Skip to main content
24. janúar 2022

Varði doktorsritgerð um íslenskt miðaldasamfélag

Varði doktorsritgerð um íslenskt miðaldasamfélag - á vefsíðu Háskóla Íslands

Grégory Cattaneo hefur varið doktorsritgerð sína í sagnfræði við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands, en titill hennar er Les communautés d’habitants dans l’Islande médiévale (XIe-XIIIe siècles). Andmælendur við vörnina voru dr. Corinne Péneau, dósent í miðaldasögu við Université Paris-Est Créteil, og dr. Lena Rohrbach, prófessor í miðaldafræðum við Universität Basil. Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn dr. Viðars Pálssonar, dósents við Háskóla Íslands. Einnig voru í doktorsnefnd dr. Torfi H Tulinius, prófessor við Háskóla Íslands, og dr. Dominique Barthélemy, prófessor við L‘université Paris-Sorbonne (Paris-IV). Helgi Þorláksson, prófessor emeritus við Háskóla Íslands, leiðbeindi doktorsefni í upphafi. Steinunn Kristjánsdóttir, forseti Sagnfræði- og heimspekideildar, stjórnaði athöfninni sem fór fram fram 21. janúar síðastliðinn í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands. (Smellið hér til að skoða myndir frá vörninni).

Um rannsóknina

Í ritgerð Grégorys er sett fram ný túlkun á íslensku miðaldasamfélagi með því að horfa á það í gegnum prisma samfélags (e. community) eða félagsheildar. Með því að beita hugtökum og hugmyndum sagnfræðinga sem fjallað hafa um samfélög Vestur-Evrópu á miðöldum með sambærilegum hætti, og með ítarlegri athugun á varðveittum heimildum, er dregin upp mynd af því hvernig Íslendingar mynduðu samfélög og hvernig þau störfuðu á elleftu, tólfu og þrettándu öld. Með innleiðingu tíundar tóku þessar félagsheildir að starfa mjög eftir því sem sóknarsamfélög gerðu annars staðar í Vestur-Evrópu. Um 1100 má merkja breytingu á staðbundnu samfélagi þar sem stærri landeigendur þróuðu með sér höfðingjavald yfir landi og samfélagi þess. Á umræddu tímabili var íslenskt samfélag flókið og hægt er að skoða það jafnt út frá fremstu mönnum, bændum eða fátækum, þ.e. út frá lóðréttum tengslum, láréttum tengslum eða samhjálp (góðgerðum).

Um doktorinn

Grégory Cattaneo er með BA-próf í sagnfræði frá Université d‘Orléans, MA-próf í sagnfræði frá Paris IV Sorbonne og MA-próf í íslenskri miðaldafræði frá Háskóla Íslands. Hann stefnir á að verja doktorsritgerð í fornnorrænum fræðum í École pratique des Hautes Études í París (Sorbonne) árið 2023. Hann er nú að undirbúa nýdoktorsverkefni við HÍ um AM 279a 4to  – Þingeyrabók. 

Viðar Pálsson, Grégory Cattaneo og Torfi H. Tulinius.