Skip to main content
20. desember 2021

Varði doktorsritgerð um tungumálanám á netinu

Varði doktorsritgerð um tungumálanám á netinu - á vefsíðu Háskóla Íslands

Kolbrún Friðriksdóttir hefur varið doktorsritgerð sína í annarsmálsfræðum við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands sem nefnist Significant Determinants of Student Retention and Efficient Engagement Strategies in Online Second Language Learning Courses (Opin tungumálanámskeið á neti. Áhrifaþættir virkni og framvindu). Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn dr. Birnu Arnbjörnsdóttur, prófessors við Mála- og menningardeild. Einnig voru í doktorsnefnd þau dr. Kristín Ingólfsdóttir, fyrrverandi rektor og prófessor við Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands, og Jozef Colpaert, prófessor við Háskólann í Antwerpen í Belgíu. 

Andmælendur við vörnina voru dr. Ana Gimeno Sanz, prófessor við Tækniháskólann í Valencia á Spáni, og dr. Guðrún Geirsdóttir, dósent við Menntavísindasvið og deildarstjóri Kennslumiðstöðvar Háskóla Íslands. Geir Sigurðsson, forseti Mála og menningardeildar, stjórnaði athöfninni sem fór fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands 17. desember síðastliðinn. (Smellið hér til að skoða myndir frá vörninni).

Um rannsóknina

Doktorsverkefnið er á sviði annarsmálsfræða og hagnýtra málvísinda og beinist að áhrifaþáttum í námi í opnum netnámskeiðum, eða svokölluðum massive open online courses (MOOCs), en með þeim er veittur opinn aðgangur að menntun á ýmsum fræðasviðum í háskólum víða um heim. Nánar tiltekið beinist rannsóknin að námi og kennslu annars máls í netnámskeiðum, svonefndum language MOOCs (LMOOCs). Hún fellur jafnframt undir svið tölvustudds tungumálanáms og -kennslu, eða computer assisted language learning (CALL). Meginmarkmið rannsóknarinnar var að greina þætti sem gætu haft áhrif á framvindu (e. retention) í opnum netnámskeiðum og varpa ljósi á kennsluaðferðir og námsumgjörð sem gætu verið mikilvægur þáttur í að auka virkni og þátttöku nemenda í námskeiðum. Rannsóknin byggðist á gögnum frá nemendum á sjö netnámskeiðum Icelandic Online (IOL) í íslensku sem öðru eða erlendu máli en námskeiðin voru þróuð á vegum Háskóla Íslands.

Um doktorinn

Kolbrún Friðriksdóttir hefur lokið B.Ed.-prófi við Kennaraháskóla Íslands, B.A.-prófi í íslensku við Háskóla Íslands og M.A.-prófi í íslenskri málfræði frá sama skóla. Hún er aðjunkt í íslensku sem öðru máli við Háskóla Íslands.

Frá vinstri: Birna Arnbjörnsdóttir, Geir Sigurðsson, Guðrún Geirsdóttir, Kolbrún Friðriksdóttir, Ana Gimeno Sanz, Ólöf Garðarsdóttir og Kristín Ingólfsdóttir.