Varði doktorsritgerð um Emily Dickinson í íslenskum bókmenntaheimi | Háskóli Íslands Skip to main content
16. september 2019

Varði doktorsritgerð um Emily Dickinson í íslenskum bókmenntaheimi

Magnús Sigurðsson hefur varið doktorsritgerð við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Ritgerðin nefnist Fegurðin – Er –. Emily Dickinson í íslenskum bókmenntaheimi og var skrifuð á sviði almennrar bókmenntafræði undir leiðsögn Ástráðs Eysteinssonar, prófessors við Háskóla Íslands. Aðrir í doktorsnefnd voru Guðrún Björk Guðsteinsdóttir, prófessor í ensku við Háskóla Íslands, og Gauti Kristmannsson, prófessor í þýðingafræði við Háskóla Íslands. 

Andmælendur við doktorsvörnina voru Soffía Auður Birgisdóttir, fræðimaður við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Höfn í Hornafirði, og Hólmfríður Garðarsdóttir, prófessor í spænsku við Háskóla Íslands. Torfi Tulinius, forseti Íslensku- og menningardeildar, stýrði athöfninni sem fram fór í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands fimmtudaginn 12. september.

Um rannsóknina

Rannsóknin fjallar um bandaríska ljóðskáldið Emily Dickinson (1830–1886), með áherslu á túlkun og viðtökur ljóða hennar á síðari tímum, bæði erlendis sem og á Íslandi. Rannsóknin er þverfræðileg, á mörkum bókmenntafræði, þýðingafræði og ritlistar. Sérstaklega er fjallað um stöðu íslensks þýðanda og íslenskrar ljóðlistar andspænis ljóðum Dickinson, og mynda þýðingar doktorsefnisins á allmörgum ljóða Dickinson hluta rannsóknarinnar. Ein meginforsenda rannsóknarinnar er að verkefni bókmenntaþýðenda skarist í senn við frumsaminn skáldskap og við túlkunarstarf gagnrýnenda og fræðimanna, en þýðingar myndi þó jafnframt sérstaka og að ýmsu leyti sjálfstæða gerð orðræðu. 

Höfundur

Magnús Sigurðsson (f. 1984) lauk B.A.-prófi í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands árið 2007 og M.A.-prófi í almennri bókmenntafræði frá Háskólanum í Lundi árið 2012. Árið 2007 komu út þýðingar hans á Söngvunum frá Písa, ljóðabálki bandaríska ljóðskáldsins Ezra Pounds, og árið 2014 þýðingar hans á ljóðum bandarísku skáldkonunnar Adelaide Crapsey, Bláar hýasintur. Þá kom út úrval þýðinga Magnúsar á bandarískum samtímaskáldum í bókinni Að lesa ský árið 2018. Magnús hlaut styrk úr Háskólasjóði Eimskipafélags Íslands til að vinna að doktorsrannsókn sinni.

Hér er hægt að skoða myndir frá doktorsvörninni.

Guðmundur Hálfdanarson, Soffía Auður Birgisdóttir, Magnús Sigurðsson, Hólmfríður Garðarsdóttir og Torfi Tulinius.