Skip to main content
28. ágúst 2020

Varði doktorsritgerð um orðspor Williams Faulkners á Íslandi

Haukur Ingvarsson hefur varið doktorsritgerð í íslenskum bókmenntum við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Ritgerðin nefnist „Orðspor Williams Faulkners á Íslandi 1930–1960“. Andmælendur við vörnina voru dr. Soffía Auður Birgisdóttir, bókmenntafræðingur og fræðimaður hjá Rannsóknarsetri HÍ á Hornafirði, og dr. Rósa Magnúsdóttir, dósent í sagnfræði við Institut for Kultur og Samfund við Háskólann í Árósum í Danmörku. Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn dr. Jóns Karls Helgasonar, prófessors í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands. Í doktorsnefnd sátu dr. Ástráður Eysteinsson, prófessor í almennri bókmenntafræði og dr. Valur Ingimundarson, prófessor í sagnfræði við sama skóla. Gauti Kristmannsson, forseti Íslensku- og menningardeildar, stjórnaði athöfninni sem fór fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands 27. ágúst síðastliðinn. Hér er hægt að horfa á upptöku frá vörninni.

Um rannsóknina 

Í ritgerðinni er leitað svara við því hvernig nafn bandaríska höfundarins, Williams Faulkners (1897–1962), varð til og þróaðist á íslenskum menningarvettvangi frá því að það bar fyrst á góma í íslenskum prentmiðli 8. maí 1933 og þar til sjöunda og síðasta þýðing Kristjáns Karlssonar á smásögu eftir Faulkner birtist á prenti árið 1960. Víðtækara markmið ritgerðarinnar er að kanna samspil íslenska bókmenntakerfisins við erlend bókmenntakerfi á umbrotatímum í Íslandssögunni þegar staða landsins gagnvart umheiminum tók miklum breytingum. Á því tímabili sem hér er til skoðunar breytist Ísland úr hjálendu Dana í sjálfstætt ríki, úr herlausu landi í hersetið og úr hlutlausu landi í hernaðarlega mikilvægt svæði á tímum seinni heimstyrjaldarinnar og síðar kalda stríðsins. 

Um doktorsefnið 

Haukur Ingvarsson lauk B.A.- og meistaraprófi í íslenskum bókmenntum frá Háskóla Íslands. Hann er rithöfundur og fæst jöfnum höndum við skáldskap og fræðileg skrif. Hann er stundarkennari við Háskóla Íslands og annar ritstjóra Skírnis – Tímarits Hins íslenska bókmenntafélags. 

(Hér er hægt að skoða ljósmyndir sem teknar voru við vörnina).

Ástráður Eysteinsson, Soffía Auður Birgisdóttir, Jón Karl Helgason, Haukur Ingvarsson, Valur Ingimundarson, Gauti Kristmannsson og Guðmundur Hálfdanarson.