnefndum fréttum alvarlega. Við gerum allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir að kynbundin og kynferðisleg áreitni og ofbeldi eigi sér stað innan Háskólans og að mál sem kunna að koma upp fái greiða og skjóta afgreiðslu. Gildir það um starfsfólk og nemendur skólans, sem og um öll samskipti í tengslum við starfsemi hans.

Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, prófessor og aðstoðarrektor vísinda við Háskóla Íslands

Guðbjörg Linda Rafnsdóttir

Netspjall