Varði doktorsritgerð um afmyndun á þjóðveldisöld | Háskóli Íslands Skip to main content
29. apríl 2016

Varði doktorsritgerð um afmyndun á þjóðveldisöld

Sean Lawing hefur varið doktorsritgerð sína, Perspectives on Disfigurement in Medieval Iceland, við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Vörnin fór fram í Hátíðasal Háskóla Íslands 25. apríl.

Andmælendur voru Jón Viðar Sigurðsson, prófessor við Háskólann í Ósló, og William Ian Miller, prófessor við University of Michigan Law School. Aðalleiðbeinandi Seans var Ármann Jakobsson, prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda, en í doktorsnefnd voru auk hans Vésteinn Ólason, fyrrverandi prófessor í íslenskum bókmenntum og forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, og Lára Magnúsardóttir, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra.

Um efni ritgerðarinnar

Ritgerðin er rannsókn á líkamlegri afmyndun í íslenskri menningu á þjóðveldisöld, sér í lagi á 13. öld. Með orðinu afmyndun er átt við hvers kyns líkamlegar skerðingar eða frávik, hvort sem um er að ræða meðfæddar skerðingar, áunnar eða af manna völdum. Efniviður rannsóknarinnar eru norræn miðaldalög og miðaldabókmenntir. Þeir lagatextar sem liggja til grundvallar eru norsku lagasöfnin Gulaþingslög og Frostaþingslög og hin íslenska Grágás. Margvíslegar tegundir miðaldabókmennta eru greindar en Sturlunga saga er þó í forgrunni. Ekki er um heildarúttekt á efninu að ræða heldur eru í hverjum kafla teknir fyrir og greindir ólíkir þættir líkamlegrar afmyndunar allt frá vöggu til grafar. Umfjöllunarefnin eru: bætur fyrir limlestingar, útburður afmyndaðra barna, afmyndun og níð, limlestingar á Sturlungaöld og greftrun stakra líkamshluta. Sama nálgun er notuð í öllum þáttum ritgerðarinnar og með djúpgreiningu er sýnt fram á að í þeim textum sem rannsakaðir eru birtast ólík menningarleg og samfélagsleg viðhorf til afmyndunar og eðli hennar. Hægt er að túlka samskonar dæmi um afmyndun á margvíslegan hátt eftir sjónarhorni. Af þeim sökum er því hvorki mögulegt né æskilegt að setja fram einfaldar skilgreiningar á afmyndun á þjóðveldisöld og ætti að taka tillit til þeirrar niðurstöðu við frekari rannsóknir á efninu.

Um doktorsefnið

Sean Lawing er fæddur 15. maí 1969. Hann hefur lokið BA-prófi í þýsku og MA-prófi í germönskum málum og bókmenntum frá University of North Carolina, en hóf doktorsnám við Háskóla Íslands 2011. Hann er nú kennari við Department of History and Social Sciences í Bryn Athyn College í Pennsylvaniu, Bandaríkjunum.

 Ármann Jakobsson prófessor, Seans Lawing, Lára Magnúsardóttir og Vésteinn Ólason.
 Ármann Jakobsson prófessor, Seans Lawing, Lára Magnúsardóttir og Vésteinn Ólason.