Varði doktorsritgerð um samkirkjulegt starf á Íslandi | Háskóli Íslands Skip to main content
9. nóvember 2016

Varði doktorsritgerð um samkirkjulegt starf á Íslandi

María Ágústsdóttir hefur varið doktorsritgerð sína, Að taka við hinum. Lifuð reynsla af Oikoumene sem veruleika er lýsir hagnýtum, félagslegum og andlegum tengslum eða Receiving the Other, við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands.

Andmælendur við vörnina voru Kajsa Ahlstrand, prófessor við Uppsalaháskóla, og Hans Raun Iversen, lektor við Kaupmannahafnarháskóla. Aðalleiðbeinandi Maríu var Einar Sigurbjörnsson, prófessor við Háskóla Íslands (emeritus frá 2014), en í doktorsnefnd voru auk hans Sigríður Halldórsdóttir, prófessor við Háskólann á Akureyri, og Sigurður Árni Þórðarson, doktor í guðfræði.

Hjalti Hugason, forseti Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar, stjórnaði athöfninni sem fór fram í Hátíðasal Háskóla Íslands þann 1. nóvember síðastliðinn. Hér má skoða myndir frá vörninni.

Efni ritgerðarinnar

Ritgerðin sem byggir á rannsókn á samkirkjulegu starfi á Íslandi með áherslu á fyrstu áratugi nýrrar aldar hefst með stuttu yfirliti yfir samskipti kristinna trúfélaga hérlendis á 19. og 20. öld. Meginrannsóknarefnið snýr að því að greina lifaða reynslu fólks af samskiptum og samstarfi kristinna trúfélaga, fyrirbæri sem táknað er hér með gríska hugtakinu Oikoumene. Gerð er tilraun til að lýsa og túlka fyrirbærið með það fyrir augum að bæta gæði þess út frá eftirfarandi rannsóknarspurningu: Hver er lifuð reynsla leiðtoga innan kristinna trúfélaga á Íslandi, sem hafa tekið virkan þátt í samkirkjulegu starfi, af slíku samstarfi, með áherslu á hvað sameinar og hvað sundrar? Gögnum var safnað með eigindlegum viðtölum við fjórtán aðila, konur og karla, hér nefnd meðrannsakendur, með fyrirbæra- og túlkunarfræðilega aðferðafræði að leiðarljósi sem nefnd er Vancouver-skólinn í fyrirbærafræði. Eftir að búið var að afrita viðtölin eða samræðurnar, eins og það er orðað í Vancouver-skólanum, var meginkjarni fyrirbærisins Oikoumene greindur.

Í ljós kom að reynsla meðrannsakandanna af fyrirbærinu sneri að þremur þáttum: Í fyrsta lagi því sem varðar hagnýtt samstarf og kristniboð, í öðru lagi því sem snertir tengsl og viðhorf og í þriðja lagi því sem greina má sem andlega eða guðfræðilega iðkun. Þessir þrír þættir móta persónulega og trúarlega sjálfsmynd, þar með talið þá sjálfsmynd sem tengist trúfélagsaðild, og hafa haft djúp áhrif á líf þátttakendanna í rannsókninni. Einkum virðist þátttaka í samkirkjulegu starfi leiða til opnara og móttækilegra hugarfars gagnvart öðrum trúfélögum og öðru fólki, hinum. Guðfræðilega líkanið Receptive Ecumenism sem kennt er við slíkt hugarfar reyndist vera gagnlegt og í samræmi við reynslu meðrannsakendanna. Við úrvinnslu gagnanna var eftirfarandi yfirþema mótað: ,,Að taka við hinum. Lifuð reynsla af Oikoumene sem veruleika er lýsir hagnýtum, félagslegum og andlegum tengslum.” Þannig lýtur meginniðurstaða rannsóknarinnar að persónulegum tengslum fyrst og fremst. Spurningar um áhrif samkirkjulegs starfs á þau kerfi og stofnanir sem mótast hafa utan um kristna trúariðkun í aldanna rás eru látnar að mestu liggja á milli hluta. Engu að síður eru settar fram nokkrar tillögur um á hvaða hátt megi bæta gæði kirkjulegra tengsla almennt.

Um doktorinn

María Ágústsdóttir er fædd á Egilsstöðum árið 1968. Hún lauk embættisprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands árið 1992 og prófi í uppeldis- og kennslufræði frá sama skóla árið 1994. María hefur starfað fyrir þjóðkirkjuna í vesturhluta Reykjavíkur frá árinu 1993 og verið formaður Samstarfsnefndar kristinna trúfélaga á Íslandi frá árinu 2002. Hún hóf doktorsnám við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild HÍ haustið 2009.

María er dóttir Guðrúnar Láru Ásgeirsdóttur og Ágústs Sigurðssonar. Eiginmaður Maríu er Bjarni Þór Bjarnason og börn hennar fimm, Kolbeinn, Ragnhildur, Guðný Lára, Guðrún María og Nína Björg.

Sigurður Árni Þórðarson, María Ágústsdóttir, Einar Sigurbjörnsson og Sigríður Halldórsdóttir.
Sigurður Árni Þórðarson, María Ágústsdóttir, Einar Sigurbjörnsson og Sigríður Halldórsdóttir.