Skip to main content
21. mars 2018

Verkefnavaka gegn frestunarpest og ritkvíða

""

Náms- og starfsráðgjöf Háskóla Íslands, ritver og bókasafn Menntavísindasviðs, ritver Hugvísindasviðs, Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn og Heilbrigðisvísindabókasafn LSH og HÍ standa fyrir Verkefnavöku gegn frestunarpest og ritkvíða í Þjóðarbókhlöðunni fimmtudaginn 22. mars kl. 17–22.

Boðið verður upp á dagskrá fyrir alla stúdenta Háskóla Íslands sem eru með verkefni í smíðum, smá eða stór, námskeiðsverkefni eða lokaverkefni. Á Verkefnavökunni gefst gott tækifæri til þess að vinna í verkefnum eina kvöldstund í góðum félagsskap.

  • Hvetjandi fræðsla í boði.
  • Leiðsögn sérfræðinga um allt það sem viðkemur verkefnaskrifum.
  • Vinnustofur og örnámskeið um árangursríka heimildaleit. 

Allir velkomnir!

Markmið vökunnar eru:

  • að gefa stúdentum færi á að vinna að verkefnum sínum utan hefðbundins vinnutíma eina kvöldstund og fá aðstoð og hvatningu frá jafningjum, kennurum eða öðrum starfsmönnum Háskólans,
  • að vekja athygli á þeim mikla vanda í háskólum heimsins að fjöldi stúdenta kvíðir því að skrifa og margir hverfa frá námi þegar lokaverkefnið eitt er eftir
  • að vekja athygli á að unnt er að aðstoða höfunda á öllum stigum ritunarferlisins og hjálpa þeim að komast af stað sem frestað hafa verkefnum of lengi.

Fyrirmynd að verkefnavöku er sótt til ritvera í Þýskalandi sem héldu fyrstu vökuna 2010 undir nafninu Lange Nacht der aufgeschobenen Hausarbeiten. Verkefnið hefur breiðst út til háskóla austan hafs og vestan og er á ensku kallað Long Night against Procrastination.

Nemendur í Háskóla Íslands