Skip to main content
4. maí 2018

Vann að doktorsverkefni sínu í Japan

Bryndís Ólafsdóttir, doktorsnemi við Viðskiptafræðideild, fékk styrk úr Watanabe-styrktarsjóðnum við Háskóla Íslands, til þess að fara til Japans og vinna í doktorsverkefni sínu, en Háskóli Íslands er í sérstöku samstarfi um skiptinám við fjölmarga erlenda háskóla.

Watanabe-styrktarsjóðurinn var stofnaður við Háskóla Íslands árið 2008 með það að markmiði að styrkja gagnkvæm fræðileg tengsl Íslands og Japans. Sjóðurinn veitir íslenskum stúdentum og fólki í vísindum tækifæri til að stunda nám, rannsóknir og starfa í japönsku háskólasamfélagi og það sama gildir um japanska stúdenta og fólk í vísindum sem eiga þess kost að koma til Íslands. Nánari upplýsingar um sjóðinn má nálgast hér.

„Í janúar 2016 hóf ég doktorsnám í Viðskiptafræðideild eftir nokkuð langt hlé frá námi. Meginmarkmið rannsóknarinnar er að öðlast betri þekkingu og skilning á hvernig stjórnendur í litlum til meðalstórum fyrirtækjum á Norðurlöndum komast inn á markað í viðskiptaumhverfi í fjarlægum mörkuðum með áherslu á Japan og Kína. Þá er sjónum sérstaklega beint að tengslanetinu, utanaðkomandi áskorunum úr menningar- og stofnanaumhverfinu og aðgengi að dreifingaraðilum. Það sem hvatti mig áfram til að hefja þetta rannsóknarverkefni var reynsla af alþjóðavæðingu og að auka þyrfti þekkingu og skilningi á viðskiptaumhverfinu í Austur-Asíu meðal íslenskra útflytjanda. Leiðbeinandi minn í náminu er dr. Erla Sólveig Kristjánsdóttir lektor, en hún er doktor í alþjóðasamskiptum.“

Dvaldi tvo mánuði í Japan

Bryndís segir reynsluna sem hún fékk í Japan ómetanlega og hafa gefið sér mikið bæði í námi og persónulega. „Á meðan á dvöl minni stóð framkvæmdi ég hluta af vettvangsvinnunni við rannsóknina og tók viðtöl við milliliði, svo sem fólk í stofnunum, samtökum, ráðgjafa og jafnframt heimsótti ég þau norrænu fyrirtæki sem hafa útibú eða skrifstofu í Japan og taka þátt í rannsókninni. Tilgangurinn með vettvangsferðinni var þó ekki síst til að upplifa samfélagið, viðskiptalífið, og menninguna.“

Bryndís upplifði talsverðan menningarmun sem kom henni nokkuð á óvart. „Ég hafði ekki ferðast áður til Japans og tala ekki tungumálið en hafði áður ferðast t.d. til Kína og Suður-Kóreu en fannst það að sumu leyti aðgengilegra. Það má segja að það hafi verið mikil hindrun að tala ekki japönsku því að oft var erfitt að gera sig skiljanlega þar sem innfæddir tala litla sem enga ensku almennt eða veigra sér við að tala hana. Sömuleiðis halda Japanir ákveðinni fjarlægð og felst ákveðin kurteisi í því en gerir þá á sama tíma dálítið óaðgengilega. Það var því mikill munur á minni upplifun í Bandaríkjunum þar sem allir heilsa og ræða við ókunnuga en í Japan fannst mér ég stundum vera dálítið ósýnileg á meðan á dvöl minni stóð.“

Aftur á móti þá fannst henni frábært að ferðast um og upplifa menningu Japan. Hún leigði íbúð í göngufæri frá einum frægustu og fjölförnustu gatnamótum í Japan ef ekki í heiminum, í Shibuya hverfinu í Tokyo. „Þarna var þvílík mannmergð að hægt var að sitja í lengri tíma og fylgjast með mannhafinu en það var alltaf mikið líf og fjör á þessu svæði og margar verslanir, veitingastaðir og skemmtistaðir. En fyrir mataráhugafólk voru bæði matvöruverslanir og veitingastaðir með frábæru úrvali og gæðum. Á meðan á dvöl minni stóð fór ég líka til Kyoto og Hiroshima og svo minni staða í nágrenni Tókíó en ég mæli ég eindregið með að fara út fyrir höfuðborgina. Síðan er samgöngukerfið til mikillar fyrirmyndar hvort sem það er innan Tókíó eða milli stærri borga og sérlega auðvelt, fljótlegt og hagkvæmt að nýta sér.“

Þegar Bryndís sá auglýsingu um Watanbe-styrkinn á vef Háskólans ákvað hún að stökkva á tækifærið og senda inn umsókn. Þeirri ákvörðun átti hún ekki eftir að sjá eftir enda fékk hún styrk til þess að vinna að doktorsverkefni sínu í Japan sem fyrr. „Þessi styrkur er hugsaður bæði þeim sem hyggja á námsdvöl og þeim sem vilja dvelja í styttri tíma vegna fræðilegra rannsókna. Í rannsókninni minni er notast við eigindlega aðferðafræði með tilviksrannsóknum og viðtölum við milliliði og stjórnendur í dönskum, sænskum og íslenskum útflutningsfyrirtækjum og milliliði vegna alþjóðavæðingar fyrirtækjanna til Japan og Kína. Þetta var frábært tækifæri og mikill akkur í því að geta komist út til að taka viðtöl á staðnum sem gefur meira en Skype viðtöl þó svo að þau sé líka vel nothæf.“

Bryndís hefur alltaf haft mikinn áhuga á að ferðast og fræðast um ólíka menningarheima en eftir grunnnám í Háskóla Íslands fluttist hún til Bandaríkjanna í sex ár og tók þá tvöfalda mastergráðu (dual degree) í alþjóðatengslum og alþjóðasamskiptum við Boston University. „Þessi gráða er úr tveimur ólíkum deildum, þverfaglegt nám, þar sem aðaláherslan er alþjóðatengsl, annars vegar með stjórnmálafræðilegum grunni og hins vegar almannatengsl og markaðsfræði. Meistararitgerðin mín fjallaði um áskoranir fyrir Ísland og Noreg sem meðlimi í EES og þann lýðræðishalla sem felst í slíkri hliðaraðild að Evrópusambandinu. Eftir meistaranám velti ég fyrir mér að halda áfram í doktorsnám eftir hvatningu frá leiðbeinendum mínum en flutti heim og starfaði í hugbúnaðargeiranum, lengst af við sölu-og markaðssetningu hjá íslensku frumkvöðlafyrirtæki sem seldi aðallega á erlendum mörkuðum. Sem sölu- og markaðsstjóri þá öðlaðist ég mikla reynslu í að vinna með endursölu- og dreifingaraðilum sem og þeim sem keyptu tæknilausnir (OEM) en þeir voru dreifðir um heiminn þó svo að stærstu markaðssvæðin væru í Evrópu og Bandaríkjunum. Það sem mér þótti eftirtektarvert var hversu ólíkar kröfur aðilar í Austur-Asíu gerðu til dæmis til þjónustu af hendi framleiðenda, samskiptin voru öðruvísi og sömuleiðis fólst ákveðin hindrun í því að nálgast upplýsingar um þessi markaðssvæði. Rannsóknarviðfangsefnið sem ég valdi byggist á reynslu minni bæði úr náminu og vinnu en það má segja að það hafi verið upplifun mín að það væru fleiri hindranir að yfirstíga á fjarlægum mörkuðum, hvort sem er út frá ólíkum viðhorfum eða aðstæðum á markaði.“

Doktorsnám við Viðskiptafræðideild er 180 einingar. Námið byggir að mestu á sjálfstæðum rannsóknum nemanda undir handleiðslu kennara. Frekari upplýsingar um námið má finna með því að smella hér

„Ef áhuginn liggur þarna hjá einhverjum þá benti einn viðmælandi minn á annað spennandi verkefni, svokallað Vulcanus-verkefni (https://www.eu-japan.eu/events/vulcanus-japan). Þetta felur í sér ársdvöl í Japan með starfsþjálfun á japönskum vinnustað og einnig tungumálanám, en þetta er niðurgreitt af EU-Japan Centre for Industrial Cooperation (EEN) og vinnustaðnum,“ bendir Bryndís að endingu á.

Bryndís Ólafsdóttir