Skip to main content
5. desember 2019

Varði doktorsritgerð um tilurð opinbers málstaðals

Heimir Freyr van der Feest Viðarsson hefur varið doktorsritgerð í íslenskri málfræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Ritgerðin nefnist „Socio-Syntactic Variation and Change in Nineteenth-Century Icelandic: The Emergence and Implementation of a National Standard Language“ eða „Félags-setningafræðilegar breytingar og tilbrigði í nítjándu aldar íslensku: Tilurð og innleiðing opinbers málstaðals“.

Andmælendur voru Caroline Heycock, prófessor við Edinborgarháskóla, og Höskuldur Þráinsson, prófessor emerítus við Háskóla Íslands. Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn Þórhalls Eyþórssonar, prófessors í enskum málvísindum við Háskóla Íslands, og Ásgríms Angantýssonar, prófessors í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands. Aðrir í doktorsnefnd voru Leonie Cornips, prófessor við Maastrichtháskóla, og Jóhannes Gísli Jónsson, prófessor við Háskóla Íslands.

Torfi Tulinius, forseti Íslensku- og menningardeildar, stýrði athöfninni sem fór fram í Hátíðasal Háskóla Íslands 2. desember.

Um rannsóknina

Í ritgerðinni er fjallað um tilbrigði í íslenskri setningagerð á 19. öld frá sjónarhóli íslenskrar málstöðlunar. Athyglinni er beint að þremur ólíkum málfræðilegum atriðum í þremur ólíkum málheildum. Málbreyturnar eru staða persónubeygðrar sagnar í aukasetningum, notkun lauss greinis (hinn eða sá) og óákveðna fornafnið maður. Atriðin eru könnuð í einkabréfum bréfritara úr ýmsum stigum þjóðfélagsins (1784-1918), dagblöðum og tímaritum (1803-1924) og skólaritgerðum úr Lærða skólanum í Reykjavík (1846-1904). Málbreyturnar og textasöfnin eru valin með fræðileg markmið að leiðarljósi. Kannað er hvort setningafræðileg atriði sem eru formgerðarfræðilega séð ólík og misjafnlega skilyrt orðasafnslega sýni breytileika á félagslega rófinu og að hvaða marki málstýring kunni að hafa haft áhrif á dreifinguna eftir textagerðum. Við mat og úrvinnslu á innri og ytri mállegum þáttum er beitt megindlegum aðferðum úr (sögulegum) félagsmálvísindum. Færð eru rök að því að snertiflötur félagslegra og setningafræðilegra þátta sé meiri en almennt hefur verið talið innan félagsmálvísinda og jafnframt að áhrifa málstöðlunar gæti skýrt í dagblaða- og tímaritstextum og í skólaritgerðunum en gæti aftur á móti lítið í bréfunum. Textasöfnin sýna hins vegar umtalsvert meiri breytileika í málnotkun en fyrri skrif um efnið bentu til og tilraun er gerð til þess að greina þessi atriði á setningafræðilegan hátt.

Doktorsefnið

Heimir Freyr van der Feest Viðarsson (f. 1983) er málfræðingur með MA í íslenskri málfræði frá Háskóla Íslands (2009). Hann hefur verið gestarannsakandi við Trektarháskóla/Utrecht Institute of Linguistics OTS (2014), Leidenháskóla/Leiden University Centre for Linguistics (2015) og Kölnarháskóla/Institut für Deutsche Sprache und Literatur I (2018). Hann hefur einnig kennt forníslensku við Amsterdamháskóla (2010) og sinnt málfræðikennslu á Menntavísindasviði við Háskóla Íslands (2017).

(Hér er hægt að skoða myndir frá vörninni).

Höskuldur Þráinsson, Heimir Freyr van der Feest Viðarsson, Caroline Heycock og Torfi Tulinius.