Skip to main content
3. febrúar 2020

Vegurinn austur á Háskólatónleikum

Hlín Pétursdóttir Behrens sópransöngkona og Peter Máté píanóleikari frumflytja verk Björns Pálma Pálmasonar, Þögult sem járn, við ljóð Ko Un í þýðingu Gyrðis Elíassonar á háskólatónleikum í Hátíðasal Háskóla Íslands miðvikudaginn 5. febrúar kl. 12.30. Einnig verða flutt þrjú lög eftir Eirík Árna Sigtryggsson við ljóð eftir Halldór Laxness. Enginn aðgangseyrir er að tónleikunum og eru öll velkomin.

Hlín Pétursdóttir Behrens lauk einsöngvaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík. Hún hélt þá til framhaldsnáms við óperudeild Tónlistarháskólans í Hamborg og starfaði að námi loknu sem söngkona í Þýskalandi, Sviss, Austurríki og Frakklandi um 10 ára skeið. Hún var m.a. fastráðin við Pfalztheater Kaiserslautern 1995–1997 og við Staatstheater am Gärtnerplatz í München 1997–2004. 

Hún hefur sungið öll helstu verk kirkjubókmenntanna. Meðal stærri tónleika eru Carmina Burana og Requiem Mozarts í tónlistarhöllinni í Hamborg, Messías í Hamborg og Strahlsund, c-moll messa Mozarts í Hamborg og Kaiserslautern og óperettugala í fílharmóníunni í Berlín og í óperunni í Frankfurt. 

Hér heima hefur Hlín sungið hlutverk Musettu í La Bohème eftir Puccini, Chlorindu í Öskubusku eftir Rossini og Ännchen í Galdraskyttunni eftir Weber.

Hlín flutti heim haustið 2004 og kennir nú við Menntaskólann í tónlist og LHÍ. Hún kemur oft fram hér heima og erlendis á kammer- og ljóðatónleikum. 

Peter Máté fæddist í þáverandi Tékkóslóvakíu en er af ungversku bergi brotinn. Hann hefur verið búsettur hér frá árinu 1990 og var um þriggja ára skeið skólastjóri og kennari við tónlistar-skólana á Stöðvarfirði og Breiðdalsvík. 

Hann var einnig organisti og kórstjóri við kirkjurnar í Heydölum, á Stöðvarfirði og Fáskrúðsfirði. Undanfarna áratugi hefur Peter oft heimsótt Austfirði. Árið 2008 kynnti hann t.d. klassískan píanóeinleik í mörgum grunnskólum eystra og í fyrravor vígði hann nýjan flygil á Breiðdalsvík með leik sínum.

Peter hóf píanónám ungur og lauk einleikara- og kennarameistaraprófi frá Tónlistarakademíunni í Prag. Á námsárunum vann hann til margra verðlauna í heimalandi sínu og síðar í alþjóðlegum keppnum, t.d. í Vercelli og Enna á Ítalíu 1986 og 1989. Hann hefur komið fram sem einleikari með mörgum helstu hljómsveitum heimalands síns en einnig með útvarpshljómsveitinni í Berlín og Sinfóníuhljómsveit Íslands. 

Árið 2012 frumflutti Peter með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands píanókonsert Jóns Ásgeirssonar á Akureyri. Hann hefur haldið marga einleikstónleika og tekið þátt í kammertónleikum hérlendis og erlendis, farið í tónleikaferðir til Frakklands, Bretlands og Bandaríkjanna auk Austur-Evrópulanda. Peter kennir nú við LHÍ og Menntaskólann í tónlist. Hann hefur einnig kennt á meistaranámskeiðum við fjölda erlendra háskóla og tónlistarskóla á Íslandi.

Samstarf Peters og Hlínar hófst 2019 með tónleikum í tónleikaröðinni Klassík í Vatnsmýrinni í Norræna húsinu. Þar fluttu þau íslenska tónlist frá 20. öld og verk eftir Mendelssohn, Cornelius og Grieg. Næstu tónleikar þeirra verða í sumartónleikaröð Egilsstaðakirkju 27. júní.

Björn Pálmi Pálmason nam píanóleik og tónsmíðar við LHÍ. Hann fluttist á Stokkseyri að námi loknu og stundar nú tónsmíðar af kappi auk þess að kenna við Tónlistarskóla Árnesinga. Ljóðaflokkurinn Þögult sem járn er saminn með styrk frá Tónskáldasjóði RÚV/STEFs. Um tónsmíð sína segir hann: „Verkið Þögult sem járn var skrifað fyrir Hlín Pétursdóttur sópransöngkonu. Ljóðin eru eftir suður-kóreska höfundinn Ko Un í þýðingu Gyrðis Elíassonar úr bókinni Sorgin í fyrstu persónu. Ljóðin bærðu með mér margvíslega upplifun um tímann, að í lífi manns væri hann í einn tíma skammur en annan tíma langur en fyrir heiminn væri tíminn allt frá því að renna út til þess að vera óendanlegur. Þær tilfinningar sem leystust úr læðingi útfærði ég sem ólík rými innan tónlistarinnar.“

Eiríkur Árni Sigtryggsson hefur starfað sem tónskáld, tónlistarkennari og myndlistarmaður um langt árabil, bæði hér á landi og ytra. Lengst af hefur hann starfað í Reykjanesbæ og þar var hann útnefndur listamaður bæjarins árið 2018. Hann er afkastamikill listamaður á sviði tónsmíða og hafa mörg tónverka hans verið flutt hérlendis og erlendis, allt frá einleiks- og einsöngsverkum til hljómsveitarverka og kórverka. Sinfóníuhljómsveitin hefur flutt verk eftir Eirík, ýmsir kammerhópar, kórar, einleikarar og einsöngvarar sömuleiðis og hafa mörg þeirra verið sérpöntuð af listamönnunum. Lögin sem flutt verða á næstu áskólatónleikum samdi Eiríkur árið 2014.

Hlín Pétursdóttir Behrens sópransöngkona og Peter Máté píanóleikari