Skip to main content
20. ágúst 2020

Víða tækifæri til aukinnar verðmætasköpunar í sjávarútvegi

Mikael Rafn L. Steingrímsson lauk BS-prófi í hagfræði frá Háskóla Íslands í vor og vann í sumar að verkefni undir leiðsögn Ástu Dísar Óladóttur, dósents við Viðskiptafræðideild, með stuðningi Nýsköpunarsjóðs námsmanna þar sem hann rýndi í svokallaða virðiskeðju innan sjávarútvegsins og þróun hennar síðustu áratugi.

„Með virðiskeðju íslensks sjávarútvegs er átt við þá verðmætaaukningu sem verður til í ferlinu frá því að fiskur er veiddur/alinn og þar til hann er kominn til neytanda. Stærstur hluti íslenskra fiskafurða er seldur til útlanda og þarf því að horfa yfir landamæri til að meta viðisaukninguna. Eins þarf að skoða að mismunandi afurðir fara mislangt í keðjunni. Það eru ýmis stig í virðiskeðjunni sem mismundandi aðilar eða fyrirtæki sinna, svo sem vinnsla, markaðssetning, sala, flutningar, smásala og allir þeir þættir sem snúa að því að koma fisknum/afurð til endanlegs neytanda,“ útskýrir Mikael.

Hann bendir á að markmið sjávarútvegsfyrirtækja sé að fækka milliliðum, auka verðmæti og draga úr kostnaði, meðal annars með því að draga úr endurvinnslu, flutningum og milliumbúðum. „Þá má ekki gleyma þeirri sjálfvirknivæðingu og tækniþróun sem hefur orðið og mun eiga sér stað á næstu árum, bæði til sjós og lands, afkastageta og sveigjanleiki fyrirtækja hefur gjörbreyst. Það má t.d. glögglega sjá í því ástandi sem nú ríkir vegna COVID-19 þar sem sum fyrirtæki hafa getað aðlagað sig á milli daga hvað vinnslu varðar. Sum sjávarútvegsfyrirtæki geta t.d. framleitt 90 prósent frysta afurð einn daginn en skipt yfir í 90 prósent ferska þann næsta. Þar af leiðandi er hægt að mæta breyttum áherslum markaðanna frá degi til dags og framleiða það sem neytandi vill á upphafsstað framleiðslu. Því skiptir máli að hafa sem mest yfirráð yfir virðiskeðjunni,“ segir Mikael.

Alinn upp í kringum fisk

Aðspurður um ástæður þess að hann tekið að sér verkefnið segist hann hafa mikinn áhuga á að öllu sem snúi að sjávarútvegi. Hann hafi verið afar heppinn að fá að taka þátt í rannsókn Ástu Dísar Óladóttur, dósents í Viðskiptafræðideild, sem snýr að þeirri þróun sem hefur átt sér stað í virðiskeðju sjávarútvegs síðastliðna áratugi. „Hér erum við að skoða við hverju má búast í greininni í framtíðinni og hverju þarf að breyta og hvað má bæta til að ná enn betri árangri en áður. Af hverju eru sum fyrirtæki komin mun lengra en önnnur? Hvar er hægt að gera betur?“ spyr hann og bætir við: „Sjávarútvegur nútímans byggist mikið á nýsköpun og við höfum náð mjög langt á ýmsum sviðum en þó er margt óunnið. Virði íslenskra sjávarafurða hefur aukist mikið á sama tíma og kostnaður hefur að mörgu leyti lækkað sem er einmitt kjarni málsins. Það er alltaf hægt að gera betur og um það snýst verkefnið, hvar í virðiskeðju sjávarútvegs er svigrúm til frekari virðissköpunar og tækifæri til nýsköpunar?“

Kveikjan að rannsókninni eru hugmyndir og rannsóknir Ástu Dísar  en hún hefur verið að skoða tækifæri í sjávarútvegi bæði í gegnum kennslu og í tengslum við bók hennar og Ágústs Einarssonar sem kemur út nú í haust. „Hún vildi vinna meira í virðiskeðjunni og ræða við aðila í atvinnugreininni sjálfri um hvar væri hægt að ná auknum árangri. Ég var eins og ég sagði svo heppinn að fá tækifæri til að vinna að þessu í sumar,“ segir Mikael.

„Samstarf okkar Ástu hófst svo þegar hún og Gylfi Magnússon fengu mig til að aðstoða þau við rannsóknarverkefni á síðastliðnu ári. Í framhaldinu aðstoðaði Ásta mig svo við lokaverkefnið mitt í hagfræðinni sem fjallaði einmitt um sjávarútveg. Sjávarútvegur framtíðarinnar og stytting virðiskeðjunnar hefur ekki verið kortlögð nóg og því var upplagt að nýta sameiginlegan áhuga okkar Ástu á þróun sjávarútvegs í að vinna þá vinnu,“ segir hann.Sjálfur segist Mikael einnig alinn upp í kringum fisk. „Pabbi rak fiskbúð í mörg ár og ég hef þar af leiðandi verið í kringum fisk frá blautu barnsbeini. Það má segja að pabbi hafi verið á míkróstiginu og mig hefur lengi langað að kanna fiskinn og sjávarútveg á makróstigi.“

„Ef við lítum til framtíðar þá er fiskur, bæði villtur og eldisfiskur, framtíðin. Fiskur og sjávarafurðir eru ein stærsta útflutningsvara landsins og íslenskur sjávarútegur er sá framsæknasti í heimi. Kortlagning virðiskeðjunnar og samtal við stjórnendur sjávarútvegsfyrirtækja um tækifæri framtíðarinnar getur haft mikið gildi, bæði fyrir aðila innan sjávarútegs og utan hans. Upplýsingar sem fást úr þessari rannsókn geta þannig stuðlað að því að íslenskur sjávarútvegur geti haldið áfram á þeirri braut sem hann hefur verið og stuðlað að því að greinin þróist enn meira,“ segir Mikael. MYND/Kristinn Ingvarsson

Sjávarútvegur gegni áfram lykilhlutverki í atvinnulífinu

Verkefni Mikaels í sumar hefur verið að afla gagna með viðtölum við stjórnendur sjávarútvegsfyrirtækja sem tengjast sjávarafurðum beint. Jafnframt vinna þau Ásta Dís með fyrirliggjandi gögn og fyrri rannsóknir á þessu sviði. „Ég er mjög ánægður að fá að taka þátt í þessari rannsókn og leggja mitt af mörkum og það að fá tækifæri til að vinna í nýrri aðstöðu háskólans í Sjávarklasanum er magnað. Ég hitti svo margt fólk og allir eru tilbúnir til að ræða við mig um verkefnið, fólk sem vinnur í þessu dags daglega, það er verðmætt tækifæri,“ útskýrir hann.

Aðspurður um þær væntingar sem hann hefur um niðurstöður í verkefninu segir Mikael að hann vonist til að það leiði í ljós hvar í virðiskeðjunni hægt sé að lækka kostnað og auka virði í sjávarútvegi en jafnframt hvar hægt sé að gera greinina umhverfisvænni, minnka matarsóun og gera íslenskan fisk eftirsóttari á heimsvísu almennt. „Af þeim niðurstöðum sem þegar liggja fyrir virðast víða liggja tækifæri til aukinnar virðissköpunar og frekari framþróunar í greininni. Markmiðið hefur verið að skilja og skýra hvar þessi tækifæri liggja og hefur það gengið vel. Við getum verið bjartsýn fyrir komandi árum, í það minnsta hvað sjávarútveg varðar,“ segir hann enn fremur.

Óhætt er að segja að mikil framþróun hafi orðið í bæði veiðum og bættri nýtingu sjávarafurða hér á landi undanfarna áratugi og sjávarútvegur hefur haldið áfram að vera ein af mikilvægustu atvinnugreinum landsins þrátt fyrir að afli hafi ekki endilega aukist og jafnvel dregist saman. Mikael segir að sjávarútvegur verði áfram ein af lykilgreinum íslensks atvinnulífs. „Ef við lítum til framtíðar þá er fiskur, bæði villtur og eldisfiskur, framtíðin. Fiskur og sjávarafurðir eru ein stærsta útflutningsvara landsins og íslenskur sjávarútegur er sá framsæknasti í heimi. Kortlagning virðiskeðjunnar og samtal við stjórnendur sjávarútvegsfyrirtækja um tækifæri framtíðarinnar getur haft mikið gildi, bæði fyrir aðila innan sjávarútegs og utan hans. Upplýsingar sem fást úr þessari rannsókn geta þannig stuðlað að því að íslenskur sjávarútvegur geti haldið áfram á þeirri braut sem hann hefur verið og stuðlað að því að greinin þróist enn meira,“ segir Mikael að lokum.

Mikael Rafn L. Steingrímsson