Skip to main content
15. september 2017

Varði doktorsritgerð um skólamálfræði

Hanna Óladóttir hefur varið doktorsritgerð sína, Skólamálfræði. Hver er hún og hver ætti hún að vera? Um markmið og áhrif málfræðikennslu á unglingastigi grunnskólans, í íslenskri málfræði við Íslensku- og menningardeild. Það var Gunnþórunn Guðmundsdóttir, forseti deildarinnar, sem stjórnaði athöfninni sem fór fram í Hátíðasal Aðalbyggingar föstudaginn 8. september.

Andmælendur voru Þórunn Blöndal, dósent emeríta við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, og Finnur Friðriksson, dósent við Háskólann á Akureyri. Aðalleiðbeinandi Hönnu var Höskuldur Þráinsson, prófessor emeritus, en í doktorsnefnd voru auk hans þeir Ari Páll Kristinsson, rannsóknaprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, og Veturliði Óskarsson, prófessor við Uppsalaháskóla. (Hér má skoða myndir frá vörninni).

Um doktorsverkefnið

Í rannsókninni er sjónum beint að þeim hugmyndafræðilega grunni sem málfræði­kennsla í grunnskólum á Íslandi, skólamálfræðin, byggist á til að leggja til umræðunnar um hvað eigi að kenna í málfræði og hvers vegna. Gengið er út frá að nemendur þurfi víðari sýn á tungumálið en hefðbundin málfræðikennsla býður upp á til að auka áhuga þeirra og ábyrgð á tungumálinu.

Spurt er hvaða hugmyndir um tungumálið koma fram í aðalnámskrám, sam­ræmdum prófum og námsefni; hvaða hugmyndir íslenskukennarar á unglingastigi grunnskóla hafa um tungumálið og eigið hlutverk þegar kemur að málfræðikennslu; hvernig þessar hugmyndir endurspeglast í viðhorfi nemenda til tungumálsins og hvernig þessar hugmyndir samræmast nýlegum kenningum málvísindamanna um máltöku, málkunnáttu, málbreytingar og tilbrigði í máli? Loks er lagt mat á hvort svör við spurningunum gefi tilefni til að endurskoða markmið málfræðikennslu og þá hvernig eða á hvaða hátt best sé að nálgast málfræði í grunnskólakennslu.

Í rannsókninni er bæði beitt textarýni á skólaefni, þ.e. aðalnámskrár, samræmd próf og námsefni, og eigindlegri nálgun, en talað er við íslenskukennara og nemendur þeirra í 10. bekk.

Helstu niðurstöður sýna að hefðbundin forskriftarmálfræði er nokkuð áberandi í skólaefninu og kennslunni og hefur haft veruleg áhrif á málhegðun nemenda og hvernig þeir hugsa um tungumálið. Mikil áhersla er á kennslu rétts máls í merkingunni viðurkennt mál eða málstaðall. Þetta tengist málvernd og málvöndun líkt og kemur fram í skólaefninu en kennarar líta bæði á það sem hlutverk sitt með kennslu rétts máls að vernda tungumálið og undirbúa nemendur fyrir lífið. Málkunn­áttan og máltakan eru ekki þættir sem mikið ber á þó að einhver merki séu um að þeir séu á dagskrá í kennslu.

Í skólaefninu eru sýnilegar hugmyndir um málbreytingar og mismunandi málvenjur, og nemendur og kennarar gera sér grein fyrir að mál breytist. Umfjöllun um málbreytingar er frekar á sögulegum nótum en samtímalegum en ekkert er fjallað um af hverju málið breytist. Margbreytileiki tungumálsins er helst nefndur í tengslum við kynslóðamun og misformlegt málsnið í ritun þar sem talmáls­einkenni eiga ekki við og gera nemendur sér grein fyrir þeim mun. Nokkuð vantar upp á skilning á því að kennslan felist bæði í að kenna um tungumálið, með hjálp hugtaka, og kenna í tungumáli, með kennslu rétts máls, og greina þar á milli.

Með niðurstöðum rannsóknarinnar eru færð rök fyrir að breytinga sé þörf í málfræðikennslu grunnskóla. Meiri og markvissari áhersla skuli lögð á kenningar um máltöku, málkunnáttu og þá málfélagslegu krafta sem eru að verki í málsamfélaginu, skerpa á því sem þegar er gert og efla annað. Slíkt myndi kalla á breytingar í menntun kennaraefna, kennslunni og skólaefninu sem hún byggist á.

Um doktorinn

Hanna Óladóttir lauk BA-prófi í íslensku frá Háskóla Íslands 1992 og meistaraprófi í íslenskri málfræði frá sama skóla árið 2005. Meistararitgerð hennar bar heitið Pizza eða flatbaka? Viðhorf 24 Íslendinga til erlendra máláhrifa í íslensku. Árið 2005 var hún ráðin sem aðjunkt í íslensku við Kennaraháskóla Íslands, síðar Menntavísindasvið Háskóla Íslands, og hefur starfað þar síðan. Rannsóknir hennar eru á sviði félagsmálvísinda.

Hanna Óladóttir við doktorsvörnina á dögunum.