Skip to main content
19. janúar 2018

Vefur HÍ tilnefndur til Íslensku vefverðlaunanna

"""

Nýr vefur Háskóla Íslands er meðal fimm vefja sem tilnefndir eru til Íslensku vefverðlaunanna 2017 í flokki opinberra vefja. Tillkynnt var um tilnefningar í dag. 
Fram kemur á heimasíðu Íslensku vefverðlaunna að markmiðið með verðlaunum sé að efla vefiðnaðinn á Íslandi, verðlauna bestu vefina og hvetja þá sem starfa á þessum vettvangi til dáða. Það eru Samtök vefiðnaðarins (SVEF) sem standa að verðlaununum og leita þau tilnefninga um vel unnin störf á hverju ári. Sérstök dómnefnd fer svo yfir tilnefningar og velur fimm vefi sem tilnefndir eru í hverjum flokki fyrir sig.

Alls eru eru veitt verðlaun í þrettán flokkum og sem fyrr segir er vefur Háskóla Íslands, sem opnaður var sumarið 2017, tilnefndur í flokki opinberra vefja. Auk hans eru vefurinn Ey tímarit og vefir Hafrannsóknarstofnunar, Þjóðleikhússins og Þjóðskrár Íslands tilnefndir í þeim flokki.

Þess má geta að vefur Háskóla Íslands var í hópi fimm bestu ríkisvefjanna samkvæmt úttekt á vegum stjórnvalda sem nefnist „Hvað er spunnið í opinbera vefi“ á síðasta ári. Skólinn opnaði nýjan og gjörbreyttan vef í sumar en vefsvæði skólans eru með þeim fjölsóttustu og efnismestu á Íslandi. 

Að baki nýjum vef Háskóla Íslands liggur mikil greiningarvinna á þörfum ólíkra notenda hans, svo sem núverandi og verðandi nemenda, starfsmanna, fjölmiðla og almennings, en áhersla er m.a. á skilvirka leit að námi og upplýsingum um rannsóknir og aðra kjarnastarfsemi skólans. Frá því að vefurinn var opnaður í lok júní hefur hann verið þróaður enn frekar og fleiri breytingar eru á döfinni á næstu mánuðum og misserum.

Vefur Háskóla Íslands er knúinn með vefumsjónarkerfinu Drupal og var forritun og þróun viðmótsins í höndum upplýsingatæknisviðs Háskóla Íslands en Hugsmiðjan stýrði hins vegar grunnhönnun nýja vefsins. 

Íslensku vefverðlaunin verða veitt við hátíðlega athöfn í Hörpu föstudaginn 26. janúar en lista yfir tilnefnda vef í einstökum flokkum má finna á vefsíðu Íslensku vefverðlaunanna.
 

Vefur Háskóla Íslands