Skip to main content
12. júní 2018

Verðlaunuð fyrir rannsóknir tengdar barnalækningum

""

Þrír barnalæknar hafa hlotið viðurkenningu úr Verðlaunasjóði Óskars Þórðarsonar læknis fyrir árangur í rannsóknum. Sigurður Sverrir Stephensen, sérfræðingur í barnalækningum og hjartalækningum barna, hlýtur viðurkenningu fyrir rannsókn sem snýr að starfsemi hægri slegils í meðfæddum hjartagöllum, Judith Amalía Guðmundsdóttir, sérfræðingur í barnalækningum og gigtsjúkdómum barna, fær viðurkenningu fyrir rannsóknir á áhrifum brottnáms hóstarkirtils í barnæsku á ónæmiskerfi og Snjólaug Sveinsdóttir, sérfræðingur í barnalækningum og nýburagjörgæslu barna, hlýtur viðurkenningu vegna rannsókna sinna á áhrifum niðurbrotsefna blóðrauða við heilablæðingar hjá fyrirburum. Verkefnin hafa þegar skilað afar áhugaverðum niðurstöðum en heildarupphæð verðlaunanna nemur 1,5 milljónum króna. Allir verðlaunahafarnir starfa við Barnaspítala Hringsins.

Þetta er í níunda skipti sem veittar eru viðurkenningar úr Verðlaunasjóði Óskars Þórðarsonar læknis en sjóðurinn hefur það markmið að verðlauna vísindaleg afrek, rannsóknir, ritgerðir og skylda starfsemi á sviði barnalækninga.

Sigurður Sverrir Stephensen hefur rannsakað starfsemi hægri slegils í meðfæddum hjartagöllum. Ýmsir meðfæddir hjartagallar leiða til stækkunar á hægri slegli hjartans sem veldur aflögun á sleglaskilveggnum og umbreytingu á því hvernig hjartað dregst saman. Skilningur á samdrætti hjartans við eðlilegar og sjúklegar aðstæður er mikilvægur svo unnt sé að þróa nýja meðferðarmöguleika hjá sjúklingum með skerta starfsemi hægri slegils. Í doktorsverkefni sínu bar Sigurður Sverrir saman sjúklinga með sleglaskiptagalla og sjúklinga með leka á lungnaslagæðarloku, en báðir þessir hjartagallar valda stækkun á hægri slegli. Skoðað var hvernig hjartað aðlagast þessum breytingum, hvernig það bregst við líkamlegu álagi og hvaða breytingar verða á hjartastarfsemi á fyrsta ári eftir að hjartagalli hefur verið lagaður.

Sigurður Sverrir hefur starfað sem barnalæknir við Barnaspítala Hringsins frá árinu 2013. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Hamrahlíð 1988 og útskrifaðist frá Læknadeild Háskóla Íslands árið 1997. Sigurður Sverrir stundaði nám í almennum  barnalækningum við CT Children´s Medical Center í Hartfort CT frá 2001-2004 og í barnahjartalækningum við Barnaspítalann í Lundi í Svíþjóð frá 2006-2013. Sigurður Sverrir varði doktorsritgerð sína í Lundi í desember 2017 en leiðbeinandi hans var Marcus Carlsson, lektor við Háskólann í Lundi. Andmælandi við doktorsvörnina var Sonya Babu-Narayan frá Royal Brompton Hospital í London. Sambýliskona Sigurðar Sverris er Katrín María Káradóttir fatahönnuður.

Judith Amalía Guðmundsdóttir hefur unnið við rannsóknir á áhrifum brottnáms hóstarkirtils í barnæsku á ónæmiskerfið. Börn með meðfæddan hjartagalla fara oft í aðgerð snemma á ævinni. Við hjartaaðgerðina er hóstarkirtillinn oft fjarlægður vegna legu sinnar fyrir framan hjartað. Hóstarkirtillinn er hluti af ónæmiskerfi okkar en þar þroskast T-eitilfrumur og mynda sértæka viðtaka sína. Ónæmiskerfi 11 ungra einstaklinga þar sem hóstarkirtill hafði verið fjarlægður í heild fyrir sex mánaða aldur var rannsakað og sýndu niðurstöður meðal annars að T-eitilfrumur voru færri, nýmyndun þeirra var skert og fjölbreytileiki T-frumuviðtakans hafði minnkað. Faraldsfræðileg rannsókn sýndi auk þess fram á tengsl brottnáms hóstarkirtils í barnæsku við áhættu á sýkingum og ákveðnum sjálfsnæmissjúkdómum síðar á lífsleiðinni. Því er ályktað að æskilegt sé að forðast algert brottnám hóstarkirtils við hjartaaðgerðir barna.

Judith Amalía lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 1992 og embættisprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands 2000. Hún stundaði sérnám í barnalækningum og gigtsjúkdómum barna við Sahlgrenska-háskólasjúkrahúsið í Gautaborg í Svíþjóð frá 2003 til 2013 en hóf þá störf á Barnaspítala Hringsins. Judith hefur sinnt vísindarannsóknum samhliða sérnámi í gigtsjúkdómum barna og síðar starfi sínu hérlendis og varði doktorsritgerð sína árið 2017.  Hún er gift Smára Jónassyni verkfræðingi.

Snjólaug Sveinsdóttir hefur rannsakað áhrif niðurbrotsefna blóðrauða við heilablæðingar hjá fyrirburum. Heilablæðingar hjá minnstu fyrirburunum er algengasta ástæða seinkaðs þroska í þessum sjúklingahópi. Í rannsóknum sínum kortlagði Snjólaug áhrif blóðrauða á meingerð heilaskemmda í kjölfar heilablæðinga en niðurbrotsefni blóðrauða er einn helsti orsakavaldur heilaskemmda í kjölfar slíkra blæðinga. Til eru lyf sem binda blóðrauða þannig að hann brotnar ekki niður og kanínuungar með heilablæðingu sem fengu slík lyf farnaðist mun betur en þeim sem fengu lyfleysu. Vonir standa til að í framtíðinni verði hægt að meðhöndla heilablæðingar hjá fyrirburum með slíkum lyfjum.

Snjólaug lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1992 og embættisprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands 1999. Eftir kandídatsár sitt starfaði Snjólaug sem deildarlæknir á Barnaspítala Hringsins 2000-2004. Þá tók við sérnám í barnalækningum við Háskólasjúkrahúsið í Malmö 2004-2006 og sérnám í nýburagjörgæslu við Háskólasjúkrahúsið í Lundi 2006-2009. Snjólaug starfaði sem sérfræðingur í nýburagjörgæslu í Lundi 2009-2015 en þá flutti hún og fjölskylda hennar aftur til Íslands. Hún starfar nú sem sérfræðingur í nýburagjörgæslu á vökudeild Barnaspítala Hringsins. Snjólaug varði doktorsritgerð sína í maí 2014 frá Háskólanum í Lundi. Leiðbeinandi hennar var David Ley, prófessor við Lundarháskóla, en andmælandi Axel Heep, prófessor við Háskólann í Bristol í Englandi. Snjólaug er gift Hirti Gíslasyni skurðlækni og eiga þau fjögur börn. 

Um Verðlaunasjóð Óskars Þórðarsonar
Bent Scheving Thorsteinsson stofnaði Verðlaunasjóð Óskars Þórðarsonar læknis árið 2000 með veglegri peningagjöf til minningar um Óskar sem var fóstri hans. Í desember 2007 bætti Bent um betur og lagði til viðbótarframlag við höfuðstól sjóðsins. Eigið fé sjóðsins er um 20 milljónir króna en samtals hefur Bent gefið Háskóla Íslands 60 milljónir króna með stofnun þriggja sjóða sem heyra undir Styrktarsjóði Háskóla Íslands. Hinir sjóðirnir tveir eru Verðlaunasjóður Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar lyfsala, sem hefur það að markmiði að veita verðlaun fyrir vísindaleg afrek og styrkja rannsóknir og framhaldsnám í lyfjafræði, og Styrktarsjóður Margaretar og Bents Schevings Thorsteinssonar, sem ætlað er að styðja við rannsóknir á einelti.

Óskar Þórðarson barnalæknir brautskráðist frá læknadeild Háskóla Íslands árið 1927, lærði fæðingahjálp í Danmörku síðar sama ár og stundaði sérnám í barnalækningum í Austurríki og Þýskalandi á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar. Hann stofnaði læknastofu í Reykjavík árið 1930 og rak hana til dauðadags árið 1958. Samhliða var Óskar skólalæknir Austurbæjarskóla og Laugarnesskóla, læknir barnaheimilisins Sumargjafar og eftirlitslæknir við barnaheimili Reykjavíkur. Óskar kvæntist Guðrúnu Sveinsdóttur frá Hrauni á Skaga, móður Bents, árið 1928.

Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir stúdenta eða starfsfólk Háskóla Íslands og samfélagið allt. 
 

Frá afhendingu verðlaunanna í Norræna húsinu á dögunum. Frá vinstri: Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Engilbert Sigurðsson, forseti Læknadeildar, Margaret Scheving Thorsteinsson, velunnari Háskólans, Ásgeir Haraldsson, prófessor og formaður stjórnar sjóðsins, Snjólaug Sveinsdóttir barnalæknir, Judith Amalía Guðmundsdóttir barnalæknir, Guðrún Scheving Thorsteinsson, dóttir Bents og Margaretar og Sigurður Sverrir Stephensen barnalæknir.