Skip to main content
26. maí 2020

Vel á þriðja hundrað sumarstörf fyrir námsmenn í Háskóla Íslands

Vel á þriðja hundrað sumarstörf fyrir námsmenn í Háskóla Íslands - á vefsíðu Háskóla Íslands

Háskóli Íslands auglýsir nú eftir námsmönnum í rúmlega 270 sumarstörf í tengslum við átak stjórnvalda um tímabundin störf vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins.

Opnað var fyrir umsóknir um sumarstörfin þriðjudaginn 26. maí og er umsóknarfrestur til 5. júní næstkomandi

Um er að ræða afar fjölbreytt störf á öllum fræðasviðum Háskólans og í miðlægri stjórnsýslu, þar á meðal vinna við fjölbreyttar rannsóknir, gagnasöfnun, vefverkefni og afgreiðslustörf. Flest störfin eru á háskólasvæðinu en einnig býðst vinna við flest af rannsóknasetrum Háskólans víðs vegar um landið.

Sem fyrr segir er umsóknarfrestur um sumarstörfin til 5. júní og er áætlað að þau sem ráðin verða hefji störf eins fljótt og kostur er. Gert er ráð fyrir að ráðningartímabilið sé tveir mánuðir. Unnið er að því að fjölga þeim störfum sem í boði verða innan Háskólans enn frekar.

Háskólanemum bjóðast störf víðar en í Háskóla Íslands í tengslum við átak stjórnvalda því alls auglýsa þau um 1500 störf fyrir 18 ára og eldri, sem eru milli anna í námi, á vegum stofnana ríkisins. Við þetta bætast störf á vegum sveitarfélaga en áætlað er að samanlagt verði um 3.300 tímabundin störf í boði í samstarfi stjórnvalda við stofnanir og sveitarfélög. Til stendur að verja um 2,2 milljörðum króna í átaksverkefnið en það er um fjórum sinnum stærra en átak sem ráðist var í eftir bankahrunið 2008. 

Auk sumarstarfa býður Háskóli Íslands upp á afar fjölbreytt sumarnám með góðum stuðningi stjórnvalda en markmiðið með aðgerðunum er að tryggja virkni og afkomu allra námsmanna yfir sumartímann. 

""