Skip to main content
11. maí 2022

Við viljum mennta okkur!

Við viljum mennta okkur! - á vefsíðu Háskóla Íslands

Nemendur Menntavísindasviðs í starfstengdu diplómanámi fyrir fólk með þroskahömlun buðu til útskriftarráðstefnu á Háskólatorgi þann 10. maí undir yfirskriftinni Við viljum mennta okkur!

Markmið ráðstefnunnar var að upplýsa samfélagið um menntun og upplifun nemendanna af háskólanámi. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra ávarpaði samkomuna auk þess sem Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor Háskóla Íslands, hélt einnig ávarp. „Í fyrsta sinn í stefnu Háskóla Íslands, HÍ26, er nefnt á nafn í stefnu skólans að auka eigi möguleika fólks með fjölbreytan bakgrunn til að stunda nám við skólann, meðal annars með því að auka möguleika nemendahóps í starfstengdu diplómanámi við önnur fræðasvið en Menntavísindasvið,“ sagði Steinunn.

Útskriftarnemendur héldu kynningar að ávörpum loknum sem fjölluðu upplifanir, hindranir og áskoranir sem fatlað fólk etur við í menntakerfinu. Dæmi um umfjöllunarefni í erindum nemenda var staða fatlaðra kvenna, fordómar, tónlistarmenntun fatlaðra og atvinnumál. Kröftugar umræður áttu sér stað að erindum loknum en umræðustjórar voru þau Gísli Björnsson, Ragnar Regn og Júlía Smára, útskrifaðir diplómanemar, og Kristín Björnsdóttir, prófessor í fötlunarfræði. Niðurstöður umræðna var ákall nemenda eftir meira námi og að fá að taka fleiri námskeið við Háskóla Íslands.

Karen Sól Káradóttir útskriftarnemandi nefndi meðal annars í sínu erindi hve mikið það hefði komið henni á óvart hve allir voru opnir og tilbúnir til að kynnast nemendum í náminu en þó væru vissulega fordómar: „Ég ætla að fræða  ykkur um fordóma. Þeir eru meiri en allir halda. Það er ekki verið að fræða aðra nemendur og kennara um fatlanir. Margir vita ekkert um hvað greiningar og fatlanir eru vegna þess að þær eru svo faldar í samfélaginu „eins og það sé verið að fela okkur“. Og það er lítið talað um fordóma gagnvart fötluðum og áhrif fordómanna,“ sagði Karen Sól.

Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs ávarpaði samkomuna í lokin og sagði nemendur ekki eingöngu hafa tekið tekist á við áskoranir eins og heimsfaraldur, jarðskjálfta og eldgos heldur einnig hindranir sem eru oft ekki öllum öðrum sýnilegar. „Menntahugsjónin felur í sér skilning á ólíkum aðstæðum okkar, hve breytileg við erum að upplagi og hversu fjölbreytilegir hæfileikar okkar eru. Markmið menntunar er ekki að steypa alla í sama mót eða að styðjast við eina forskrift um vel menntaðan einstakling. Við erum öll ólík og það er styrkur okkar, styrkur samfélagsins,“ sagði Kolbrún við lok útskriftarráðstefnunnar sem nemendur skipulögðu.   

Myndir frá ráðstefnunni má sjá hér að neðan.

Nemendur Menntavísindasviðs í starfstengdu diplómanámi fyrir fólk með þroskahömlun á Háskólatorgi
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra ávarpaði samkomuna.
Umræðustjórar  á ráðstefnunni
Nemendur Menntavísindasviðs í starfstengdu diplómanámi fyrir fólk með þroskahömlun á Háskólatorgi