Skip to main content
16. ágúst 2017

Varpa ljósi á myndun Sahara-eyðimerkurinnar

Alþjóðlegur hópur vísindamanna hefur með rannsóknum sínum á sandstormum í norðurhluta Afríku síðustu 12.000 ár varpað nýju ljósi á það hvernig svæði, sem áður var frjósamt og grösugt, varð að stærstu eyðimörk heims, Sahara-eyðimörkinni. Rannsóknirnar sýna að ólíkt því sem áður var talið má ekki rekja myndun eyðimerkurinnar til stakra veðurfarsbreytinga, sem leiddu til meiri þurrka á svæðinu, heldur sandstormaskeiða sem spönnuðu árþúsund.

Greint var frá niðurstöðum rannsóknanna nýverið í hinu virta vísindatímariti Quaternary Science Reviews en þær fóru fram undir forystu Christoph Zielhofer, prófessors í líffræðilegri landfræði við Leipzig-háskóla í Þýskalandi. Auk hans komu landfræðingar, jarðvísindamenn, veðurfræðingar og fornleifafræðingar frá Þýskalandi, Bretlandi og Íslandi að rannsókninni, þeirra á meðal Steffen Mischke, prófessor við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands.

Sahara-eyðimörkin er ekki aðeins stærsta eyðimörk heims heldur einnig mesta uppspretta sandstorma í heiminum. Sviptingar í mörkinni hafa áhrif á lífríki bæði á landi og í sjó beggja vegna Atlantsála og eru agnir frá Sahara m.a. talið hafa áhrif á hitastig í sjó og andrúmslofti í hitabeltishluta Atlantshafsins og jafnvel draga úr virkni fellibylja. 

Sahara-eyðimörkin nær yfir stærstan hluta Norður-Afríku en þar voru áður þurrar en grösugar sléttur þar sem fílar, ljón og ýmis önnur stór dýr áttu heimkynni. Fyrir 12.000 árum lauk hins vegar svokölluðu rakatímabili Afríku (e. African Humid Period) sem boðaði upphaf myndunar eyðimerkurinnar en talið er að lífríki og landslag á Sahara-svæðinu hafi tekið mestum breytingum á síðustu 3.000-7.000 árum.

Til þess að varpa ljósi á þessar umfangsmiklu breytingar rannsakaði vísindamannahópurinn borkjarna úr Sidi Ali vatni í Atlas-fjöllunum í Marokkó en með því að rýna í þá tókst hópnum að draga upp sögu sandstorma á Sahara-svæðinu síðastliðin 12.000 ár. Niðurstöður rannsóknahópsins benda til þess að skeið sandstorma, sem spanna jafnvel árþúsund, hafi geysað á svæðinu á því tímabili sem það breyttist úr „grænu Sahara“ í þá þurru sandauðn þar er nú. Þessar breytingar hafi haft alvarlegar afleiðingar fyrir lífsskilyrði dýra, plantna og einnig manna á svæðinu.

Niðurstöður vísindamannanna benda því til að lok hins svokallaða rakatímabils Afríku hafi ekki einkennst af samfelldum breytingum í loftslagi í átt að þurrara veðurfari, eins og áður var talið, heldur af mörgum sandstormaskeiðum á svæðinu. Samkvæmt rannsóknum vísindahópsins hófust öflugustu stormaskeiðin fyrir um 10.200, 8.200 og um 6.000 árum en inni á milli tóku við skeið þar sem stærð og tíðni  var mun minni. Stærð og tíðni sandstorma á svæðinu hafi svo náð núverandi styrk í síðasta lagi fyrir 4.700 árum. 

Steffen Mischke,
Sidi Ali vatn í Atlas-fjöllunum
Frá rannsóknum vísindamanna við Sidi Ali vatni í Marokkó.