Skip to main content
14. mars 2019

Verkfall stúdenta í þágu loftslagsins 

""

„Föstudaginn 15. mars mun verða verkfall á alþjóðavísu fyrir loftslagið,“ segir Elísabet Brynjarsdóttir, forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands, en hartnær eitt hundrað þjóðlönd hafa skráð þátttöku sína, á annað þúsund borgir, „og Reykjavík og Ísland eru þar á meðal,“ segir Elísabet.  „Við krefjumst þess að Ísland taki af skarið, hlusti á vísindamenn, lýsi yfir neyðarástandi og láti hið minnsta 2,5 prósent af þjóðarframleiðslunni renna beint til loftslagsaðgerða. Atvinnulífið verður einnig að axla ábyrgð og til þess verður ákveðin viðhorfsbreyting að eiga sér stað,“ segir stúdentaleiðtoginn. 

Elísabet segir að loftslagsverkfallið hafi byrjað með hinni kornungu Gretu Thunberg í Svíþjóð. „Hún er bara sextán ára og hefur látið sig loftslagsmálin varða. Fyrir þrjátíu vikum ákvað hún að nóg væri komið af sinnuleysi stjórnvalda í loftslagsmálum. Hún ákvað því að skrópa í skólanum á hverjum föstudegi og sitja fyrir utan þinghúsið haldandi á skilti með afdráttarlausum skilaboðum um nauðsynlegar aðgerðir í loftslagsmálum. Til að byrja með var hún ein en hægt og rólega hefur hún vakið meiri og meiri athygli. Greta hefur farið í verkfall á hverjum föstudegi og er að hefja þrítugasta verkfallið sitt næsta föstudag. Hún hefur ferðast um Evrópu til þess að ávarpa stjórnvöld fjölmargra landa og haldið frábærar ræður um allan heim. Hún hefur orðið ákveðið tákn fyrir ungu kynslóðina sem mun taka við jörðinni okkar í framtíðinni. Krafan er einföld - við verðum að breyta hugsunarhætti til þess að bregðast við einni stærstu ógn mannkynsins, loftslagsbreytingum,“ segir Elísabet.  

„Í Háskóla Íslands munum við safnast saman klukkan hálf tólf í anddyri Háskólatorgs og ganga saman að Hallgrímskirkju. Ég vil hvetja alla innan skólans, stúdenta og starfsfólk, að láta sig málið varða og mæta á morgun í alheimsverkfall. Við verðum að ráðast í breytingar á núverandi kerfi,“ segir Elísabet Brynjarsdóttir, forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands. 

Betur má ef duga skal
Að sögn forseta Stúdentaráðs Háskóla Íslands hafa íslensk stjórnvöld sett sér aðgerðaráætlun í loftslagsmálum til ársins 2030 og gera meðal annars ráð fyrir kolefnishlutleysi fyrir árið 2040. „Við styðjum þær aðgerðir en betur má ef duga skal. Núverandi aðgerðaáætlun er ekki í samræmi við markmið um að halda hlýnun innan 1,5 gráðu á heimsvísu og við krefjumst aðgerða sem eru líklegar til að skila þeim árangri. Ljóst er að stórauka þarf fjárframlag til loftslagsaðgerða. Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál reiknast til að verja þurfi 2,5% af heimsframleiðslu til loftslagsmála á ári til ársins 2035 til að halda hlýnun innan við 1,5 gráður. Núverandi áætlun er upp á 0,05% af þjóðarframleiðslu á ári næstu fimm árin,“ segir Elísabet. 

Enginn of smár til að hafa áhrif
Á morgun, föstudag ætla stúdentar og aðrir að safnast saman við Hallgrímskirkju og leggja í hann á hádegi niður á Austurvöll. 

„Í Háskóla Íslands munum við safnast saman klukkan hálf tólf í anddyri Háskólatorgs og ganga saman að Hallgrímskirkju. Ég vil hvetja alla innan skólans, stúdenta og starfsfólk, að láta sig málið varða og mæta á morgun í alheimsverkfall. Við verðum að ráðast í breytingar á núverandi kerfi. Stjórnvöld hafa aðgengi að færustu vísindamönnum landsins. Það liggja fyrir fjölmargar rannsóknir og miklar upplýsingar og það eina sem vantar núna eru róttækar aðgerðir í þágu umhverfisins. Við þurfum að vera óhrædd við að stíga stór skref sem munu borga sig í framtíðinni. Ef ekki núna, hvenær þá? Máttur eins er mikill eins og við sjáum með Gretu. Hún er bara sextán ára stelpa sem hefur knúið fram þvílíka byltingu alls staðar í heiminum. Enginn er of smár til þess að hafa áhrif.“ 

Nemendur í loftslagsverkfalli