Skip to main content
14. janúar 2021

Valdimar kjörinn heiðursfélagi Bandarísku þjóðfræðisamtakanna

Valdimar kjörinn heiðursfélagi Bandarísku þjóðfræðisamtakanna - á vefsíðu Háskóla Íslands

Bandarísku þjóðfræðisamtökin gerðu Valdimar Tr. Hafstein, prófessor í þjóðfræði, nýverið að heiðursfélaga samtakanna að undangenginni kosningu. Þremur til fjórum þjóðfræðingum hlotnast þessi heiður árlega en hann felur í sér viðurkenningu jafningja á mikilsverðu framlagi til fagsins. Tilkynninguna ásamt umfjöllun um feril Valdimars og annarra nýrra heiðursfélaga má finna á síðu samtakanna.

Bandarísku þjóðfræðisamtökin voru stofnuð 1888 og fagfélagið telur 2.200 þjóðfræðinga. Á meðal annarra sem hafa á síðustu 50 árum verið kjörnir sérstakir heiðursfélagar má nefna Alan Dundes, Alan Lomax, Albert B. Lord, Barbara Kirshenblatt-Gimblett, Barbro Klein, Dell Hymes, Henry Glassie, Linda Dégh, Regina Bendix, Richard Bauman og Roger D. Abrahams ásamt Elliott Oring, James Leary, Timothy Tangherlini og John Lindow. Fjórir síðasttöldu hafa allir gegnt stöðu Fulbright-gestakennara í þjóðfræði við Háskóla Íslands á undaförnum tuttugu árum og Háskóli Íslands sæmdi John Lindow enn fremur heiðursdoktorsnafnbót árið 2018.

Valdimar er prófessor í þjóðfræði við Háskóla Íslands en hann lauk doktorsprófi í faginu frá Kaliforníuháskólanum í Berkeley árið 2004 og hefur verið virkur meðlimur bandaríska fagfélagsins undanfarna tvo áratugi, m.a. formaður alþjóðanefndar félagsins. Þá var Valdimar forseti Evrópsku þjóðfræðisamtakanna (SIEF, International Society for Ethnology and Folklore) frá 2013 til 2017.

Valdimar Tr. Hafstein