Vefur HÍ meðal fimm bestu ríkisvefjanna | Háskóli Íslands Skip to main content

Vefur HÍ meðal fimm bestu ríkisvefjanna

1. desember 2017

Nýr vefur Háskóla Íslands er í hópi fimm bestu ríkisvefjanna samkvæmt úttekt á vegum stjórnvalda sem nefnist „Hvað er spunnið í opinbera vefi“. Niðurstöður útttektarinnar voru kynntar á Degi upplýsingatækninnar sem fram fór á Grand hóteli í gær. 

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga og Ský – Skýrslutæknifélag Íslands hafa staðið saman að Degi upplýsingatækninnar árlega frá 2006 en úttektin „Hvað er spunnið í opinbera vefi?“ hefur farið fram annað hvert ár. Í henni felst mat á gæðum opinberra vefja þar sem m.a. er horft til rafrænnar þjónustu á opinberum vefjum, möguleikum á lýðræðislegri þátttöku notenda vefsins, aðgengismála og fleiri þátta. Matið er allítarlegt auk þess sem vefir ólíkra stofnana eru bornir saman.

Úttekt var gerð á bæði vefjum á vegum ríkisins og sveitarfélaga nú í haust og voru fimm vefir tilnefndir í framhaldinu sem besti ríkisvefurinn annars vegar og besti vefur á sveitarstjórnarstigi hins vegar. Sérstök dómnefnd fór yfir tilnefningarnar og valdi þann besta í hvorum flokki. Vefur Háskólans, sem hlaut 98 stig af 100 í úttektinni, var meðal þeirra fimm sem tilnefndir voru í flokki ríkisvefja. Dómnefnd ákvað að þessu sinni að útnefna vef stjórnarráðsins besta ríkisvefinn og vef Reykjavíkurborgar besta vefinn á sveitarstjórnarstigi.

Háskóli Íslands opnaði nýjan og gjörbreyttan vef í sumar en vefsvæði skólans eru með þeim fjölsóttustu og efnismestu á Íslandi. Við þróun hins nýja vefs var tekið mið af ítarlegri greiningarvinnu á þörfum bæði núverandi og verðandi nemenda, starfsmanna, fjölmiðla og almennings en áhersla var m.a. á skilvirka leit að námi og upplýsingum um rannsóknir og aðra kjarnastarfsemi skólans. Vefurinn var jafnframt hannaður þannig að hann stillir sig sjálfvirkt af fyrir þau tæki sem birta hann og hentar vefurinn því jafnvel til skoðunar á borðtölvum, spjaldtölvum og í snjallsímum.

Frá því að vefurinn var opnaður í lok júní hefur hann verið þróaður enn frekar og sem dæmi má nefna hefur skólinn, fyrstur íslenskra háskóla, opnað fyrir netspjall í gegnum vefinn. Þá eru ýmsar nýjungar á döfinni á næstu mánuðum og verða þær kynntar vel þegar þar að kemur.

Vefurinn er knúinn með vefumsjónarkerfinu Drupal eins og fyrri vefir skólans og var forritun og þróun viðmótsins í höndum Reiknistofnunar Háskóla Íslands.  Hugsmiðjan stýrði hins vegar grunnhönnun nýja vefsins. 

forsíða vefs Háskóla Íslands

Netspjall