Unnið gegn endurteknum þunglyndislotum | Háskóli Íslands Skip to main content

Unnið gegn endurteknum þunglyndislotum

27. febrúar 2018

„Þunglyndi er vaxandi heilsufarsvandi sem kemur í lotum sem ganga yfir en hjá sumum koma slíkar lotur endurtekið fyrir. Mikilvægt er að veita þeim hópi þjónustu til að draga úr líkum á nýrri þunglyndislotu og auka þannig lífsgæði fólks,“ segir Ragnar P. Ólafsson, dósent við Sálfræðideild Háskóla Íslands. Hann vinnur ásamt doktorsnema sínum, Kristjáni Helga Hjartarsyni, að nýrri rannsókn þar sem áherslan er á að koma í veg fyrir endurteknar þunglyndislotur. 

Ragnar hefur ásamt samstarfsfólki sínu við Sálfræðideild unnið að rannsóknarverkefni undanfarin misseri þar sem skoðað er hvaða þættir spá fyrir um endurtekið þunglyndi hjá fólki. „Betri þekking á því getur nýst til að veita betri þjónustu til að koma í veg fyrir þunglyndi,“ segir hann.

Í nýju rannsókninni, sem nýverið var ýtt úr vör, eru þessar rannsóknir teknar skrefinu lengra með því að skoða hvort forvarnarmeðferð fyrir fólk með fyrri sögu um þunglyndi geti dregið úr líkum á nýrri þunglyndislotu. „Allt að 100 þátttakendum með fyrri sögu um þunglyndi verður boðin þátttaka en þeim verður síðan vísað í átta vikna forvarnarmeðferð þeim að kostnaðarlausu. Um er að ræða núvitundarmiðaða hugræna atferlismeðferð (e. Mindfulness Based Cognitive Therapy) sem hópmeðferð sem hefur sannað gildi sitt í erlendum rannsóknum,“ útskýrir Ragnar.

Hann segir enn fremur að meðferðin samanstandi af fræðslu um þunglyndi og tengsl hugsana og tilfinninga í þunglyndi en einnig hugleiðslu- og jógaæfingum sem þátttakendur stunda í meðferðartímunum og heima fyrir. „Í rannsókninni verður fólki boðið upp á þessa meðferð og síðan fylgt eftir í allt að tvö ár til að skoða hvaða áhrif meðferðin hefur á næmisþætti fyrir þróun og endurkomu þunglyndis,“ segir Ragnar.

Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í rannsókninni geta haft samband við rannsakendur með því að senda tölvupóst á rannsokn@hi.is. Einnig er hægt að lesa um rannsóknina og biðja um frekari upplýsingar á heimasíðu hennar. Rannsóknin er opin nýjum þátttakendum fram á vorið 2019.

Rannsóknarverkefnið er unnið með styrkjum frá Rannís og Háskóla Íslands.
 

Ragnar Pétur Ólafsson

Netspjall