Skip to main content
21. nóvember 2018

Varði doktorsritgerð um heimspeki sem lífsmáta

""

William Konchak hefur varið doktorsritgerð sína í heimspeki við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. Ritgerðin nefnist Developing a Contemporary Approach to Philosophy as a Way of Life, eða Samtímanálgun á heimspeki sem lífsmáta og var unnin undir leiðsögn Björns Þorsteinssonar, prófessors í heimspeki og aðrir í doktorsnefnd voru Svavar Hrafn Svavarsson prófessor og David Greenham frá University of West of England í Bristol. Andmælendur við vörnina voru Samantha Harvey, prófessor við Boise State háskóla í Bandaríkjunum, og Jussi Backman, fræðimaður við Háskólann í Jyväskylä í Finnlandi. Steinunn J. Kristjánsdóttir, forseti Sagnfræði- og heimspekideildar, stjórnaði athöfninni sem fram fór í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands 19. nóvember síðastliðinn. Hér má nálgast myndir frá vörninni.

Um rannsóknina

Í ritgerðinni er gengið út frá hugmynd Pierre Hadot um heimspeki sem lífsmáta, þ.e. sjálfsþroskaferli sem á sér stað með iðkun þess sem Hadot kallar andlegar æfingar, ásamt kenningasmíð. Rannsóknin beinir sjónum að því hvernig beita megi þessu grundvallarviðhorfi í samtímasamhengi og gerir í því skyni túlkunarfræði Hans-Georgs Gadamer og heimspeki Ralphs Waldo Emerson að viðfangsefni sínu. Skoðað er hvernig hugmyndir þessara hugsuða geta leitt til iðkana sem fela í sér djúpa umbreytingu, s.s. viðhorf Gadamers til samræðu og túlkunar, djúptæk sýn Emersons á náttúru, sjálfið og andlegan þroska, og fagurfræði hugsuðanna beggja. Einnig er athugað hvernig iðkanir og viðhorf úr heimspeki til forna má taka upp og þróa í tengslum við hugsun Gadamers og Emersons og fella þær inn í heimspeki sem lífsmáta í samtímanum.

Doktorsefnið

William Konchak hefur lokið námi í heimspeki frá Háskóla Íslands, umhverfisstjórnun frá háskólanum í Cambridge og sálfræði frá Institute of Transpersonal Psychology (nú Sofia University). William hefur verið stundakennari í námskeiði um náttúrusiðfræði við Háskóla Íslands. Doktorsrannsóknin naut styrks frá Rannís fyrir tilstuðlan Páls Skúlasonar, fyrrverandi rekstors Háskóla Íslands.

Steinunn J. Kristjánsdóttir, Jussi Backman, William Konchak, Samantha Harvey, Guðmundur Hálfdanarson og Björn Þorsteinsson.